Ríkharð H. Hördal fæddist í Lundar í Manitoba 18. desember 1946. Hann lést í Helsinki í Finnlandi 19. mars síðastliðinn. Móðir hans er Jocelyn Snæbjörnsdóttir, Hördal, f. 19. febrúar 1928. Faðir hans var Óskar Jónsson Hördal, f. 22. júní 1918, d. 15. febrúar 1985. Bræður Ríkharðs eru Jóhann, f. 6. júlí 1948, Douglas, f. 18. júní 1952, d. 15. júlí 1973, og Randall, f. 29. janúar 1960.

Eiginkona Ríkharðs er Álfheiður B. Einarsdóttir, f. 28. maí 1945. Dóttir þeirra er Lára B. Hördal, f. 1976.

Útför Ríkharðs fer fram frá Dómkikjunni á morgun, mánudaginn 2. apríl, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Langt af fjöllum hríslast lækirnir og laða þig margir til fylgdar. En vegurinn er einn, vegurinn velur þig, hvert spor þitt er stigið. Og frá upphafi allra vega fór enginn þá leið nema þú. (Snorri Hjartarson.)

Langt af fjöllum hríslast lækirnir

og laða þig margir til fylgdar.

En vegurinn er einn, vegurinn

velur þig, hvert spor þitt er stigið.

Og frá upphafi allra vega

fór enginn þá leið nema þú.

(Snorri Hjartarson.)

Hvert ber sá vegur okkur sem við göngum að morgni? Hversu löng verður vegferð okkar í þessu lífi, hverjar eru vörðurnar, hver blámi fjallanna, hversu skært verður skin stjarnanna eða glit sólarinnar? Munum við aðeins blína hokin í tilbreytingarlausan veginn, sneydd þeirri gjöf að rísa upp og sjá og heyra umhverfi lífsins? Þeim sem við syrgjum svo mjög á þessari stundu og sem hvarf frá okkur svo skyndilega var gefin sú náðargjöf að skynja litróf hins fegursta í lífinu hvern einasta dag um lífsveg sinn.

Ríkharð Hördal - Rikki - hafði fjölbreytta menntun og var fjölfræðingur af Guðs náð, en hafði jafnframt reynslu af margvíslegum störfum og viðfangsefnum. Fyrst og fremst hafði hann þó ótrúlegt næmi fyrir tilfinningum fólks og formi og fegurð hluta og hlaut lífsstarf hans því að hneigjast til lista. Því kom það engum á óvart að hann lærði listaverkaforvörslu í Danmörku, eftir farsælan starfsferil, lengst af sem enskukennari. Með starfi sínu á sviði lista átti hann þess kost að kynnast bæði listaverkunum sjálfum en jafnframt listamönnunum sem nutu góðvildar hans og annálaðrar hjálpsemi. Fyrir réttum átján árum stofnaði Rikki listaverkaverkstæðið Morkinskinnu, ásamt Hilmari Einarssyni, og vann þar sleitulaust fram til ársins 1992. Þá bauðst honum starf sem yfirmaður forvörsludeildar EVTEK (Institute of Arts and Design) í Helsinki. Fyrirhugað var að hann tæki starfið að sér í eitt til tvö ár og fékk þá til starfa í sinn stað í Morkinskinnu félaga sinn Ólaf Inga Jónsson. Árin hans Rikka í Finnlandi urðu hins vegar níu og naut hann mikilla vinsælda þar sem frábær skipuleggjandi og leiðbeinandi. Vann hann þar mikið brautryðjandastarf er hann tók við forvörsludeild við EVTEK, þeirri fyrstu sinnar tegundar í Finnlandi. Þetta var hugsjónastarf, þar sem víðsýni hans, ósérhlífni og fagmennska, ekki síst í mannlegum samskiptum, fengu notið sín til fulls. Hann lagði þunga áherslu á að efla menningartengsl innan síns fags milli háskóla, listasafna og sambærilegra menningarstofnana víða um heim og opna þannig og víkka sjóndeildarhring nemenda sinna og annarra með aukinni innsýn í heim listanna og nútímaforvörslu, þannig að menntun þeirra yrði ekki eingöngu bundin við sjálft skólanámið, því þröngsýni og fordómar voru eitur í hans beinum. Átti hann stóran þátt í því að efla gæði forvörslunnar með samvinnu forvarða innanlands sem utan og bæta skilyrði til betra grunnnáms við viðurkennda skóla. Glöggt dæmi um þetta er samningur sem menningaryfirvöld Finna og Eista gerðu með sér nýverið sem gerir þremur eistneskum nemendum á ólíkum sviðum kleift að stunda fjögurra ára nám við EVTEK. Um langt skeið hafði Rikki einnig aðstoðað fagfólk frá Eystrasaltslöndunum til að sækja út fyrir lönd sín eftir þekkingu, þá sérstaklega til Norðurlandanna, og til að efla samvinnu á milli þeirra. Afrakstur þess var m.a. alþjóðleg ráðstefna, "Baltic-Nordic Conference on Conserved and Restored Works of Art", sem haldin var í Tallinn haustið 1999. Þörfin þar var vissulega brýn, en umfram allt gaf hann fólkinu þar trú á sjálft sig og störf sín á sviði listaforvörslunnar og opnaði þeim leiðir til annarra landa og menningarstofnana. Ennfremur fékk Alþjóðlega safnaráðið (ICOM-CC) að njóta hæfni hans þegar hann var valinn til forsvars fyrir vinnuhóp fyrir nám og starfsþjálfun á vegum forvörslunefndar ráðsins haustið 1999. Hann skynjaði þann gamla sannleika að saman stæði fólk sterkt en sundrað næði það engum árangri.

