SPRENGIKÚLUM var skotið á Netiv Haasarah-samyrkjubúið í Ísrael í gærkvöld, skammt frá landamærunum við Gaza-svæðið, að því er ísraelska sjónvarpið greindi frá. Einnig var skotið á landnámssvæði gyðinga nyrst á Gaza.

SPRENGIKÚLUM var skotið á Netiv Haasarah-samyrkjubúið í Ísrael í gærkvöld, skammt frá landamærunum við Gaza-svæðið, að því er ísraelska sjónvarpið greindi frá. Einnig var skotið á landnámssvæði gyðinga nyrst á Gaza. Svo virðist sem árásin í gærkvöld hafi verið svar íslömsku skæruliðasamtakanna Jihad, eða Heilags stríðs, við morði á einum félaga samtakanna, Iyad Hardan, fyrr í gær skammt frá borginni Nablus á Vesturbakkanum. Fregnir herma að Hardan hafi fallið er falin sprengja sprakk í símaklefa sem hann notaði oft.

Bandaríkjastjórn fordæmdi í gær áætlanir Ísraela um ný landnámssvæði á palestínskum landsvæðum og sagði áætlanirnar "ögrun" og ganga þvert á það sem Bandaríkin telji stuðla að friði og stöðugleika fyrir botni Miðjarðarhafs. Ennfremur var krafist skýringa á því að skotið hefði verið að bílalest embættismanna Palestínustjórnar er var á heimleið frá Tel Aviv til Gaza en hún hafði átt viðræður við ísraelska fulltrúa að undirlagi Bandaríkjamanna. Munu sendimenn hinna síðastnefndu hafa verið í grennd við bílalestina er skothríðin hófst. Richard Boucher, talsmaður utanríkisráðuneytisins í Washington, sagði að um alvarlegan atburð væri að ræða. Það væri skylda Ísraela að tryggja öryggi samningamanna Palestínumanna sem væru á leið til og frá viðræðufundum. "Fyrir fundinn höfðu ísraelskir embættismenn fullvissað okkur um að það yrði gert," sagði Boucher.

Evrópusambandið fordæmdi einnig áætlanirnar um landnám og sagði brýnt að þær kæmu ekki til framkvæmda. Ýmsir leiðtogar friðarsinna í Ísrael voru einnig hvassyrtir og sögðu að með áætlununum virtust stjórnvöld vera markvisst að grafa undan öllum tilraunum til að semja um frið.

Landnámssvæðin, sem ganga í berhögg við alþjóðalög, hafa verið einn helsti ásteytingarsteinninn í uppreisn Palestínumanna gegn hernámi Ísraela undanfarið hálft ár.

Jerúsalem, Washington. AFP.