Einn þessara skóla var húsmæðraskólinn á Löngumýri í Skagafirði, en þegar hann var aflagður sem skóli var hann gefinn þjóðkirkjunni, sem hefur á síðari árum nýtt staðinn til námskeiða og fræðslustarfs fyrir kirkjuna og ýmsa fleiri aðila.
Nú nýverið var fjölmennt mót ungs fólks á Löngumýri, en þar voru samankomnir tæplega níutíu krakkar á aldrinum 13 til 18 ára á vegum Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi.
Jóhann Hinriksson í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð og Jón Sverrir Friðriksson frá Akureyri voru í forsvari fyrir hópinn, og sögðu að þetta mót væri nánast tilviljun þar sem Jón Sverrir hefði ætlað að vera með sinn hóp frá Akureyri eina helgi á Löngumýri, en þegar það hefði frést hefðu fleiri lýst áhuga. Þannig hefði þetta undið uppá sig og hér væru nú komnir tæplega níutíu krakkar víðsvegar að á landinu, til leikja og starfs og ættu góða daga.
Venja væri hinsvegar að halda tvö til þrjú sameiginleg mót á hverju ári, en hvort þetta yrði eitt þeirra væri alveg óvíst.
Þeir Jóhann og Jón sögðu að á svona mótum væri unnið mikið forvarnarstarf, hér væri ungt fólk að upplifa trúna og finna sér lífsfyllingu, og að sjá slíkt gerast væri vissulega mjög gefandi í starfinu, það sæist hvernig allt breyttist til hins betra hjá þessum einstaklingum.
Þeir bentu á að allir hefðu þessir krakkar fermst og þannig staðfest trú sína, en hér væri verið að styrkja þennan þátt ennfrekar.
Helgi Guðnason, einn þátttakenda á mótinu, kom nú aðvífandi, og gaf sér tíma til að segja smávegis frá því sem var að gerast þessa helgi.
"Þetta er frábært, hér eru kristnir krakkar að hittast og hér skoðum við trúna saman, einn hefur verið að pæla í einhverju sérstöku og kemur með það inn í umræðuna, og svo koma aðrir með það sem þeir hafa verið með. Þetta eru krakkar sem eiga heima hver á sínu landshorninu, en eiga þennan lífsstíl sameiginlegan. Hér vinnum við saman í hópum, og tökum fyrir ýmis efni, svo eru hér samkomur og mjög lífleg tónlist," - og um leið benti hann á trommusett og útbúnað heillar hljómsveitar sem komið var fyrir við hlið setustofunnar á Löngumýri - "en hér líka mikil tilbeiðsla og það er mjög gott. Ég er raunar fæddur inn í þessa kirkju, ég hef horft á vini mína lifa öðruvísi lífi en ég hef gert, og því er ekki að neita að ég hef prófað það líka, en ég er búinn að sjá að það er ekki neitt sem ég vil sækjast eftir og því held ég mínu striki. Ég vil þó taka fram að með þessu er ég ekki að fella neinn neikvæðan dóm yfir þeim eða þeirra lífsformi, þetta er bara það sem hentar mér," sagði Helgi Guðnason að lokum.
Þeir Jóhann og Jón Sverrir luku miklu lofsorði á aðstöðuna á Löngumýri, verulega góð aðstaða væri til allra hluta og samskipti við Árna Harðarson staðarhaldara frábær, hér væri góð aðstaða til gistingar og einnig kennslu, frábær setustofa og stór heitur pottur í garðinum, og svo veðurblíða og náttúrufegurð allt í kring.
Árni staðarráðsmaður var einnig í sjöunda himni með þessa gesti sem hann sagði verulega gaman að vinna með, eins og alltaf með öllu ungu fólki, og sagðist vonast til þess að áframhald yrði á þessum samskiptum.