Fjölskyldan fyrir utan heimilið á Gimli. Fiona Lillian, Tammy, Grétar og Daníel Jón, sem fæddist á Íslandi.
Fjölskyldan fyrir utan heimilið á Gimli. Fiona Lillian, Tammy, Grétar og Daníel Jón, sem fæddist á Íslandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SKÓGARELDAR eru tíðir í Manitoba í Kanada og fjöldi manns vinnur við að vakta svæðið og ráða niðurlögum eldsins þegar á þarf að halda. Einn starfsmannanna er Jón Grétar Axelsson, stöðvarstjóri eldvarna hjá skógrækt fylkisins.

SKÓGARELDAR eru tíðir í Manitoba í Kanada og fjöldi manns vinnur við að vakta svæðið og ráða niðurlögum eldsins þegar á þarf að halda. Einn starfsmannanna er Jón Grétar Axelsson, stöðvarstjóri eldvarna hjá skógrækt fylkisins. Hann hefur yfirumsjón með eldsneytistönkum eftirlitsins í fylkinu og sér um áfyllingar á flugvélarnar í stjórnstöð slökkvistarfsins á Gimli.

Grétar kynntist Tammy, eiginkonu sinni, á Íslandi og skömmu eftir að þau höfðu gift sig þar fluttu þau til Gimli en fóru fljótlega til Vancouver á vesturströnd Kanada. En Gimli togaði í Tammy og þau ákváðu að setjast þar að 1995. Skömmu eftir komuna þangað auglýsti Manitobafylki nýja stöðu hjá skógræktinni í tengslum við eldvarnirnar og skógareldana en allar auðlindirnar heyra undir skógræktina. Grétar sótti um, fékk stöðvarstjórastarfið og hefur sinnt því síðan.

Um 600 eldar á ári

Umsvif skógræktarinnar í Manitoba eru í raun gífurlega mikil því auðlindirnar eru mjög víðfeðmar. Þar er um að ræða alla skóga fylkisins, vötn, námur, þjóðgarða og villt dýralíf, þar á meðal veiðar áhugamanna í ám og vötnum og dýraveiðar á afmörkuðum landsvæðum.

Skógræktin er með margar flugvélar vegna eftirlitsins og til að ráða við skógareldana en skógar þekja samtals um 400.000 ferkílómetra svæði í Manitoba. Á meðal flugvélanna eru sjö vatnssprengivélar, sem eru sérstaklega búnar til að slökkva skógarelda, þrjár einshreyfils DHC3 Otter-vélar og tveggja hreyfla vélar til að stjórna aðgerðunum við skógareldana en þar fyrir utan eru vélar leigðar vegna einstakra verkefna. Grétar sér um eldsneytið fyrir vélarnar og hefur auk þess yfirumsjón með 24 eldsneytistönkum skógræktarinnar víðs vegar í Manitoba en enn fremur er á hans könnu að kenna starfsmönnum við tankana meðhöndlun flugvélabensínsins, taka sýni, fylgjast með gæðum og fylgjast með gróðurmyndun í tönkunum. "Ég hef lært þetta undanfarin þrjú ár og nú er komið að mér að miðla af reynslunni," segir hann.

"Þessir tankar eru í raun flestir í óbyggðum og á sumrin er aðeins hægt að komast á flest svæðin með litlum flugvélum en á veturna er farið með vistir og annað á þar til gerðum vegum á ísi lögðu Winnipeg-vatni."

Grétar þarf að fylgjast grannt með, fara á staðina, sinna eftirliti, mála tankana og svo framvegis en að öðru leyti er ekkert að gera yfir háveturinn. "Flestir tankanna eru á verndarsvæðum indjána. Fimm þeirra eru til dæmis hérna austan við vatnið og svo eru tankar norðan við Thompson. Starfið er viðamikið rétt eins og í flestum öðrum fylkjum Kanada og í Bandaríkjunum. Það er náttúrulegt að skógurinn brenni og honum er leyft að brenna fyrir norðan nema bæjum á verndarsvæðunum eða öðrum litlum bæjum stafi hætta af. Eins ef skógareldar eru á svæði þar sem er mikil timburvinnsla."

Að meðaltali eru um 600 eldar á ári í Manitoba en auðvitað færri þegar mikið rignir. "Mikil samvinna er milli fylkja og birtist þannig að ef ekki er hætta hjá okkur en eldar í nærliggjandi fylkjum fara vélarnar þangað. Við höfum til dæmis sent vélar til Alberta, Saskatchewan, Ontario og Québec en einnig suður til Minnesota í Bandaríkjunum. Í fyrra voru miklir eldar hjá okkur og þá fengum við meðal annars aðstoð frá Saskatchewan og Québec í tvær vikur. Í flestum tilfellum kveikja eldingar eldana en á vorin valda sinubrunar fólks skaðanum."

Seint í apríl og í maí er mikið um elda, að sögn Grétars. Bleyta kemur í veg fyrir þá í júní en aftur er mikið um að vera í júlí og ágúst. "Fyrrnefnt tveggja vikna tímabil í fyrra var mjög slæmt en kostnaðurinn við slökkvistarfið nam um milljón kanadískum dollurum á dag, tæplega 60 milljónum króna. Og þetta var bara einn eldur."

Íslenskur eiginmaður aðalatriðið

Grétar er frá Selfossi og vann hjá Landsvirkjun við Búrfellsvirkjun í 15 ár en þegar hann kom fyrst til Gimli 1988 fékk hann vinnu hjá mági sínum við flugskólann Interlake Aviation á Gimli en margir Íslendingar hafa lært þar. "Okkur langaði til að eiga heima við vesturströndina en Gimli er eins og Eyrarbakki, togar stöðugt í," segir hann um flutninga fjölskyldunnar innan Kanada. "Sá sem er frá Gimli vill hvergi annars staðar eiga heima og sennilega er hvergi betra að vera."

