Kristín Vala Ragnarsdóttir
Kristín Vala Ragnarsdóttir
Þegar Jane Plant fór að skoða tíðni og útbreiðslu brjóstakrabbameins í heiminum sló hana strax hve há tíðnin er á Vesturlöndum, segir Kristín Vala Ragnarsdóttir, en lág í Austurlöndum.
ER MJÓLK holl? var spurning sem svarað var á Vísindavef háskólans nýlega. Ekki ætla ég að andmæla neinu sem þar var sagt - en vil benda á aðrar skoðanir á hvort mjólk sé æskileg fæða fyrir fólk. Í bók sem nýlega var gefin út af Virgin Publishing, London (2000 í bókarformi, 2001 á kiljuformi; ISBN 0 7535 0596 7) í Bretlandi og Bandaríkjunum, sem ber titilinn "Þitt líf í þínum höndum" (Your Life in Your Hands) og er skrifuð af Jane Plant, kemur fram hvernig höfundur læknaði sjálfan sig af brjóstakrabbameini með því að hætta að borða allar mjólkurvörur.

Jane Plant fær brjóstakrabbamein

Jane Plant er jarðefnafræðingur og starfar sem aðstoðarforstjóri bresku jarðfræðistofnunarinnar (British Geological Survey) og sem prófessor við Imperial College of Science, Technology and Medicine í London.

Hún fékk brjóstakrabbamein 1987 þegar hún var 42 ára gömul. Eftir að ganga í gegnum lyfja og geislameðferðir í 6 ár var svo komið að krabbameinið svaraði engri meðferð og henni var sagt af sérfræðingunum sem önnuðust hana að hún myndi einungis lifa 3 til 6 mánuði til viðbótar. Á þessum sex árum sem hún var í meðferð var tekið af henni annað brjóstið og margir kirtlar voru fjarlægðir. Þegar svo var komið að engin meðferð dugði lengur, ákvað hún að annaðhvort myndi hún deyja drottni sínum eða nota sína þekkingu á vísindalegri vinnu til að reyna að bjarga sínu eigin lífi - hún kaus seinni kostinn og tókst að bjarga sjálfri sér. Nú eru liðin 8 ár og Jane Plant er við góða heilsu. Hún gjörbreytti mataræði sínu og missti aldrei hárið á meðan hún gekk í gegnum lyfja- og geislameðferðir. Mataræðið kallar hún "Plant-áætlunina" (the Plant programme).

Mér finnst þessi bók svo merkileg að mig langar til þess að benda Íslendingum á að lesa hana.

Mjólkurneysla og tíðni krabbameins

Þegar Jane Plant fór að skoða tíðni og útbreiðslu brjóstakrabbameins í heiminum sló hana strax hve há tíðnin er á Vesturlöndum (90 tilfelli á 100.000 hvítar konur í Bandaríkjunum) en lág í Austurlöndum (11 tilfelli á 100.000 konur í sveitum Kína). Sama er að segja um tíðni blöðruhálskrabbameins karlmanna (137 á 100.000 svarta karlmenn í Bandaríkjunum en 0,5 á 100.000 karlmenn í sveitum Kína). Eftir að skoða vandlega alla þætti sem hafa verið lagðir til af vísindamönnum að vera mikilvægir fyrir þróun krabbameins eins og genagerð, estrógen (t.d. notkun pillunnar), fitu í fæði og persónugerð - komst hún að þeirri niðurstöðu að einungis umhverfisþættir gætu verið mikilvægir fyrir hana sjálfa og þróun hennar brjóstakrabbameins. Jane Plant settist því niður með manninum sínum og bar saman lifnaðarhætti Kínverja og Vesturlandabúa. Bæði hafa þau unnið mikið í Austurlöndum og Jane hafði í fórum sínum faraldsfræðikort með útbreiðslu brjóstakrabbameins sem sýndi að brjósta- og blöðruhálskrabbameinstíðni er hærri í Hong Kong en í sveitum Kína. Hún dró því þá alyktun að í Hong Kong væri að finna áhrif af lifnaðarháttum Vesturlanda og því væri lykilinn að gátunni að finna í mismunandi lifnaðarháttum Vesturlanda- og Austurlandabúa.

Niðurstaða hjónanna var að eini stóri mismunurinn væri að í Austurlöndum er enginn mjólkuriðnaður. Hún minntist þess að samstarfskonur hennar í Kína höfðu eitt sinn sagt henni, að Vesturlandabúar lyktuðu af súrri mjólk og að brjóstakrabbamein er kallað ríkrakvennasjúkdómur í Kína! Jane hætti því að borða allar mjólkurvörur, bæði mjólkurafurðir og allan tilbúinn mat með mjólkurdufti, undanrennu o.s.frv. Hún komst að því að mjólk er að finna í ótrúlegustu afurðum, frá smjörlíki til brauðs. Eftir þrjár vikur fór eitillinn, sem svaraði engri meðferð og var á stærð við hálft egg, að linast og eftir 6-7 vikur var bólgan í eitlinum horfin.

Jane Plant er sannfærð um að efni séu í mjólkinni sem örvi brjóstakrabbameinsfrumur til að vaxa.

