Kristín Stefánsdóttir við vörustand með NO NAME vörum.
Kristín Stefánsdóttir við vörustand með NO NAME vörum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Stefánsdóttir, snyrti- og förðunarmeistari, er eigandi Cosmic ehf. sem á NO NAME-snyrtivörumerkið og NO NAME-förðunarskólann. Kristín fæddist í Vesturbænum í Reykjavík 1964 og ólst þar upp.

Kristín Stefánsdóttir, snyrti- og förðunarmeistari, er eigandi Cosmic ehf. sem á NO NAME-snyrtivörumerkið og NO NAME-förðunarskólann. Kristín fæddist í Vesturbænum í Reykjavík 1964 og ólst þar upp. Hún hóf nám í snyrtifræði árið 1980 hjá Maríu Dalberg á Snyrtistofunni Maju í Bankastræti. Einnig nam hún tísku- og ljósmyndaförðun við Complection London School of Make-up. Hún opnaði Snyrtistofuna NN á Laugavegi 27 árið 1982 og hóf um leið innflutning á NO NAME-snyrtivörum fyrir stofuna. Hún seldi stofuna og setti upp heildverslun með NO NAME-snyrtivörur 1988 og stofnaði síðan NO NAME-förðunarskólann 1997. Kristín hefur haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra um förðun og snyrtingu. Hún kenndi förðun á snyrtibraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti í sex ár og kennir við NO NAME-förðunarskólann jafnframt því að stýra fyrirtækinu.

Snyrtivörumerkið NO NAME er alíslenskt og vörur þess sérstaklega sniðnar fyrir íslenskar konur og íslenska húð. Nú er verið að breikka litaúrvalið og bæta við nýrri snyrtivörulínu fyrir konur með dökkt litaraft, því NO NAME er að hasla sér völl í útlöndum.

Þegar Kristín kom heim úr námi í London stofnaði hún Snyrtistofuna NN á Laugavegi 27 og hóf að láta framleiða snyrtivörur undir vörumerkinu NO NAME fyrir stofuna. Meðan Kristín var við nám í London hafði hún komist í kynni við stóra snyrtivöruverksmiðju í Bandaríkjunum, þá þriðju stærstu þar í landi, sem framleiðir vörur fyrir mörg þekkt vörumerki. Að sögn Kristínar er þetta hágæðavara, án ilmefna, ofnæmisprófuð og engar dýratilraunir gerðar við þróun vörunnar. Hún fór til Bandaríkjanna og valdi vörur í NO NAME-línuna.

"NO NAME er mitt eigið vörumerki og hefur eingöngu verið til sölu hér á landi undanfarin 15 ár," sagði Kristín. "Ég hef sjálf hannað förðunarlínuna. Litir hafa verið miðaðir við íslenska húð, sem er ljós. Ég hef bæði valið staðlaða liti frá framleiðandanum og látið sérframleiða liti inn í línuna." Kristín er mjög ánægð með samstarfið við þennan framleiðanda og segir vöruna hafa líkað vel.

Umbúðirnar, það er hylki, dósir og baukar, eru framleiddar annars staðar, til dæmis í Suðaustur-Asíu, og hefur Kristín valið þær úr staðlaðri framleiðslu eða látið hanna og framleiða. Kristín leggur áherslu á að NO NAME sé gæðavara sem standist ýtrustu kröfur, þótt verðið liggi nálægt miðju verðbilsins á markaðinum.

Jafn vöxtur

Vörurnar urðu fljótt vinsælar og skapaðist töluverð eftirspurn. Bæði vildu snyrti- og förðunarfræðingar kaupa og eins verslanir. Árið 1988 var salan orðin svo mikil að Kristín hætti rekstri snyrtistofunnar og einbeitti sér að heildsölu með NO NAME-snyrtivörur.

"Ég byrjaði smátt, innréttaði bílskúrinn þar sem ég bjó fyrir heildsölu og var með um tíu útsölustaði hér í Reykjavík og úti á landi," segir Kristín. Auk heildverslunarinnar var hún iðin við að halda förðunarnámskeið og fyrirlestra um förðun og snyrtingu. Þetta reyndist kjörinn vettvangur til að kynna NO NAME-snyrtivörurnar. Konur sem sóttu námskeiðin urðu tryggir viðskiptavinir.

