LÖGFRÆÐINGAR samgönguráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, Tryggingastofnunar ríkisins og Flugmálastjórnar telja eftir athugun ekki efni til að rifta samningum samgöngu- og heilbrigðisráðuneyta við Leiguflug...

LÖGFRÆÐINGAR samgönguráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, Tryggingastofnunar ríkisins og Flugmálastjórnar telja eftir athugun ekki efni til að rifta samningum samgöngu- og heilbrigðisráðuneyta við Leiguflug Ísleifs Ottesen um sjúkraflug og áætlunarflug sem gerðir voru í apríl í fyrra og janúar á þessu ári.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti þessa niðurstöðu á blaðamannafundi í gær. Sagði hann að í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa um brotlendingu TF-GTI 7. ágúst í fyrra og lögreglurannsóknar sem nú stæði hefði verið kannað hvort efni væru til að rifta samningunum við Leiguflug Ísleifs Ottsen. Ráðherra sagði að eftir mjög ítarlega yfirferð lögfræðinganna hefði það orðið niðurstaða þeirra að ekki væri unnt að rifta samningnum þrátt fyrir athugasemdir sem hefðu komið fram í skýrslu RNF án þess að ríkið yrði krafið umtalsverðra bóta. Samgönguráðherra sagði forsvarsmenn LÍO hafa lýst yfir vilja til að semja um að slíta samningnum. "Í ljósi þess að það er mjög mikilvægt að traust ríki gagnvart þeim sem sinna áætlunarflugi og sjúkraflugi var gengið til þessara samninga og niðurstaðan sú að þeim yrði slitið," sagði ráðherra. Leiguflugi Ísleifs Ottesen voru greiddar 9,7 milljónir króna í bætur vegna slita á samningnum en ráðherra sagði að ekki yrði upplýst um frekari efnisatriði samningsins um slitin. Í framhaldi af því var gengið frá bráðabirgðasamkomulagi við Íslandsflug eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær en jafnframt verður nýtt útboð undirbúið. Íslandsflug átti þriðja lægsta tilboðið í sjúkraflug og áætlunarflug milli Reykjavíkur og Gjögurs og innan Vestfjarða. Flugfélagið Jórvík sem átti næstlægsta tilboðið hefur ekki flugrekstrarleyfi sem stendur.