Hafnarfjarðarkirkja
Hafnarfjarðarkirkja
UM þessar mundir er að ljúka hjónanámskeiðum vetrarins á vegum Hafnarfjarðarkirkju. Undanfarna 5 vetur hafa um 4.000 manns tekið þátt í þessum námskeiðum.

UM þessar mundir er að ljúka hjónanámskeiðum vetrarins á vegum Hafnarfjarðarkirkju. Undanfarna 5 vetur hafa um 4.000 manns tekið þátt í þessum námskeiðum. Námskeiðin eru ætluð öllum sem eru í hjónabandi eða sambúð, ekki aðeins þeim sem eiga við vandamál að stríða, heldur hinum líka sem vilja styrkja samband sitt.

Námskeiðin sækir fólk af öllu landinu og þau hafa verið haldin á Selfossi, Eyrarbakka, Höfn í Hornafirði, Akureyri, Hvammstanga, Egilsstöðum, Borgarnesi, Keflavík, Seltjarnarnesi, í Reykjavík, og í Árnesi auk þess að vera reglulega í Hafnarfjarðarkirkju.

Á námskeiðunum er fjallað um samskipti foreldra og barna, stjórnun innan fjölskyldunnar og hvernig þessi atriði endurspeglast í hegðun barna og unglinga utan fjölskyldunnar. Farið er í gegnum helstu gildrur sambúðarinnar, hvernig fjölskyldumynstrum hægt er að festast í, fjallað um væntingar, vonir og vonbrigði þeirra sem tilheyra fjölskyldunni. En fyrst og fremst er talað um þær leiðir sem hægt er að fara til að sleppa út úr vítahring deilna og átaka í sambúð og hvernig styrkja má innviði fjölskyldunnar. Við skoðum líka ýmsar fjölskyldugerðir og veltum því fyrir okkur hvað hægt er að gera til þess að fyrirbyggja deilur og samskiptaörðugleika. Aðeins 14-18 pör taka þátt í hverju námskeiði.

Auðvitað er ekki hægt að leysa öll mál á námskeiði sem þessu enda forsendur þeirra er taka þátt mjög mismunandi. Þau pör er taka þátt geta þess vegna skráð sig í einkaviðtöl mánuði eftir að námskeiðinu lýkur, þyki þeim þörf þar á. Einnig er vísað til presta og annarra fagaðila er geta veitt nánari aðstoð, sé þess óskað.

Námskeiðið fer fram í formi samtals milli þátttakennda og leiðbeinanda þar sem pörin eru m.a. látin vinna ýmis verkefni, hvert fyrir sig.

Enginn þarf að tjá sig á námskeiðinu frekar en hann vill.

Leiðbeinandi á námskeiðunum er sr. Þórhallur Heimisson, prestur Í Hafnarfjarðarkirkju, en hann samdi einnig efnið.

Safnaðarstarf

Hallgrímskirkja.

Passíusálmalestur kl. 12.15.

Laugarneskirkja. Morgunbænir kl. 6.45-7.05. Mömmumorgunn kl. 10-12 í umsjá Hrundar Þórarinsdóttur djákna. Kaffispjall fyrir mæður, góð upplifun fyrir börn. Unglingakvöld Laugarneskirkju, Þróttheima og Blómavals kl. 20 fyrir 9. og 10. bekk.

Langholtskirkja. Kirkjan er opin til hljóðrar bænagjörðar í hádeginu.

Hafnarfjarðarkirkja. Opið hús í Strandbergi laugardagsmorgna. Trú og mannlíf, biblíulestur og kyrrðarstund.

Boðunarkirkjan, Hlíðasmára 9. Samkomur alla laugardaga kl. 11-12.30. Lofgjörð, barnasaga, prédikun og biblíufræðsla þar sem ákveðið efni er tekið fyrir, spurt og svarað. Barna- og unglingadeildir á laugardögum. Súpa og brauð eftir samkomuna. Allir velkomnir.

Frelsið, kristileg miðstöð . Föstudagskvöld kl. 21 Styrkur unga fólksins. Dans, drama, rapp, prédikun og mikið fjör.

Lífshlaup - kristniboðsvika . Listakvöld á Holtavegi 28 kl. 20. Á dagskrá: Afríkufrændur, Birta, tískusýning frá Afríku, Neverlone, sýnikennsla í matargerð innfæddra Afríkubúa, einsöngur, kristniboðsævintýri, amharískukennsla, jóðl, flauta, Kangakvartettinn og kannski eitthvað fleira. Allir hjartanlega velkomnir.

Sjöundadags aðventistar á Íslandi:

Aðventkirkjan, Ingólfsstræti

: Biblíufræðsla kl. 10. Guðsþjónusta kl. 11. Ræðumaður Björgvin Snorrason.

Sa fnaðarheimili aðventista, Blikabraut 2, Keflavík: Biblíufræðsla kl. 10. Guðsþjónusta kl. 11. Ræðumaður Einar Valgeir Arason.

Safnaðarheimili aðventista, Gagnheiði 40, Selfossi: Biblíufræðsla kl. 10. Guðsþjónusta kl. 11. Ræðumaður Eric Guðmundsson.

Aðventkirkjan, Brekastíg 17, Vestmannaeyjum: Biblíufræðsla kl. 10. Loftsalurinn, Hólshrauni 3, Hafnarfirði : Guðsþjónusta kl. 11. Biblíufræðsla kl. 12. Ræðumaður Gavin Anthony. Súpa og brauð að samkomu lokinni.