Árangur Rikka í starfi sem og í mannlegum samskiptum kom heldur engum á óvart sem til hans þekktu. Hann var vinmargur svo af bar og kom eins fram við alla, hvort sem þeir voru frægir listamenn eða þjóðhöfðingjar, eða þeir sem settir voru skör lægra í þjóðfélaginu. Fólk af öllu tagi laðaðist að honum og leitaði ráða til hans, hvort sem um var að ræða flókin ástamál, meðhöndlun á málverki eða ráðstefnuhald, því hann hafði þann afar sjaldgæfa hæfileika til að bera að láta fólki finnast það vera einstakt og frábært og líða vel í návist sinni. Hann var ljúfur og sanngjarn kennari, hrósaði fólki af einlægni og hvatti unga listamenn til dáða. Hann dæmdi ekki og kunni að hlusta á manneskjur og brosa með öllu andlitinu. Sömuleiðis fékk listfengi Rikka að njóta sín á sviði tónlistar og bókmennta því hann var víðlesinn bókamaður og stundaði píanóleik jafnframt því sem hann söng í Dómkórnum um árabil. Hann var lífsnautnamaður í orðsins fyllstu merkingu þar sem þó ætíð alls hófs var gætt, og ómissandi var hann hvar sem fólk kom saman. En fyrst og síðast var Rikki heimsmaður, einstakt ljúfmenni og heiðursmaður "par excellence".

Ríkharð Hördal kom um tvítugt um langan veg til litla Íslands að vitja róta sinna hér, alla leið frá Kanada, landi hinna miklu vídda. Með sér bar hann víðsýnina og þrána að sjá og skynja það sem er handan við allt sem er, að skynja hvaðan lækirnir hríslast og hvert þeir fara. Um tíma fengum við að njóta þessarar víðsýni og þess að fá að skoða okkur sjálfa og nánasta umhverfi í bjartara litrófi. Fyrir það erum við samstarfsmenn hans og vinir, og samferðafólk allt, svo óendanlega þakklát og erum sannfærð um að hann eigi sér nú sinn eigin ljóssins turn.

Við vottum aðstandendum öllum og vinum dýpstu samúð í miklli sorg og sárum söknuði.

Ólafur og Hilmar

í Morkinskinnu

og fjölskyldur.

Það eru liðin mörg ár síðan ég sá Álfheiði æskuvinkonu mína ganga Dyngjuveginn með háum ljóshærðum manni. Spennandi sjón. Ég sperrti upp augun. En hvað þau klæddu hvort annað vel. Björt og brosandi leiddust þau umvafin hamingju ástarinnar.

Það leið ekki langur tími milli þessarar myndar og þangað til Álfheiður kynnti mig fyrir kærastanum sínum, honum Rikka. Hann var Vestur-Íslendingur í íslenskunámi við Háskóla Íslands. Nafn hans var Ríkharð Hördal.

Rikki var heppinn þegar hann hitti Álfheiði, því með henni eignaðist hann á einu bretti stórfjölskyldu á Íslandi. Foreldrar Álfheiðar, systir og ótal skemmtilegar "töntur" voru lífið og kærleikurinn í fjölskylduhúsinu á Hjallavegi.

Þetta átti við Rikka, þennan ljúfa dreng, sem var hvort tveggja í senn félagslyndur og hlýr.

Í fyllingu tímans eignuðust Álfheiður og Rikki sólargeislann sinn, hana Láru Björk. Einkabarnið þeirra. Öll hreiðruðu þau um sig á Hjallaveginum. Þetta hús, Hjallavegur, er ótrúlegt hús, það er gætt þeim eiginleika, að það eins og teygist á því við hvern nýjan fjölskyldumeðlim og rými virðist alltaf nóg.