Tammy er af íslenskum ættum en fór í fyrsta sinn til Íslands 1985, fyrst og fremst til að læra tungumálið. Hún segir að eftir að hafa ferðast um meginland Evrópu og komið aftur til Gimli hafi hún ákveðið að sjá sig víðar um í heiminum. Hún hafi ákveðið að byrja á Íslandi og vera þar í þrjá mánuði en dvölin hafi orðið þrjú ár.

"Saga mín er eins og saga þúsunda manna í Vesturheimi af íslenskum ættum. Ég hélt að ég væri íslensk og því fór ég til Íslands og byrjaði á Höfn í Hornafirði til að læra íslensku. Foreldrar mínir töluðu íslensku sín á milli en aldrei við mig. Ég vildi læra málið, þó ekki væri nema til að skilja hvað þau væru að tala um, og taldi að ég gæti lært það á þremur mánuðum. Þess vegna fékk ég mér vinnu í fiski á Höfn en auðvitað var miklu erfiðara að læra íslensku en ég hafði gert mér í hugarlund. Eftir ár í fiskinum fór ég að vinna í heimilishjálpinni í Reykjavík og sá fljótlega að til að ná árangri í náminu yrði ég að fara í skóla. Því fór ég í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands samfara vinnunni en skólagangan varð til þess að ég skynjaði að íslenskan var enn torveldari fyrir okkur en ég var farin að halda að hún væri. Ástæðan er sú að almennt kunnum við bara eitt tungumál, ensku, en flestir skólafélagar mínir á Íslandi voru frá Evrópu og kunnu fleiri mál. Ég held að grunnur þeirra sé því betri en okkar til að læra nýtt tungumál."

Tammy kynntist Grétari á Íslandi og þegar fyrir lá að þau myndu flytja til Kanada grínaðist hún með það að hún hefði komið til Íslands til að ná sér í íslenskan eiginmann og leggja þannig sitt af mörkum til viðhalds íslenska kynstofnsins í Vesturheimi. "Ég er stolt af uppruna mínum en ég fann stöðugt á Íslandi hvað ég var í raun kanadísk. Ég fór ekki til Íslands til að verða hluti af þjóðfélaginu, sagði ekki við sjálfa mig að þetta væri þjóð mín og ég vildi búa á Íslandi til æviloka. Hins vegar heillaði landið mig og fólkið var á margan hátt eins og fólkið sem ég átti að venjast hér á Gimli. Oft hitti ég einhvern sem var alveg eins og einhver sem ég þekkti heima en menningin er allt önnur og þar skilur á milli."

Ættjarðarástin er lífseig

Tammy er framkvæmdastjóri Safns íslenskrar menningararfleifðar í Vesturheimi, The New Iceland Heritage Museum, sem var vígt á Gimli í október sem leið, og tekur virkan þátt í félagsstarfi Kanadamanna af íslenskum ættum. Hún er til dæmis í stjórn Þjóðræknisfélagsins, í stjórn deildar Þjóðræknisfélagsins á Gimli og í stjórn Íslendingadagsnefndar. "Ég kem á einhvern hátt nánast að öllu sem tengist Íslandi og Nýja-Íslandi. Við finnum fyrir miklum áhuga Íslendinga á Vesturferðum og hér er ótrúlega mikill áhugi á öllu sem íslenskt er. Reynsla mín kemur því að góðum notum, bæði fyrir Íslendinga og ekki síst Kanadamenn og Bandaríkjamenn af íslenskum ættum. Þeir síðarnefndu koma alls staðar að til Gimli vegna þess að þeir búast við því að sjá Ísland hér. Í augum margra þeirra stendur Gimli fyrir Ísland og þess vegna er safnið svo mikilvægt."

Grétar og Tammy eiga tvö börn, Daníel Jón 12 ára og Fionu Lillian 11 ára. Þau tala íslensku og íslenska er tungumál heimilisins en utan veggja þess ræður enskan ríkjum. "Ég fór til Íslands, lærði málið og giftist Íslendingi. Börn okkar hafa alist upp við íslensku og við höfum þar með lagt okkar af mörkum varðandi viðhald íslenskrar tungu í Vesturheimi hjá enn einni kynslóðinni en auðvitað verður erfitt að halda í málið. Hins vegar er ljóst að þessi menningararfur, þessi ættjarðarást á Íslandi, hverfur ekki svo glatt hérna og í raun held ég að böndin haldist ekki aðeins um ókomna tíð heldur styrkist enn frekar. Gimli er til dæmis vinabær Akureyrar og ég sé tengslin styrkjast í náinni framtíð. Vesturfarasetrið á Hofsósi hefur mikið að segja og fyrir okkur skiptir Norðurland miklu máli því svo margir hérna eiga ættir sínar að rekja þangað. Fyrir mig hefur mikið að segja að geta skoðað mig um á Grenjaðarstöðum því þar bjuggu langalangafi og langalangamma fyrir 125 árum. Ég varð að fara og sjá þetta og sömu sögu er að segja af mörgum öðrum. En áherslurnar breytast og með gamla fólkinu hverfur umræðan um Vestur-Íslendinga en þess í stað verður lögð ríkari áhersla á upprunann. Við erum Kanadamenn af íslenskum ættum og erum stoltir af því."