Snorri Ásmundsson og Joy, sambýliskona hans, eiga nokkra hesta og þar á meðal tvær íslenskar hryssur.
Snorri Ásmundsson og Joy, sambýliskona hans, eiga nokkra hesta og þar á meðal tvær íslenskar hryssur.
SNORRI Ásmundsson, bifvélavirki, flutti frá Íslandi til Winnipeg 1970.

SNORRI Ásmundsson, bifvélavirki, flutti frá Íslandi til Winnipeg 1970. Tíu árum síðar keypti hann land á Nýja-Íslandi í félagi við annan íslenskan mann, Guðmund Pálmason, og hafði hunangsgerð sem aukabúgrein, en síðan 1989 hefur hann búið á stórri jörð, SnjoHorse Farm, skammt frá Gimli. Þar rekur hann bifvélaverkstæði með réttingar og sprautun sem helstu svið, en ríður út á íslenskum hestum á landi sínu og næsta nágrenni um helgar.

Íslenski hesturinn er vinsæll hjá sumum vestra, en nokkrir Íslendingar í Manitoba hafa fengið sér hesta að heiman. Snorri er frá Snartartungu í Bitrufirði í Strandasýslu. Þar býr bróðir hans, Sigurkarl Ásmundsson, og í haust sem leið fékk hann hjá honum tvær fylfullar merar, fjögurra og fimm vetra.

"Joy, sambýliskona mín, er mikil hestakona og við fórum til New York til að sækja hestana en áttum þrjá kanadíska hesta fyrir. Þessi jörð okkar er upplögð fyrir hesta og þeir geta verið úti lengst af en ég tek þá inn þegar veðrið er sem verst."

Strandamaðurinn hefur starfað við bifvélaviðgerðir í þrjá áratugi í Kanada. Hann byrjaði í Winnipeg, flutti síðan starfsemi sína á jörðina Húsatún, sem er skammt frá Fraserwood, og loks á núverandi býli, sem Snorri segir að sé miklu betri staður en sá fyrri. "Á Húsatúni var ég ekki beint í alfaraleið og því ekki vel samkeppnisfær en hérna er ég vel í sveit settur. Ég keypti þetta land og hrörlega verkstæðisbyggingu 1989, en gerði upp bygginguna og byrjaði hérna um vorið 1990. Ég hef girt landið vegna hestanna og hér get ég unnið að mörgum hlutum í einu, málað eina yfirferð, sinnt öðrum bíl meðan málningin er að þorna og hugað að hestunum þess á milli. Þetta er afslappað líf og getur vart verið betra og ekki skemmir fyrir að heimilið er við hliðina á verkstæðinu. Hér höfum við allt til alls en svo eigum við góða vini í nágrenninu og hittum meðal annars oft Íslendinga á Gimli."

Börnin öll búsett vestra

Snorri flutti að Húsatúni ásamt þáverandi eiginkonu sinni, Gunnvöru Daníelsdóttur, og þremur börnum; Sigrúnu, sem býr í Vancouver, Ásmundi Dan, sem býr í Saskatchewan og Stefáni Hrafni, sem býr hjá móður sinni í Winnipeg. "Við Guðmundur vildum reyna að vera bændur og því keyptum við Húsatún. Við áttum akurinn saman en síðan sína spilduna hvor fyrir húsin okkar, þar sem við bjuggum með fjölskyldum okkar. Hunangsframleiðslan var ágæt sem slík og við seldum meðal annars hunang til Íslands en ég er alveg kominn út úr framleiðslunni og seldi landið sem ég átti."

En eitt leiðir af öðru og nú eru það hestarnir. Verkstæðið er í alfaraleið við þjóðveg númer 231 og í öðrum enda þess hefur Snorri útbúið hesthús. "Ég hef hvergi kunnað eins vel við mig í Kanada og hér," segir Snorri. "Ég er fæddur og uppalinn í sveit og hef aldrei verið spenntur fyrir borgarlífi en geri ráð fyrir að ég ílengist hér. Hérna byggðum við íbúðarhús og hér líður okkur vel. Landið er stórt, um 30 hektarar, og það er gott fyrir hestana, en svo er líka ekkert mál að setja þá í vagn, aka út að Winnipegvatni og ríða út í nágrenni vatnsins. Við höfum gjarnan riðið út um helgar en reyndar hefur ekki verið mikið hægt að gera í vetur vegna kulda og alls ekkert í febrúar, en við gerum meira af þessu þegar hlýnar."