Árin liðu, nú sá ég Rikka ekki lengur bara á Dyngjuvegi. Vinnustaður okkar beggja var á Laugaveginum og nánast daglega öll árin mín í Tínu Mínu kom Rikki í gættina eða kíkti inn, svona eftir efnum og ástæðum. Oftar en ekki var mikið að gera hjá Rikka og margt á dagskrá, þannig að hann var á hraðferð en alltaf var jafn gaman að sjá hann og hvernig sem viðraði úti bar hann með sér sólskinið inn.

Í Morkinskinnu, fyrirtæki Rikka á Laugaveginum, vann Rikki við að bjarga gömlum verðmætum listaverkum. Hann var forvörður. Hann naut sín sannarlega innan um list og listamenn. Í Morkinskinnu var viðhafður skemmtilegur siður. Starfsvikan endaði oft á nokkurs konar opnu húsi, síðdegis á föstudögum.

Þá ræktaði Rikki vináttuna og bauð til samverustunda með spjalli og notalegheitum.

Álfheiður og Rikki slitu sambúð en þau voru svo lánsöm að slíta aldrei vináttunni. Saman fögnuðu þau öllum hátíðum með Láru sinni. Saman fögnuðu þau öllum mikilvægum viðburðum stórfjölskyldunnar.

Það var svo skrýtið, að þrátt fyrir nýja braut í lífi Rikka, héldu þau Álfheiður áfram í mínum huga sem heild.

Enn líða árin. Við Dónald erum á leið til Finnlands. Bjöllur hringja.

Rikki búsettur í Helsinki. Við slógum á þráðinn. Rikki, sami ljúfi drengurinn, fagnaði okkur sem bróðir og saman áttum við unaðsdaga á Runebergsgötunni.

Nú síðast föðmuðumst við Rikki í kærleikshúsinu á Hjallavegi. Það var 30. desember og framundan áramót - nýtt ár og ný öld. Við hlökkuðum öll til.

Rikki hafði tekið ákvörðun - framtíðarheimili hans átti að vera í Finnlandi.

Spennandi starfsvettvangur, þar sem hæfni Rikka naut sín vel.

Við kysstumst gleðilegt ár - fullviss um gleði þess og fyrirheit.

En almættið hafði tekið sína ákvörðun. Rikki er farinn til lands eilífðarinnar eftir hetjulega baráttu við afleiðingar hörmulegs slyss. Ég trúi því að þar standi Rikki, þessi góði vinur, baðaður fegurð og birtu ljóssins eina. Guð geymi hann og ástvini hans.

Helga Mattína Björnsdóttir,

Grímsey.

"Effervescent" var eitt af þessum vandmeðförnu ensku orðum sem við Ríkharð Hördal forvörður köstuðum á milli okkar í ærslafullum orðaleikjum forðum, hann í krafti uppruna síns í Íslendingabyggðunum í Winnipeg, ég í krafti háskólanáms í Bretlandi. "Freyðandi" segir orðabókin og vísar meðal annars til kampavíns. Nú þegar Ríkharð er allur kemur þetta orð ítrekað upp í huga mér.

Nærvera hans var ævinlega á við kampavín af bestu sort. Alls staðar þar sem hann birtist var eins og nærstaddir yrðu kátari, fyndnari og gáfaðri. Allt virtist mögulegt. "Af hverju ekki?" var viðkvæðið á þeim samkomum.

Og alls staðar þar sem hann birtist eignaðist Ríkharð vini, jafnvel óafvitandi. Í hvert sinn sem hann kom "heim" til Íslands beið hans stærri hópur manna sem vildi hitta hann að máli, ráðfæra sig við hann eða bara vera einhvers staðar í námunda við hann. Stundum íhugaði hann jafnvel að fara huldu höfði til að geta verið í friði með Álfheiði konu sinni og dótturinni Láru. Sem var erfitt fyrir hávaxinn mann með mikla útgeislun.

Skýringin á vinsældum Ríkharðs lá að hluta í fordómaleysi hans, viðleitni hans til að skilja fremur en að dæma. Hann hafði fengið í arf áhuga Íslendingsins á sérkennilegu fólki og hafði yndi af því að segja af því sögur á sinni eilítið gloppóttu íslensku - ég held að hann hafi aldrei náð fullu valdi á beygingum persónufornafna - en frásagnir hans voru alltaf græskulausar og uppfullar með góðlátlega undrun yfir uppátækjum mannskepnunnar. "Hugsaðu þér bara," sagði hann stundum, alveg dolfallinn yfir einhverju sem kaldhæðnari menn hefðu látið sér í léttu rúmi liggja.