Þar kom að Kristín flutti fyrirtækið í Ármúla 38 þar sem það var til húsa 1994-97. Hún segir að þá hafi hjólin farið að snúast fyrir alvöru og sölustöðum, bæði verslunum og snyrtistofum, fjölgað til mikilla muna. Í dag eru NO NAME-snyrtivörur seldar á um 45 stöðum hér á landi, í snyrtistofum, snyrtivöruverslunum, hársnyrtistofum, helstu Lyf og heilsu-apótekum, lyfjabúðum og í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli.

Þegar Kristín stofnaði fyrirtækið voru starfsmennirnir tveir. Helga Jónsdóttir förðunarfræðingur starfaði með henni í átta ár. Nú eru starfsmennirnir níu talsins. Auk Kristínar skrifstofustjóri, þrjár sölukonur og fjórir kennarar í förðunarskólanum.

NO NAME-förðunarskólinn

Þegar húsnæðið í Ármúla var orðið of lítið flutti Kristín fyrirtækið árið 1997 í mun stærra húsnæði á Hverfisgötu 76. Þá skapaðist grundvöllur til að stofna NO NAME-förðunarskólann sem hlotið hefur góðar viðtökur.

Í fyrra flutti fyrirtækið í Bolholt 6 þar sem heildverslunin og förðunarskólinn eru til húsa. Kristín keypti þar 600 m 2 húsnæði í félagi við Ingu Þyrí Kjartansdóttur. Inga rekur heildverslun með hárskraut og húðvörur ásamt naglaskóla í sama húsnæði.

Að sögn Kristínar er mikil aðsókn að NO NAME-förðunarskólanum. "Ég byrjaði með 14 nemendur en nú eru haldin sex námskeið á ári. Kennslunni er skipt í þrjár annir og komast 40 nemendur að á hverri önn. Við höfum útskrifað um 120 nema á ári og nú er verið að skrá nemendur fyrir næsta haust," segir Kristín. Nemendur eru á ýmsum aldri, allt frá 18 ára upp í um fimmtugt.

Grunnnámið í NO NAME-förðunarskólanum felst í þriggja mánaða námskeiði í tísku- og ljósmyndaförðun. Hægt er að velja um dagskóla eða kvöldskóla og er kennt í fjórar klukkustundir á dag, fjórum sinnum í viku, alls 240 klukkustundir. Í framhaldi af því er hægt að nema leikhús- og kvikmyndaförðun sem kennd er með sama fyrirkomulagi, fjórar klukkustundir á dag, fjóra daga í viku í 13 vikur.

Kristín segir að förðunarfræði sé ekki lögvernduð iðngrein og því sé þetta nám með námskeiðssniði. "Þetta er stutt nám og gefur góða atvinnumöguleika fyrir þær sem vilja. Langflestir nemenda, eða nálægt 80%, eru að læra þetta fyrir sjálfa sig, enda er það mottó skólans að skapa lífsstíl fyrir konur. Þær sem hafa viljað leita sér vinnu að loknu námi hafa átt auðvelt með að fá hana."

Íslensk fegurð

Kristín segir að hér á landi sé ótrúlega mikill áhugi á förðun og snyrtingu. Það sjáist vel á því að hér eru starfræktir þrír förðunarskólar en fjórir í heimsborginni Lundúnum.

Aðspurð segir Kristín að á Íslandi sé góður markaður fyrir snyrtivörur og salan mun meiri en ætla mætti af höfðafjölda landsmanna.

"Íslenskar konur hugsa mikið um útlitið. Þær nota mikið af kremum og öðrum snyrtivörum. Fylgjast vel með því sem er að gerast í tískuheiminum og eru mjög framarlega varðandi tísku. Þær eru einnig mjög nýjungagjarnar. Þetta á ekkert síður við um konur úti á landi en hér á höfuðborgarsvæðinu."

Auk förðunarskólans hefur Kristín verið dugleg við að halda námskeið fyrir smáa og stóra hópa, eins koma margar konur til hennar á einkanámskeið og læra að farða sig sjálfar. "Þær koma líka til að fylgjast með því sem er að gerast, endurnýja snyrtibudduna og útlitið. Það er áberandi hvað íslenskar konur fara mikið á snyrtistofur og hugsa vel um útlitið. Það er ekki að ástæðulausu að það er talað um að íslenskar konur séu þær fallegustu í heiminum."

