Jónas Garðarsson
Jónas Garðarsson
Er ekki best fyrir alla, spyr Jónas Garðarsson, að þeir fái kvótann sem eru tilbúnir að borga rétt verð?

ÞAÐ ER með útgerðir og útgerðarmenn, eins og alla aðra, að ekki eru allir jafn hæfir. Sumum gengur vel þar sem öðrum gengur illa. Oft er erfitt að mæla árangur manna. Einn mælikvarði er til um frammistöðu útgerða - og það er fiskverðið. Sumar útgerðir selja allan fisk á markaði og virðast una hag sínum vel. Aðrar gera það aldrei. Verðmunur á lönduðum fiski til þeirra sem selja frjálsri sölu og þeirra sem selja í því sem kallað er bein sala - það er sjálfum sér - er oft um 100 prósent.

Það eiga útgerðir og sjómenn sameiginlegt að sækja fisk í sjó og þess vegna ættu að vera sameiginlegir hagsmunir beggja að fá sem hæst verð fyrir aflann. Rétt eins og með aðra framleiðendur eða seljendur vöru. Því hærra verð - því betra. Þess vegna er það öfugsnúið að útgerðin skuli verjast háu fiskverði eins og hún lifandi getur.

En hvað er fiskverð og hvaða áhrif hefur það? Til að mynda miðast laun sjómanna við það verð sem fæst fyrir fiskinn og þeirra hagsmunir eru því augljósir. Ég sá á fréttavefnum mar.is viðtal við útgerðarmann. Hann sagði:

"Ég tel að ástandið verði ekki gott fyrr en allur fiskur fer um markað. Það má vel vera að það sé ekki best fyrir alla en það er það besta sem sjómenn geta fengið. Það er ekki hægt að hafa þetta eins og það er. Sumir útgerðarmenn tilkynna mannskapnum um fast verð - alveg niður í 50 krónur og aðrir miklu meira og svo eru útgerðir eins og okkar sem selur allt á markaði. Það verður að breyta þessu. Það er ekki hægt að bjóða fiskverkendum upp á þessa mismunun heldur. Það er ekki hægt að sumir geti fengið hráefnið á 50 krónur þegar aðrir verða að borga 200 krónur. Það má vera að fiskverð lækki ef allur fiskur fer um markað og okkur hlutur yrði rýrri. En það verður þá svo að vera - það þurfa fleiri að lifa en við." Ég er honum algjörlega sammála.

Í ljósi þess hversu misvel útgerðum lætur að fá sem hæst verð fyrir aflann langar mig að velta upp spurningu um hvort ekki sé rétt að leggja meira traust á þá útgerðarmenn sem sannarlega standa sig. Þar sem auðlindin er takmörkuð má spyrja hvort ekki sé þá best fyrir alla að þeir fái kvótann sem eru tilbúnir að borga rétt verð - þeir sem selja fiskinn á markaði - að þeir fái kvótann.

Færeyingar voru í sömu sporum og við erum. Þeir höfðu vit á að söðla um og í bréfi sem Fiskimannafélag Færeyja sendi Davíð Oddssyni er áskorun til hans um að Íslendingar fari að reynslu þeirra. Færeyingar fullyrða að með því hafi afkoma veiða og vinnslu stórbatnað. Reyndar segjast Færeyingarnir vera vissir um að með því að selja allan fisk um markað muni hagur allra landsmanna batna - það gerðist í Færeyjum.

Höfundur er formaður Sjómannafélags Reykjavíkur.