Ég minnist sprenghlægilegra uppákoma sem snerust um bandarísku skáldkonuna Geirþrúði Stein, sem var firna sérvitur manneskja og höfundur. Ríkharð og nokkrir vinir hans stofnuðu auðvitað aðdáendaklúbb um hana og á góðri stund leiklásu þeir verk eftir hana af hæfilegu alvöruleysi. Mig hefði aldrei órað fyrir að hægt væri að gera gömlu klisjuna A rose is a rose is a rose svona óstjórnlega fyndna í flutningi.

Ríkharður fékk hugljómun um þrítugt, uppgötvaði þá að hann langaði umfram allt að helga sig viðgerðum listaverka. Þar var fagurkeri sannarlega á réttri hillu. Morkinskinna, fyrirtæki Ríkharðs og félaga hans, varð brautryðjandi hér á landi í faglegri umönnun myndverka af ýmsu tagi. Þar reyndi á smekkvísi viðgerðarmannsins, þolgæði og hæfileikann til að umgangast fólk með lasburða listaverk. Og ekki síst á "gott auga". Við Ríkharð vorum ekki alltaf sammála um þetta sérstaka líffæri; hann hafði öllu meiri trú á því en ég. En þegar á hólminn kom vorum við ótrúlega sammála um eðlisþætti góðrar myndlistar. Sjálfur eignaðist hann fjölda listaverka sem segja talsvert um helstu eðlisþætti hans sjálfs: viðkvæmni, kímnigáfu, skáldlega innsýn og prúðmennsku.

Ríkharð fékk aðra hugljómun á fimmtugsaldri, ákvað þá að taka boði sem hann hafði fengið um að byggja upp forvörslunám á akademískum grunni í Finnlandi. Sem segir sitt um álit sérfróðra á hæfileikum hans. Í Finnlandi tók hann sér bólfestu en vísiteraði Ísland um hver jól. Hann hafði nýlokið einni slíkri heimsókn stuttu áður en hann varð fyrir bíl. Á leiðinni út á flugvöll guðaði hann á glugga hjá þeim sem þetta skrifar. Eins og fyrri daginn var hann uppörvandi, ráðhollur og brennandi í andanum. Nokkrar skýjaborgir voru byggðar sem snöggvast. "Af hverju ekki?" sögðum við hvor við annan og hétum því að hittast í Helsinki við fyrsta tækifæri og ræða málin til hlítar.

Ástvinum Ríkharðs á Íslandi, í Kanada og í Finnlandi sendum við hugheilar samúðarkveðjur.

Aðalsteinn Ingólfsson

og fjölskylda.

Ríkharð Hördal kynntist ég að ráði fyrir rúmum tuttugu árum. Það var í Kaupmannahöfn, við vorum bæði í námi og þurftum að vinna með náminu. Það var auðvitað Rikki, eins og vinir hans kölluðu hann, sem benti mér á vinnustað þar sem unnið var utan hins venjulega vinnutíma. Þá kynntist ég því hve úrræðagóður hann var og hve sjálfsagt honum þótti að benda öðrum á leiðir í þeim efnum. Það var oft glatt á hjalla hjá okkur í kaffinu á þessum ágæta vinnustað þar sem við hittumst, nokkrir íslenskir námsmenn og ræddum um margt sem þá var efst á baugi í danskri umræðu. Ekki vorum við Rikki alltaf sammála og hvorugu tókst að sannfæra hitt, en aldrei slettist upp á vinskapinn. Við höfðum frekar gaman af stífninni í okkur og litum á karpið sem eins konar selskapsleik. Það var ekki síst umburðarlyndi Rikka sem ég kynntist þá og var svo ríkur þáttur í fari hans. Ég held að næm tilfinning hans fyrir fólki, breyskleika þess og styrk, hafi ráðið því að hann gat umgengist alls konar fólk, enda þekkti hann marga. Og mörgum kynntist maður fyrir hans tilstilli. Ef hann vissi af einhverjum, sem einhver annar hefði gaman af að kynnast, var hann ekki lengi að leiða fólk saman. Það var einhver hreyfanleiki í fari hans sem var bæði hrífandi og örvandi eða jafnvel ögrandi.

Rikki var Vestur-Íslendingur, sem hafði sest hér að, og var því Íslendingur og útlendingur í senn. Það kom manni því ekki á óvart, þegar hann fann sér starfsvettvang annars staðar en hér á landi. Hann fluttist til Finnlands fyrir um það bil átta árum og tók þátt í að byggja upp akademískt nám í forvörslu listaverka við lista- og hönnunarskólann í bænum Vantaa í nágrenni Helsinki. Hann var farinn að sjá árangur af því starfi og framtíðarhorfur voru góðar. Eftir að hann fluttist til Finnlands sáumst við sjaldnar, en alltaf mátti ég búast við að rekast á hann á förnum vegi, þegar hann skrapp heim í jólafrí. Oft var hann á hraðferð, enda lifði hann hratt og var yfirleitt með mörg járn í eldinum. Alltaf hitti maður þó gamlan og góðan vin þar sem hann var. Rikki var tryggur vinur vina sinna, þótt hann væri sestur að annars staðar, og þeir eru margir sem notið hafa gestrisni hans og rausnar, jafnt á finnskri grund sem hér heima. Því er ljúft að minnast hans og þakka honum margar góðar og skemmtilegar stundir. Ég sendi ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur.

