NÍU tilboð bárust frá sjö fyrirtækjum í símkerfi og tal- og fjarskiptaþjónustu fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús. Lína.Net átti lægsta tilboðið í símkerfi Landspítalans, 24.104.776 krónur. Nýherji átti hæsta tilboðið, sem hljóðaði upp á 48.182.685 krónur. Þá átti Íslandssími lægsta tilboðið í talsímaþjónustu, 29.616.907 krónur. Landssími Íslands átti hæsta tilboðið í talsímaþjónustu, sem hljóðaði upp á 48.947.707 krónur.
Íslandssími átti einnig lægsta tilboðið í farsímaþjónustu, en tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á 7.336.500 krónur. Landssími Íslands átti þar hæsta tilboðið, sem hljóðaði upp á 10.769.520 krónur. Þá var boðið í þráðlaust kerfi, símaskrá, hljóðritun, hljóðupptöku og farsíma en Fjarskiptafélagið Títan, Samband - samskiptalausnir og Tal áttu einnig tilboð í útboðinu. Tilboð fyrirtækjanna sjö verða metin á næstu vikum en niðurstaða mun að öllum líkindum liggja fyrir í maí.