Efnasamsetning mjólkur

Þegar Jane Plant fór að skoða efnasamsetningu mjólkur komst hún að því að mjólk er ekkert annað en hanastél af vaxtarhormónum - sem ætlaðir eru litlum kálfum til að vaxa á mettíma í fullvaxnar kýr og naut. Aðallega er um að ræða insúlín vaxtarhormón nr. 1 (insulin growth factor 1, IGF-1) en einnig IGF-2, prólaktín og estrógen.

Hormónar eru boðberar líkamans sem senda t.d. boð um hvað frumur eigi að gera næst. Kenning Jane er að aðalsökudólgurinn sé IGF-1. Hún hefur fundið þessari kenningu sinni margar undirstöður sem birst hafa í virtum vísindaritum undanfarin 15 ár sem sýna fram á að IFG-1 örva vöxt bæði brjóstakrabbameins- og blöðruhálskrabbameinsfruma. Hún vitnar líka í vísindagreinar sem sýna fram á að IGF-1 er virkt eftir gerilsneyðingu, jafnvel þótt mjólkin sé hituð upp í 175° C. Prótín í mjólkinni eins og casein vernda IGF-1 frá því að brotna niður í meltingarveginum. Jane bendir einnig á að fitusprenging mjólkur veldur því að hormónar eins og IGF-1 verða hjúpaðir (encapsulated) af fitunni við fitusprengingu sem eykur því stöðugleika þeirra og upptöku í líkamann í gegnum meltingarkerfið.

Hormónastyrkleiki í mjólk

IGF-1 eykst í blóði ungra stúlkna á meðan þær eru á gelgjuskeiðinu og þess vegna fara brjóstin að stækka.

Þegar við neytum mjólkurvara leggur Jane til að kerfið geti ruglast þegar við fáum IGF-1 hormón frá öðru spendýri - og því geti brjósta- og blöðruhálsfrumur farið að vaxa stjórnlaust. IGF-1 getur haft áhrif á vöxt frumna þegar styrkleikinn er allt að eins lágur og 1 ng á ml. Í mjólk er styrkleiki IGF-1 u.þ.b. 30 ng á ml og ef við drekkum tvö 250 ml glös af mjólk á dag getur styrkleiki IGF-1 í fullorðnum manni orðið allt að 200 ng á kg (ef maðurinn er 70 kg). Niðurstaða Jane er að mjólk sé holl - en einungis fyrir kálfa.

Plant-áætlunin

Plant-áætlunin inniheldur ýtarlegar leiðbeiningar um hvaða fæði þarf að borða til þess að fá nægilegt kalk.

Aðalþættirnir í Plant-áætluninni eru þeir að nota skuli sojaafurðir í stað mjólkurafurða (auk sojabauna og annarra bauna og hrísgrjóna), borða mikið af fersku grænmeti (sérstaklega það sem er ræktað á lífrænan hátt til að forðast skordýraeitur og tilbúinn áburð), hætta að borða allt kjöt uns krabbameinið er yfirunnið (kjöt inniheldur líka vaxtarhormóna) - en borða þess í stað fisk (en ekki eldisfisk), nota kaldpressaða (og lífrænt ræktaða) olíu til matargerðar og þá sérstaklega ólífuolíu, hætta að borða sælgæti og hvítan sykur en borða þess í stað ferska og þurrkaða ávexti og hnetur (sem eru lífrænt ræktuð þegar hægt er). Jane Plant ráðleggur fólki sem á við krabbamein að stríða einnig að breyta lífsvenjum sínum og borða ferskt grænmeti og ávexti (og/eða taka vítamínpillur), borða ekki mat úr plastumbúðum (plast skilur eftir eiturefni í matnum sem hafa líka uppbyggingu og hormónar og eru því hormónatruflarar (hormone disrupters)), léttsjóða eða steikja grænmeti og annan mat, taka tíma til slökunar og að forðast öll eiturefni í umhverfinu.

Aðrar heimildir

Í bók Jane Plant eru einnig heimildir um að krabbamein í þörmum og eggjastokkum hafa verið tengd mjólkurneyslu. Mjólkurneysla hefur einnig verið tengd sykursýki, vöggudauða og ofnæmi og í mjólk er að finna alls kyns eiturefni sem eru fituleysanleg og koma frá notkun lyfja, áburðar og skordýraeiturs í landbúnaði.

Fleiri upplýsingar um þessa merku bók er hægt að fá með því að senda tölvupóst til "info@yourlifeinyourhands.co.uk" (og Jane Plant svarar sjálf!). Upplýsingar um fæði fyrir krabbameinssjúklinga er líka að finna hjá Bristol Cancer Help Centre í Englandi (info@bristolcancerhelp.org). Upplýsingar um hvernig má minnka áhrif estrogens á frumuvöxt (og komast hjá hormónagjöf (HRT - hormone replacement therapy) eftir breytingaraldurinn) má finna í bók Lee J.R.

(1996) "Natural Progesterone", John Carpenter Publishing, Oxfordshire, Englandi. Aðrar upplýsingar um áhrif mjólkur á þróun krabbameins er að finna á vefsíðu dr R.D. Kradjian (www.afpafitness.com/milkdoc.htm) sem er yfirlæknir á brjóstakrabbameinsdeild Secton Medical Center í Daily City, Kaloforníu og í bók sama manns sem ber heitið "Safe Yourself from Breast Cancer" (1994; Berkeley Books, New York).

http://www.virgin-books.com/VP/DiESEL.dll/ShowBook?PID=688

Höfundur er prófessor í umhverfisjarðefnafræði við Bristol-háskóla í Englandi.