EMBÆTTISMENN Bandaríkjastjórnar voru í gær bjartsýnir á að lausn á deilunum við Kínverja væri í sjónmáli en samskipti ríkjanna hafa verið mjög stirð síðan á sunnudag.

EMBÆTTISMENN Bandaríkjastjórnar voru í gær bjartsýnir á að lausn á deilunum við Kínverja væri í sjónmáli en samskipti ríkjanna hafa verið mjög stirð síðan á sunnudag. Þá skullu bandarísk njósnavél og kínversk herþota saman undan ströndum Kína með þeim afleiðingum að sú kínverska fórst en bandaríska vélin þurfti að nauðlenda á eynni Hainan í Suður-Kína. Kínversk stjórnvöld hafa sakað bandarísku flugmennina um að hafa verið valdir að slysinu en því vísa Bandaríkjamenn á bug.

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, lýsti í gær hryggð sinni yfir því að flugmaður herþotunnar skyldi ekki hafa fundist ennþá. "Ég harma að kínverski flugmaðurinn skuli vera ófundinn," sagði Bush.

Embættismenn hafa sagt að Bush muni ekki biðjast beinlínis afsökunar eins og kínversk stjórnvöld hafa farið fram á. En í gær benti ýmislegt til þess að lausn deilunnar væri í sjónmáli. Kínverska lögreglan leysti til dæmis upp mótmælahóp við bandaríska sendiráðið í Peking, sem talin er vísbending um að kínversk stjórnvöld vilji ekki að reiði vegna atviksins breiðist út meðal almennings þar. Kínverski sendiherrann í Washington hitti einnig aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í gær, annan daginn í röð.

Áhöfn bandarísku vélarinnar er enn á eynni Hainan og krafðist Bush þess í gær að hún yrði leyst strax úr haldi. "Skilaboð mín til Kínverja eru þau að við ættum ekki að láta atvikið koma samskiptum okkar úr jafnvægi. Samband okkar við Kína er mjög mikilvægt." Craig Quigley varaflotaforingi sagði í gær að ekki væru neinar vísbendingar um að áhöfn njósnavélarinnar hefði verið yfirheyrð en ljóst þykir að Kínverjar séu áfjáðir í að kynna sér fullkominn tæknibúnað vélarinnar. Áhöfnin er sögð hafa eyðilagt megnið af búnaðinum áður en hún nauðlenti.

Hafði áður flogið nálægt bandarískum vélum

Að sögn embættismanna Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytisins, hefur flugmaður vélarinnar, Wang Wei, áður flogið nálægt bandarískum flugvélum. Wang, sem náði að stökkva í fallhlíf út úr vélinni áður en hún fórst, er talinn af.

Embættismaður í Washington sagði að áður hefðu verið teknar myndir af kínverskum flugmönnum sem flogið hefðu nálægt bandarískum vélum. Embættismaðurinn sagði að kínverskir flugmenn hefðu verið árásargjarnari undanfarnar vikur en nokkru sinni fyrr.

Washington. AFP, AP, The Daily Telegraph.