NURSULTAN Nazarbajev, forseti Kazakstans, segir að Litháar hafi rétt til að ganga í Atlantshafsbandalagið, NATO, ef þeir kjósi svo. Forsetinn er í opinberri heimsókn í Litháen og kom þetta fram í sameiginlegri yfirlýsingu hans og forseta landsins, Valdas Adamkus, í gær.
Kazakstan er fyrrverandi sovétlýðveldi eins og Litháen en stjórn Nazarbajevs hefur átt gott samstarf við Rússa. Hinir síðarnefndu hafa barist hart gegn hugsanlegri aðild Eystrasaltsríkjanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháens, að NATO og hefur því yfirlýsingin vakið athygli. Einnig er bent á að er Adamkus heimsótti Moskvu í liðinni viku sagði Vladímír Pútín Rússlandaforseti að sérhver þjóð hefði rétt til að skilgreina sjálf forgangsröðina í vörnum sínum.
Vilnius. AFP.