Júlíana Gottskálksdóttir.

Rikki eins og hann var jafnan kallaður var mikill heiðursmaður. Ég sá hann fyrst fyrir rúmlega tuttugu árum í miðbænum svo myndarlegan og glaðlegan með fallegan svip og hann brosti til mín. Hann var greinilega nýtt andlit í miðbænum og fór flestra sinna ferða gangandi. Síðar þegar ég kynntist honum fann ég hversu mikill mannkostamaður hann var, bráðskemmtilegur, áhugasamur um flesta hluti og smitaði frá sér gleði og hlýju. Hann átti fjölda vina og kunningja og það var alltaf mikið líf í kringum hann og var hann alltaf hrókur alls fagnaðar. Hann var mjög fjölhæfur fagurkeri og gerði allt vel sem hann kom nálægt.

Að heimsækja hann til Helsinki var stórkostlegt og gaf hann sér alltaf góðan tíma til að sýna okkur alla uppáhaldsstaðina sína sem báru smekk hans gott vitni. Hann fór með okkur til Tallin þar sem við hittum Tano og fleiri vini hans sem fóru með okkur um alla borgina. Í Tallin er fjöldi gamalla og illa viðhaldinna húsa sem smám saman er verið að gera upp og er borgin að breytast í eina fallegustu borg Evrópu. Rikki hefur alltaf látið sér annt um gömul hús og barðist ötullega á sínum tíma með Torfusamtökunum og því var þessi ferð ógleymanleg í fylgd hans.

Síðast þegar ég hitti hann fyrir ári sýndi hann okkur stoltur forvarðardeild Listaháskólans í Helsinki, sem hann veitti forstöðu. Hann hafði byggt hana upp af mikilli fagmennsku og röggsemi úr því að vera lítil deild í eftirsótta fjölbreytta deild með nemendum frá öllum heiminum. Hann var mjög kröfuharður og vildi bara það besta frá nemendum sínum sem sýndu honum mikla virðingu. Þetta var mjög fróðleg og lærdómsrík heimsókn sem gaf góða innsýn inn í þetta mikilvæga fag. Hans sérsvið voru málverk og var einn nemenda hans að æfa sig á gömlu mjög illa förnu málverki sem Rikki hafði fundið fyrir tilviljun upprúllað á markaði. Manni féllust hendur að sjá alla vinnuna sem beið þessa vesalings nemanda en Rikki var sannfærður um að þetta tækist þótt það tæki nokkur ár!

Rikka á eftir að verða sárt saknað af öllum sem kynntumst honum og votta ég fjöldskyldu hans og aðstandendum mínu dýpstu samúð.

Hann er kvaddur með virðingu og þökk.

Anna Geirsdóttir.

Á þeim tíma þegar gömul hús þóttu ófín, nánast óværa í borginni við sundin, gekk Rikki til liðs við Torfusamtökin og gerðist þar öflugur liðs- og síðar stjórnarmaður. Þá var það ekki líklegt til vinsælda eða vænlegt til frama að taka þátt í baráttunni fyrir verndun byggingararfs þjóðarinnar. Sannfæring hans sagði honum hins vegar að hér væri verk að vinna og hans krafta væri þörf.

Fullur af hugmyndum, ráðagóður og velviljaður hellti hann sér út í starfið. Hann átti mjög auðvelt með að ná sambandi við fólk, hrífa það með sér og margan manninn sannfærði hann með rökvísi sinni og glöðu viðmóti.

Í bók Halldórs Laxness Yfirskyggðir staðir, útg. 1971, sem er safn ýmissa athugana höfundar um fjölbreytileg mál, er grein sem ber heitið Brauð Reykjavíkur. Þar er fjallað um húsin á Bernhöftstorfu og veika stöðu þeirra á þessum tíma. Þar segir höfundur m.a.: "Þegar menn heimta að þessi látlausu hús endurminninganna á Bernhöftstorfu verði afmáð og bera fyrir sig að þau séu úr sér gengin, þá er það ónóg röksemd. Þessi gömlu hús eru jafn ófúin og þau hefðu verið reist í gær. Hitt er svo satt að um viðhald þeirra hefur verið rekin sams konar pólitík og sveitastúlkur reka þegar þær láta tennurnar í sér grotna niður og verða að geiflum svo þær geti síðan farið suður og keypt sér falskan góm." Rikki vildi enga falska góma, þeir áttu að vera ekta. Hann vildi að söguþjóðin gerði sér sem gleggsta grein fyrir sérstöðu sinni og lífsháttum og legði rækt við verndun þeirra verðmæta sem hér er að finna.

