Ingileif Ástvaldsdóttir, Dalvík, Óskar Þór Sigurbjörnsson, Ólafsfirði, og Hermann Tómasson, Verkmenntaskólanum á Akureyri.
Ingileif Ástvaldsdóttir, Dalvík, Óskar Þór Sigurbjörnsson, Ólafsfirði, og Hermann Tómasson, Verkmenntaskólanum á Akureyri.
Ólafsfjörður -Hermann Tómasson, framhaldsskólakennari við Verkmenntaskólann á Akureyri, kynnti nefnd um eflingu framhaldsnáms við utanverðan Eyjafjörð ýmis gögn sem hann hefur viðað að sér vegna hugsanlegrar stofnunar framhaldsskóla á svæðinu, en hann...
Ólafsfjörður -Hermann Tómasson, framhaldsskólakennari við Verkmenntaskólann á Akureyri, kynnti nefnd um eflingu framhaldsnáms við utanverðan Eyjafjörð ýmis gögn sem hann hefur viðað að sér vegna hugsanlegrar stofnunar framhaldsskóla á svæðinu, en hann var ráðinn til að vinna áætlun um hvernig hægt væri að reka sjálfstæðan framhaldsskóla í utanverðum Eyjafirði á fundi bæjarráða Dalvíkurbyggðar og Ólafsfjarðar í lok janúar.

Í verksamningi óskaði Hermann eftir því að skipaður yrði samráðshópur fulltrúa bæjarfélaganna til að fylgjast með framgangi verksins, taka afstöðu til hugmynda, viðfangsefna og áherslna, og til að fylgjast með að unnið verði innan þeirra marka sem bæjarfélögin telja viðunandi. Í nefndina voru tilnefnd þau Helgi Jónsson frá Ólafsfjarðarbæ, Ingileif Ástvaldsdóttir frá Dalvíkurbyggð og Óskar Þór Sigurbjörnsson skólamálafulltrúi.

Hermann hefur farið ofan í ýmsar lagalegar forsendur, afstöðu íbúanna á grundvelli rannsóknar Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri frá í fyrra. Tölur um íbúafjölda á svæðinu og nemendafjölda í grunnskóla hafa verið skoðaðar. Þá hefur Hermann gert sérstaka úttekt á sókn nemenda af svæðinu eftir póstnúmerum á hinar ýmsu námsbrautir VMA sem draga má lærdóm af. Einnig veltir hann fyrir sér hugsanlegu námsbrauta- og námsgreinaframboði, námshópastærð, stöðugildum kennara og fjarnámi og samspili þessara þátta og áhrifum á skólagerð. Hermann birti forvitnilega, tölulega samantekt um nemendafjölda á námsbrautum lítilla framhaldsskóla víða um land, skóla sem margir hafa svipað eða fámennara aðland en svæðið við utanverðan Eyjafjörð. Hann gat þess einnig að lítið hefði gerst á landsvísu varðandi nýskipan sjávarútvegsfræðslu en fylgst væri með þeim málum. Hermann áréttaði að störf hans hingað til hefðu að mestu verið fólgin í öflun skólafaglegra heimilda en rekstrarlegar áætlanir kæmu í kjölfarið.

Nefndarmenn lýstu ánægju sinni með gögn og upplýsingar sem þeir fengu á fundinum og þótti það sem fram kom renna frekari stoðum undir hugmyndir manna á svæðinu um stofnun sjálfstæðs framhaldsskóla.

Fundarmenn urðu ásáttir um að stefna að því að skýrsla sem nota má til fyrstu kynningar og sóknar í málinu verði tilbúin tímanlega áður en sumarleyfi hefjast almennt. Seinna í sumar liggi svo fyrir áætlun um sjálfstæðan framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð ásamt nákvæmri rekstraráætlun svo sækja megi málið af fullum þunga til fjárveitingavaldsins við fjárlagagerð á Alþingi.