Andlit ársins

Undanfarin tíu ár hefur NO NAME valið Andlit ársins, konu sem hefur verið snyrt með NO NAME-snyrtivörum og prýtt auglýsingar fyrirtækisins það árið. Stefnt er að því að kynna 16. Andlit ársins hér á landi hinn 30. apríl næstkomandi.

Þetta val hefur ævinlega vakið mikla athygli, að sögn Kristínar, ekki síst það að konurnar eru ekki valdar úr hópi kornungra fyrirsætna eins og snyrtivörufyrirtæki gera gjarnan. "Við höfum valið þroskaðar konur sem hafa sterkan persónuleika. Konur með jákvæða ímynd og innri fegurð. Þetta hefur fengið mjög góðar viðtökur. Mér varð ekki ljóst, fyrr en ég fór að vinna að útflutningi á NO NAME-snyrtivörum, að við erum líklega fyrsta snyrtivörufyrirtæki í heiminum til að velja andlit tengd afmörkuðu markaðssvæði til að kynna vöruna." Ætlunin er að nota markaðssetningu af þessu tagi hvar sem NO NAME nemur land.

Á markað erlendis

Kristín segir að sér hafi verið ljóst að fyrirtækið var búið að ná góðri fótfestu á heimamarkaði og ekki miklir stækkunarmöguleika hér heima. Hún hafði orðið vör við að konur búsettar erlendis, sem höfðu kynnst NO NAME-vörunum, voru að láta útvega sér þær héðan. Eins hafa þær fengið mjög góðar viðtökur í fríhöfninni. Hún þreifaði aðeins fyrir sér með útflutning til Svíþjóðar, en hafði ekki árangur sem erfiði.

Hins vegar hafa NO NAME-snyrtivörurnar nú náð fótfestu í Noregi og gengur markaðssetning þar að óskum, að sögn Kristínar. "Við byrjuðum í fyrra í Noregi. Ég fór þá út og hélt námskeið. Umboðsmenn okkar í Noregi heita Gyða Laufey Kristinsdóttir og Jórunn Nordeide. Þær eru báðar snyrti- og förðunarfræðimeistarar, þekkja þennan markað og hafa sambönd." NO NAME-vörurnar voru fyrst boðnar til sölu í verslun Magic-keðjunnar í nýjustu verslunarmiðstöð Oslóar, Oslo City.

"Það varð algjör sprenging," segir Kristín um viðtökurnar. "Þær tóku vörurnar inn í október og nú eru útsölustaðirnir orðnir sex án þess að nokkuð hafi verið auglýst. Margir hafa hringt að fyrra bragði, bæði snyrtistofur og verslanir, og óskað eftir að fá vörurnar til sölu." Þá má geta þess að þrír norskir snyrtiskólar eru farnir að nota NO NAME-snyrtivörur. Um þessar mundir stendur yfir leit að fyrsta Andliti ársins í Noregi og verður valið væntanlega kynnt á næsta ári. Þá er einnig ráðgert að opna NO NAME-förðunarskóla þar í landi í september næstkomandi. Skólinn verður rekinn með sama sniði og hér á landi.

Kristín segir að í Noregi sé meira um konur með dökkt litaraft en hér. Þessi nýi markhópur hafi kallað á nýja liti í förðunarlínu NO NAME. "Ég hannaði því förðunarlínu fyrir dökka húð sem fer á markað í Noregi og verður einnig seld hér. Konur með dökka húð hafa ekki átt auðvelt með að fá snyrtivörur við sitt hæfi í Evrópu, þótt slíkar förðunarlínur séu algengar í Bandaríkjunum."

