VINNU við mat á umhverfisáhrifum þriðja áfanga stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga hefur verið hætt og stefnir því ekki í að framleiðslugeta álversins verði allt að 300 þúsund tonn á ári, eins og hugmyndir forsvarsmanna fyrirtækisins hnigu til.

VINNU við mat á umhverfisáhrifum þriðja áfanga stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga hefur verið hætt og stefnir því ekki í að framleiðslugeta álversins verði allt að 300 þúsund tonn á ári, eins og hugmyndir forsvarsmanna fyrirtækisins hnigu til. Ástæðan er dráttur sem orðið hefur á viðbrögðum stjórnvalda vegna áforma fyrirtækisins og óvissu með raforkusölu vegna stækkunarinnar.

Líklegt er nú talið að könnuð verði hagkvæmni þess að stækka um 90 þúsund tonn í næsta áfanga og yrði samanlögð framleiðslugeta álversins þá 180 þúsund tonn. Gildandi starfsleyfi álversins er einmitt upp á slíka framleiðslu og því þyrfti ekki að fara fram sérstakt mat á umhverfisáhrifum stækkunarinnar. Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs Norðuráls, segir að frá því áform um stækkun voru kynnt, hafi komið í ljós að stjórnvöld hafi áhuga á því að kanna möguleika á því að áfangaskipta stækkun um 150 þúsund tonn.

"Raunhæfara virðist að kanna fyrst forsendur fyrir því að skipta verkefninu í tvo áfanga, fyrst 90 þúsund tonna stækkun og síðar 60 þúsund tonn því til viðbótar. Áfangaskipting veldur hins vegar því að fjárfesting á hverja framleiðslueiningu verður heldur hærri og sömuleiðis verður rekstrarkostnaður nokkru meiri þar til fullri stærð er náð. Áfangaskipting mun því minnka hagkvæmni stækkunarinnar, en við erum engu að síður tilbúnir til að kanna möguleika á slíkum framkvæmdum," segir hann.

Á allra næstu dögum verður, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, skipuð formleg viðræðunefnd af hálfu ráðuneytisins sem hafa mun umboð til þess að ná samkomulagi um málið með áfangastækkun að markmiði.

Virkjunarframkvæmdir vegna slíkrar stækkunar yrðu að öllum líkindum allar í Þjórsá og þykir líklegast að Norðlingaalda verði nýtt í því sambandi.