SÉRHVER þjóð hefur þróað með sér einhvers konar þjóðareinkenni, goðsagnakennd sem og raunveruleg, sem hafa áhrif á þá ímynd sem myndast í kringum tiltekna þjóð. Bretar eru þar engin undantekning, en siðfágun og kurteisi hefur þótt einkenna þjóðina. Þannig hefur hugtakið um hinn göfuglynda og virðingarverða breska herramann þróast. Þó að svipuð hugtök hafi sprottið upp í öðrum löndum Evrópu er óhætt að segja að breski séntilmaðurinn hafi náð að festa sig best í sessi. Eflaust hafa menningaráhrif breska heimsveldisins og útbreiðsla ensku tungunnar haft sitt að segja.
Herramannshugtakið á rætur sínar að rekja til bresku aðalsstéttarinnar, en breiddist út til borgarastéttarinnar þegar hún tók að ryðja sér til rúms. Breski herramaðurinn var karl af góðum ættum, siðfágaður, heiðvirður, umhyggjusamur, hugrakkur og vel menntaður. Hann hóf menntun í fínum einkaskóla, hélt áfram í stórum háskóla en að menntun lokinni tók við frami í hernum, stjórnsýslu, kaupsýslu eða í fjármálahverfi Lundúna (City of London). Meginmarkmið einkaskólana var að gera herramenn úr sonum aðalsmanna og hinnar nýju efri-millistéttar. Herramaðurinn var vel stæður og hafði feikinógan tíma til að sinna áhugamálum sínum, til að mynda listum, veiðum og annarri útiveru. Samhliða áhugamálunum var ætlast til þess að hann sinnti skyldum sínum við samfélagið, heimsveldið og krúnuna. Þá var æskilegt að hann væri félagi í einum eða fleiri heldri herramannaklúbbum í Lundúnum.
Þessi sígilda skilgreining á að vissu leyti enn við, þó að innihald herramannshugtaksins hafi skolast til. Á póstmódernískum tímum hefur orðið herramaður enga ákveðna eina merkingu. Núorðið er hægt að ávarpa menn með orðinu herramaður án þess að átt sé við kurteisan mann eða með virðingarstöðu í hernum. Herramaður er ekki lengur endilega lýsing á manni sem býr yfir göfugum mannkostum.
Sígilda skilgreiningin hefur þó haft mikil áhrif á hugmyndir útlendinga um breska herramanninn sem tákn bresku þjóðarinnar. Sú táknmynd hefur þróast í bókmenntum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, samanber Pickering ofursta í söngleiknum My fair Lady (byggt á leikritinu Pygmalion e. G.B. Shaw) og einkaþjóninn Jeeves úr verkum P.G. Woodhouse. Þó að þessir tilteknu herramenn hafi verið skáldsagnapersónur, hafa rithöfundarnir eflaust sótt fyrirmyndirnar í samtíma sinn. Við sem erum ekki bresk höfum tileinkað okkur þá ímynd sem fyrrnefndir rithöfundar og aðrir listamenn hafa byggt á hugtakinu um breska herramanninn. Þessi sérstæða tenging raunveruleika, goðsagnar og þjóðarímyndar hefur heillað mig síðan ég uppgötvaði að breskir herramenn finnast vissulega enn en þeim fer ört fækkandi, samhliða þeim gildum sem þeir standa fyrir.
Höfundur er ljósmyndari, búsettur í Wales og lýkur senn námi í heimildaljósmyndun. Viðfangsefnið "Leitin að breska herramanninum" er meðal lokaverkefna hans.