Gegnum samvinnuna í Torfusamtökunum tengdumst við Rikki vináttuböndum sem ekki rofnuðu þótt samfundum fækkaði hin síðari ár. Síðast hitti ég hann í Helsingfors fyrir ári, þá fékk ég tækifæri til að kynna mér forvörsludeildina við Listaháskólann þar. Rikki veitti þessari deild forstöðu. Eldmóður skein úr augum hans þegar hann sagði frá öllum þeim margvíslegu verkefnum sem þarna var unnið að í því skyni að bjarga menningarverðmætum frá glötun og skerpa þekkingu á sögu þjóðarinnar. Ég sannfærðist um að þarna væri réttur maður á réttum stað. Samt vonaði ég innilega að Rikki kæmi aftur heim til þess að leggja lið baráttu fyrir betra mannlífi og betri borg sem alltaf þarf að vera í gangi. Opna augu og hvetja menn til dáða á hinum ýmsu sviðum. Við fórum saman til Tallin, kvöddumst og ætluðum að hittast aftur hress og kát. Af því varð ekki.

Fjölhæfur maður með frómt hjarta hefur yfirgefið okkur og ekki annað eftir en þakka honum góð kynni og samfylgd sem ávallt var uppbyggileg og fræðandi. Hans nánustu sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Guðrún Jónsdóttir arkitekt.

Ríkharð Halldór Hördal, forvörður og deildarstjóri forvörsludeildar EVTEK Institute of Art and Design, lést í Helsinki 19. mars 2001. Hann hafði þá verið á gjörgæsludeild eftir umferðarslys frá því 28. janúar.

Ríkharð fæddist árið 1946 í Lundar í Kanada. Báðir foreldrar hans voru af íslensku bergi brotnir og þar ólst Ríkharð upp. Hann lauk fyrsta háskólaprófi í Winnipeg með sagnfræði sem aðalgrein. Árið 1968 fluttist Ríkharð til Íslands og lauk þar fyrst prófi í íslensku fyrir erlenda stúdenta og síðan cand. mag. prófi í enskum bókmenntum áður en hann fann sinn rétta starfsvettvang. Hann lauk námi í forvörslu málverka við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn og vann eftir það um skeið við Munch-safnið í Ósló. Þá sneri hann aftur til Reykjavíkur og vann við málverkaviðgerðir í fyrirtæki sínu, Morkinskinnu, á árunum 1983-1992.

Árið 1992 var Ríkharð boðið að flytja fyrirlestra um forvörslu málverka við Vantaa School of Arts and Crafts í Finnlandi. Hann varð fljótlega mjög virkur í að efla starfsemi skólans og árið 1994 varð hann deildarstjóri forvörsludeildar skólans, sem hafði þá breytt um nafn og heitir nú EVTEK Institute of Arts and Design. Árið 2000 var hann skipaður dósent í forvörslu við stofnunina.

Ríkharð var mjög fróður um hvers kyns menningarmál. Hann var sólginn í að glíma við vandamál og var sannkallaður baráttumaður, en hann hafði líka ríka kímnigáfu og þegar við þetta bættist lagni hans við að fást við fólk, þá tókst honum að fá það í gegn sem þurfti. Honum tókst að byggja upp Vantaa-stofnunina sem alþjóðlega menntastofnun á örstuttum tíma. Hann átti drýgstan þátt í endurskoðun og þróun námsefnis sem nú telst meðal þess besta við evrópska háskóla. Hann byggði einnig upp mjög gott handbókasafn fyrir styrk sem hann fékk frá Getty-stofnuninni í Bandaríkjunum.

Ríkharð hafði mikil tengsl við sérfræðinga um allan heim á sviði forvörslu og þess vegna naut stofnunin þess að fá gesti alls staðar að úr heiminum sem komu til að flytja fyrirlestra á ýmsum sérsviðum. Þótt hann væri mjög virkur við að þróa námsefni stofnunarinnar og stýra uppbyggingu hennar, voru stúdentarnir alltaf í fyrsta sæti hjá honum. Hann var kröfuharður en hvetjandi kennari og var mjög mikið í mun að tryggja nemendum fjölbreytta starfsreynslu. Hann hvatti þá stöðugt til að leita styrkja og fá þjálfun við bestu og þekktustu stofnanir bæði innan Finnlands og utan.

