STUNDARPUÐ á líkamsræktarstöðvum er ekki besta leiðin til að léttast, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem birtar voru í tímaritinu Nature í gær. Regluleg almenn hreyfing á borð við göngu eða hjólreiðar er líklegri til árangurs.

STUNDARPUÐ á líkamsræktarstöðvum er ekki besta leiðin til að léttast, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem birtar voru í tímaritinu Nature í gær. Regluleg almenn hreyfing á borð við göngu eða hjólreiðar er líklegri til árangurs.

Klaas Wersterterp, prófessor við Maastricht-háskóla í Hollandi, stjórnaði rannsókninni, en 30 karlar og konur voru þátttakendur. Að sögn Wersterterps getur brennsla líkamans aukist ef fólk hreyfir sig mátulega mikið í daglegu lífi og forðast að liggja í leti. Þannig fjúka kílóin og auk þess minnkar hættan á hjartasjúkdómum og óinsúlínháðri sykursýki.

Samkvæmt rannsókninni eru líkur á að verulegur hluti þeirra sem sækja líkamsræktarstöðvar lifi letilífi þess utan, sem þeir reyni að bæta fyrir með stundarpuði í "ræktinni". Í rannsókninni fundust engin tengsl milli hraða efnaskipta í líkamanum og ákafrar þjálfunar í skamman tíma. Hins vegar reyndist brennslan helmingi hraðari hjá þeim sem gengu eða hjóluðu í hlutfallslega lengri tíma en hjá þeim sem voru í kyrrstöðu.

Wersterterp mælir með því að þeir sem vilja auka hraða efnaskipta í líkamanum "skipti átakalitlu athæfi, eins og að horfa á sjónvarpið, út fyrir athafnir sem krefjast mátulegrar hreyfingar".

The Daily Telegraph.