BJÖRN Bjarnason menntamálaráðherra hefur skipað samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi fyrir annað starfstímabil nefndarinnar, en fyrri nefnd lauk störfum í desember sl. Helsta hlutverk nefndarinnar skv.

BJÖRN Bjarnason menntamálaráðherra hefur skipað samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi fyrir annað starfstímabil nefndarinnar, en fyrri nefnd lauk störfum í desember sl. Helsta hlutverk nefndarinnar skv. framhaldsskólalögum er að stuðla að tengslum skóla og atvinnulífs og að vera menntamálaráðherra til ráðuneytis um stefnumótun í starfsnámi.

Nefndin skal jafnframt gera tillögur um forgangsröðun verkefna í starfsnámi svo og um sérstakar tilraunir og þróunarverkefni.

Samstarfsnefndin er skipuð 18 einstaklingum, 12 þeirra eru tilnefndir af samtökum aðila á vinnumarkaði. Nýr formaður nefndarinnar er Guðjón Petersen, fyrrverandi framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins og bæjarstjóri í Snæfellsbæ.

Skipulagi nefndarinnar breytt

Fyrsti fundur nýrrar samstarfsnefndar var haldinn 28. mars sl. og ávarpaði menntamálaráðherra fundinn. Í máli hans kom fram að ætlunin væri að breyta skipulagi nefndarinnar í þeim tilgangi að auka sjálfstæði hennar og efla frumkvæði með því að færa umsýslu með málefnum nefndarinnar til Menntar, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla. Samið verður við Mennt um að annast tiltekin verkefni er lúta að störfum nefndarinnar og hafa með höndum eftirfylgni einstakra verka er nefndin vinnur að á hverjum tíma.

Á fundinum var kjörin sérstök framkvæmdastjórn skipuð 7 einstaklingum, er stýrir störfum nefndarinnar milli funda og gerir drög að starfsáætlun hennar til næstu fjögurra ára.

Stefnt er að auknu samstarfi við 14 starfsgreinaráð sem skipuð voru árið 1998 að fengnum tillögum fyrri samstarfsnefndar. Starfsgreinaráð hafa m.a. með höndum vinnu að námskrá starfsnáms og verða fyrstu námskrár samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi gefnar út á vori komanda.