LJÓSMYNDASÝNINGIN Eyðibýli verður opnuð í Pakkhúsinu á Höfn í Hornafirði á morgun, laugardag, kl. 14. Eyðibýli er samsýning tveggja ljósmyndara, þeirra Nökkva Elíassonar og Brians Sweeneys.

LJÓSMYNDASÝNINGIN Eyðibýli verður opnuð í Pakkhúsinu á Höfn í Hornafirði á morgun, laugardag, kl. 14. Eyðibýli er samsýning tveggja ljósmyndara, þeirra Nökkva Elíassonar og Brians Sweeneys. Eyðibýli Nökkva birtast á svarthvítum ljósmyndum, fjarræn, drungaleg og tignarleg, en eyðibýli Brians, sem eru í lit, sýnast af þeim sökum einum nær okkur í tíma, virðast jafnvel hafa verið yfirgefin af ábúendum í flýti skömmu áður en ljósmyndin var tekin. Það er Sýslusafn Austur-Skaftafellssýslu sem stendur fyrir sýningunni í samvinnu við Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Sýningin er opin kl. 14-17 um helgar en einnig um páska.