VIÐBRÖGÐ mín við svari ráðherra eru vonbrigði því að með fullri virðingu fyrir umboðsmanni Alþingis þá hefði verið best að málið yrði rannsakað ofan í kjölinn af utanaðkomandi óháðum aðilum, helst erlendum sérfræðingum, sem hafa þekkingu sem umboðsmaður Alþingis hefur ekki," sagði Friðrik Þór Guðmundsson þegar Morgunblaðið leitaði viðbragða hans við neitun samgönguráðherra um að óvilhallur aðili verði fenginn til að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa.
"Hann segir að lagaheimild skorti og það finnst mér lýsandi fyrir lagaumhverfið," segir Friðrik Þór ennfremur. Hann kveðst ætla að íhuga hvort endurupptaka sé möguleg en telur það ekki hafa mikið upp á sig að fá óbreytta rannsóknarnefnd flugslysa til að endurskoða vinnubrögð sín og niðurstöður. "Ég get ekki séð að það þjóni miklum tilgangi."
Friðrik Þór segir að ný gögn, rök og upplýsingar verði lögð fram á næstunni og sagði hann engan skort vera á þeim. Hluti af þeim gögnum hefði þegar farið til lögreglunnar vegna rannsóknar hennar. Hann ítrekaði kröfu sína um að önnur nefnd rannsakaði málið og sagði hann þá kröfu standa.
Þá kvaðst Friðrik Þór vilja taka undir með því unga fólki sem heimsótti samgönguráðherra á skrifstofu hans í gær. "Ég vil taka undir með vinafólki sonar míns heitins og þess sem lifir slysið af og lýst hefur furðu sinni á peningagjöf til Leiguflugs Ísleifs Ottesen. Vandræði Flugmálastjórnar í bréfi til samgönguráðuneytisins vegna sviptingarmálsins og peningagjafirnar núna þykja mér sýna svo óyggjandi sé að það eru einhverjir aðrir hagsmunir að baki en þjóðarhagsmunir. Hverjir þeir eru veit ég ekki en það verður reynt til hins ýtrasta að komast að því."