Markaðssókn í Þýskalandi

Nú er nýlokið þátttöku NO NAME í verkefninu Markaðsstjóri til leigu, á vegum Útflutningsráðs Íslands. Þetta verkefni hófst 1999 og segir Kristín að tækifærið hafi verið notað til markaðssóknar í Þýskalandi. Fyrir milligöngu Gyðu L. Jónsdóttur, sem stjórnaði verkefninu hjá Útflutningsráði, var fenginn sérstakur ráðgjafi í Þýskalandi. Sá heitir Benny Sörensen, er danskur að ætt en búsettur í Þýskalandi. "Ég fór til Þýskalands í janúar og var á stanslausum fundum í þrjá daga," segir Kristín. Sörensen markaðsráðgjafi hafði undirbúið fundina og ef mælikvarði umfangs er lagður á viðmælendur þá voru þeir allt frá einstaklingum með snyrti- og förðunarstofur upp í fulltrúa verslunarkeðju með 640 verslanir. Kristín segir að samstarfið við markaðsráðgjafann hafi sparað mikinn tíma og fjármuni.

"Ég er tilbúin í aukna sölu og þarna náðum við viðskiptasamböndum sem verið er að vinna í núna."

Þótt viðskipti NO NAME í Noregi séu rétt að byrja hafa þau vakið athygli í nágrannalöndunum. Kristín segir að fyrirspurnir hafi borist bæði frá Svíþjóð og Finnlandi, sem verið er að athuga. Hún segist vilja ná betri fótfestu í Noregi og læra af markaðssetningunni þar, áður en tjaldhælarnir eru færðir enn frekar út á Norðurlöndum.

Atvinnuskapandi snyrtivörur

Allt sem snýr að NO NAME-snyrtivörunum, annað en sjálf framleiðsla og blöndun efnanna, er unnið hér á landi og skapar mörg störf, að sögn Kristínar. Þar má nefna markaðssetningu, gerð kynningarefnis, auglýsingagerð, gerð ytri umbúða og pökkun. Kristín segir að sú stefna hafi verið tekin við gerð kynningarefnis, auglýsinga og veggmynda að sýna vörurnar í íslenskri náttúru. "Ísland hefur afskapalega jákvæða ímynd og er vinsælt alls staðar um þessar mundir. Það er því jákvætt að tengja þessar vörur við óspillta náttúru landsins," segir Kristín. Hún segir að ljósmyndarinn Atli hafi unnið fyrir NO NAME um árabil og honum hafi tekist vel að tengja náttúruna og NO NAME-vörur í ljósmyndum sínum.

Vörurnar eru settar í standa fyrir verslanir, bæði gólf- og borðstanda. Þessir standar eru gerðir úr akrílplasti og framleiddir hér á landi.

Baukarnir, dósirnar og hylkin sem innihalda farða, krem og liti verða nú sett í öskjur, umslög og kassa. Markaðssetning utanlands kallar á það, bæði vegna strikamerkinga og innihaldslýsingar. Þessar ytri umbúðir hafa verið hannaðar í samvinnu við Odda og eru prentaðar í Kassagerðinni. Kristín segir að þær verði kynntar um leið og Andlit ársins 2001. Allar NO NAME-vörur eru fluttar hingað til lands og umpakkað á lager fyrirtækisins í Bolholti 6 í Reykjavík.

NO NAME hefur ekki verið með sérstaka verslun hér á landi. Þegar hin nýja Debenhams-verslun verður opnuð í Smáralind er ætlunin að vera þar með sérstaka NO NAME-afgreiðslueiningu, líkt og algengt er í snyrtihúsum erlendis þar sem hver framleiðandi hefur sína einingu. "Það eru þær Ásdís H. Ágústsdóttir og Sólveig Berg Björnsdóttir, arkitektar hjá Yrki arkitektum hf., sem hanna þessa einingu," segir Kristín. Hugmyndin er að slíkar NO NAME-einingar verði síðar settar upp í snyrtihúsum erlendis.

Miklir möguleikar

Kristín hefur mikil áform um uppbyggingu fyrirtækisins og segist sjá fyrir sér að NO NAME-snyrtivörurnar verði markaðssettar á heimsvísu. Í hverju landi verði farin svipuð leið og hér með vali á Andliti ársins og förðunarkennslu. Til að það geti orðið þarf aukið fjármagn.

"Fyrirtækið hefur vaxið svo ört og tækifærin eru svo mikil að næsta verkefni mitt er að finna íslenska fjárfesta til að styrkja reksturinn enn frekar," sagði Kristín Stefánsdóttir.

eftir Guðna Einarsson.