Ríkharð var þátttakandi í margs konar alþjóðlegum verkefnum á sviði forvörslu. Þrír vinnufundir ICOM-CC (International Council of Museums - Committee for Conservation) voru haldnir í Vantaa og hann var formaður vinnuhóps um menntun og þjálfun forvarða. Hann var einn af stofnendum ENCORE, (European Network for Conservators-Restorers Education) og var fulltrúi Vantaa-stofnunarinnar í mörgum verkefnum á vegum Evrópusambandsins. Hann var stjórnandi European Preventive Conservation Strategy Project, og lauk því starfi með mjög mikilvægum fundi sem haldinn var í Vantaa í september 2000, þar sem fulltrúar frá 23 löndum samþykktu viljayfirlýsingu sem kallast "Vantaa-skjalið". Annað verkefni sem var honum mjög kært var kallað "Kaleidoscope" en það er evrópskt orðasafn í forvörslu á sex tungumálum sem hann ætlaði að gefa út í árslok.

Ríkharð var ákaflega fær í sérgrein sinni og stefndi alltaf að mestu mögulegum gæðum í því sem hann fékkst við. Forvarðamenntun í Finnlandi hefur notið krafta hans og óbilandi bjartsýni undanfarinn áratug. Hans verður minnst sem heimsborgara sem hafði sterka trú á manninum og eiginleikum hans. Margir kollegar hans um allan heim áttu þess kost að kynnast honum og smitast svolítið af lífsgleði hans og krafti. Hans verður sárt saknað hér á stofnuninni.

Maisa Huuhka, rektor Evtek Institute of Art and Design.

Það var sólskin þegar við kynntumst Rikka fyrst þótt það væri miður vetur og það var sólskin daginn sem hann kvaddi þennan heim. Rikki var á margan hátt maður ljóss og sólar. Hann bar með sér birtu inn í líf þeirra sem hann hitti og hann var ósínkur á að gleðja aðra.

Þótt við þekktum Rikka aðeins í stuttan tíma eru endurminningarnar margar og notalegar. Í minningunni sjáum við Rikka dansa í stofunni með litlu finnsk-frönsku vinkonur sínar, Sari og Suzanne, á tánum og ógleymanlegar eru tilraunir hans til að dansa finnskan tangódans við fullorðnar vinkonur! Rikki hafði ótakmarkaðan og fordómalausan áhuga á lífinu og fólkinu sem hann hitti og hafði einstakan hæfileika til að skapa tengsl. Hann sá ætíð til þess að enginn væri útundan. Hann var sá sem sameinaði okkur hin, en hann var samt ávallt miðpunkturinn.

Við sendum Álfheiði og Láru okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigrún Klara og Jónína.

Það var mikið áfall þegar ég heyrði að Rikki hefði lent í bílslysi í Helsinki og lægi milli heims og helju. Það var ennþá sárara að frétta að hann hefði dáið.

Ég kynntist Rikka þegar ég kom fyrst til Reykjavíkur árið 1983 til að kenna danskar bókmenntir við Háskóla Íslands. Hann var einn af mínum fyrstu nemendum og mér fannst það eins og náðargjöf að hafa hann í hópnum. Það var ekki nóg með að hann væri alltaf jákvæður og bjartsýnn, heldur bjó hann yfir einstakri tegund af innri árvekni sem birtist í því að alls staðar sem Rikki var fann maður fyrir sérstakri og hlýlegri návist hans.

Ég minnist hans líka fyrir það hvað hann tók lífinu með mikilli ró. Ekki síst þegar hann gerði nokkuð sem afskaplega fáir leikarar hér í Danmörku þora að gera, það er að syngja kvæðin sem menningarfrömuðurinn Poul Henningsen orti til Livu Weel. Í tengslum við námskeið sem fjallaði um millistríðsárin settu nemendur mínir upp revíu með textum eftir Henningsen og nú sé ég Rikka fyrir mér, í Norræna húsinu, í Vík og á Selfossi að syngja: "Man binder os på mund og hånd, men man kan ikke binde ånd, for ingen kan ejes, vi flagrer os fri." Svona var Rikki í hnotskurn.

Og nú, þegar hugur minn er hjá öllum þeim sem eru hræddir um að hann sé horfinn á brott, þá sé ég hann svona fyrir mér, með sín tindrandi augu, eins og hann vissi meira en við hin um himininn og stóra leyndardóma lífsins, sem hann hlakkaði til að við hin fengjum einhvern tímann hlutdeild í.

Hann söng þessa vísu af sinni undarlegu, gleðilegu alvöru. Hvorki ég né nokkur annar í salnum var í vafa um merkinguna. Hvað svo sem kemur fyrir mann, þá getur það ekki fjötrað andann. Hann gefst aldrei upp.

Rikki hafði sérstaka elskulega þolinmæði í garð þeirra sem ekki skildu þetta.

