SAMKVÆMT forúrskurði dómstóls Evrópusambandsins í Strassborg hafa fyrirtæki á borð við Levi Strauss ekki "ótakmarkaðan" rétt til að stjórna því hvar vörur þeirra eru á boðstólum. Þetta þýðir að stórmarkaðir geta til dæmis selt gallabuxur á lægra verði en sérvöruverslanir, gegn vilja framleiðendanna.
Málið kom upp eftir að Tesco-verslanakeðjan í Bretlandi hóf að flytja inn Levi's 501 gallabuxur frá löndum utan Evrópusambandsins og bjóða til sölu í stórmörkuðum sínum fyrir mun lægra verð en þekkist í sérvöruverslunum. Framleiðandi gallabuxnanna, fyrirtækið Levi Strauss, höfðaði mál fyrir breskum dómstóli árið 1999 og krafðist þess að Tesco yrði meinað að selja buxurnar, á þeirri forsendu að það skaðaði ímynd vörumerkisins.
Í forúrskurði eins af aðallögsögumönnum Evrópusambandsdómstólsins, Christine Stix-Hackl, segir að ekki megi horfa fram hjá hagsmunum innflytjenda í málum er lúta að vörumerkjum.
Einnig er hvatt til þess að breski dómstóllinn, sem kveða mun upp endanlegan úrskurð í málinu síðar á þessu ári, kanni hvernig sölu Levi's gallabuxna sé háttað utan Evrópu enda hafi komið fram vísbendingar um að viðskiptavinir njóti ekki alls staðar aðstoðar sérþjálfaðs starfsfólks eða hafi aðgang að mátunarklefum, eins og framleiðandinn heldur fram að sé nauðsynlegt.
Brussel. AP.