FÉLAG lungnalækna gengst fyrir sérstakri dagskrá fyrir heilbrigðisstarfsfólk, um GOLD, alþjóðlegt átak gegn langvinnum lungnateppusjúkdómum og stöðu þeirra hér á Íslandi á lungnadeginum 6. apríl í Listasafni Reykjavíkur kl. 17.30.
Í fréttatilkyningu segir: "Tíðni langvinnra lungnateppusjúkdóma (COPD) hefur vaxið ört á undanförnum árum. Þeir eru meðal þeirra fáu sjúkdóma sem valda vaxandi dánartíðni og ef fram heldur sem horfir verða langvinnir lungnateppusjúkdómar ein algengasta dánarorsökin á upphafsáratugum þessarar aldar.
Talið er að 16.000 til 18.000 Íslendingar þjáist af langvinnum lungnateppusjúkdómum. Reykingar eru ásamt vaxandi mengun algengasta orsök þessara illvígu sjúkdóma, en um 80-90% þeirra sem þjást af þeirra völdum eru reykingamenn. Aukna dánartíðni af völdum langvinnra lungnateppusjúkdóma má aðallega rekja til þess að aldurinn er að færast yfir stóra árganga reykingafólks, fætt á árunum 1950 til 1965.
Langvinnir lungnateppusjúkdómar stafa af takmörkun loftflæðis um lungu, vegna lungaþembu eða langvarandi berkjubólgu eða beggja sjúkdóma í senn. Þeir hafa stundum verið nefndir "gleymdu sjúkdómarnir" sökum þeirrar hlutfallslega litlu athygli sem þeir hafa almennt notið í gegnum tíðina."