Við erum mörg sem erum sorgmædd yfir því að hafa Ríkharð Hördal ekki lengur á meðal okkar. Hvenær sem maður var niðurdreginn tókst Rikka alltaf að beina sjónunum að raunverulegum gæðum lífsins - og maður var aftur með, þar sem þægilegt var að vera.

Ég þakka innilega fyrir að hafa fengið að kynnast Rikka og notið þeirra forréttinda að hafa átt hann að vini.

Lisa von Schmalensee Burgess.

Kveðja frá Félagi norrænna forvarða - Íslandsdeild

Á morgun kveðjum við einn félaga okkar, Ríkharð H. Hördal.

Þegar hann kom heim frá námi í Kaupmannahöfn var hann einn þeirra sem hleypti nýju lífi í félag forvarða. Hann sat í stjórn þess í nokkur ár. Á þeim tíma efldist samvinnan við deildir annarra landa, lög félagsins voru samin svo og siðareglur forvarða.

Undanfarin ár var hann virkur í alþjóðlegu samstarfi forvarða, þar sem hæfileikar hans til að kynnast fólki og hrífa með sér nutu sín til fulls.

Við sendum aðstandendum hans samúðarkveðjur.

Halldóra Ásgeirsdóttir,

formaður.

September 1968. Laugarvatn. Kynningarnámskeið á vegum menntamálaráðuneytisins fyrir erlenda nemendur og kennara við Háskóla Íslands 1968-69. Þá kynntist ég fólki frá ýmsum löndum sem ég sá oft þennan vetur, og meðal þeirra var einn sem reyndist vera sannur vinur í rúm 30 ár. Í september 1968 var Rikki Hördal 21 árs, nýkominn frá Vesturheimi, frá bænum Lundar í Manitoba, til að kanna rætur sínar og læra móðurmálið. Eitt fallegt síðdegi gengum við tveir saman upp á Laugarvatnsfjall, nutum útsýnisins og veðursins, eftirvæntingarfullir þess sem beið okkar hér á Íslandi.

Rikki stóð sig vel: Hann tók B.Phil.-próf í íslensku fyrir erlenda stúdenta, MA-próf í ensku, kvæntist góðri konu (ég þykist eiga heiðurinn af því að hafa kynnt hann og Álfheiði, enda var hún nemandi minn); þau eignuðust dótturina Láru; hann starfaði fyrir Loftleiðir í nokkur ár; síðar tók kennsla við, en hann kenndi við Flensborgarskóla í Hafnarfirði. En þetta var ekki nóg fyrir mann með sterkan vilja og næmar tilfinningar fyrir alls konar listum: hann fór til Kaupmannahafnar, skráði sig í Konunglegu listaakademíuna og lauk prófi í forvörslu málverka árið 1982. Ári síðar stofnaði hann, ásamt Hilmari Einarssyni, fyrirtækið Morkinskinnu, til þess að annast viðgerðir listaverka. Morkinskinna gekk vel frá upphafi og skiptir miklu máli í íslenskum listaheimi.

En eins og fyrr þurfti Rikki að spreyta sig á nýju viðfangsefni. Árið 1993 flutti hann til Finnlands, þar sem hann kenndi forvörslu og tók mikinn þátt í uppbyggingu forvörsludeildar Espoo-Vantaa Institute of Technology, og ég er viss um að honum vegnaði þar mjög vel. Við hjónin vorum svo heppin að vera boðið heim til þeirra Álfheiðar þegar hann var hér um jólin, og það var mjög ánægjulegt að sjá að hér var maður sem var sáttur við lífið og þá stefnu sem hann hafði tekið.

Af lífshlaupi Rikka sést að hann var ákveðinn, duglegur, djarfur og metnaðargjarn maður. En það sem mér finnst mest um vert var að hann átti samtímis aðra hlið. Hann var, ólíkt mörgum sem hafa náð frama, ljúfur, þægilegur, hlýr, tilfinninganæmur maður, sem bar mikla umhyggju fyrir öðru fólki. Bros hans gleymist ekki þeim sem kynntust honum - það minnir á bros Gatsbys í bók eftir F. Scott Fitzgerald: "Þetta var eitt af þessum sjaldgæfu brosum sem hafa eiginleika ævarandi huggunar, bros sem maður rekst á kannski fjórum eða fimm sinnum á ævinni. Það sneri að - eða virtist snúa að - öllum ævarandi heiminum í eitt augnablik, og svo beindist það að þér með ómótstæðilegum fordómum þér í hag." Og þar að auki, eins og ég komst að strax þennan septemberdag 1968 á Laugarvatni, var Rikki maður sem var auðvelt að eiga skemmtilegar og um leið innihaldsríkar samræður við.

Robert Cook.

Júlíana Gottskálksdóttir.