Noise (f.v.): Einar, Stefán og Hálfdán.
Noise (f.v.): Einar, Stefán og Hálfdán.
ROKKHLJÓMSVEITIN Noise er ein þeirra sveita sem komust alla leið í úrslitakeppni Músíktilrauna þetta árið. Rokktríóið spilar einfalt og hreint gítarrokk en starfsaldur sveitarinnar rétt rúmir þrír mánuðir.

ROKKHLJÓMSVEITIN Noise er ein þeirra sveita sem komust alla leið í úrslitakeppni Músíktilrauna þetta árið. Rokktríóið spilar einfalt og hreint gítarrokk en starfsaldur sveitarinnar rétt rúmir þrír mánuðir.

"Músiktilraunir voru eiginlega í fyrsta skiptið sem við spiluðum á tónleikum," útskýrir Hálfdán Helgi Harðarson trommuleikari. "Við vorum bara búnir að æfa í nokkra mánuði og það var því góður sigur fyrir okkur að komast í úrslit."

"Við vorum allir saman í annarri hljómsveit," segir Einar Vilberg Einarsson, söngvari og gítarleikari, og bendir í átt til Hálfdáns og bróður síns Stefáns sem leikur á bassa. "Þá söng Hálfdán og þá var annar trommari, auka söngvari og annar gítarleikari."

"Þetta gekk ekkert. Ég nennti ekki að syngja lengur því ég var miklu betri en hinn trommarinn," segir Hálfdán.

"Það þorði fyrst enginn af okkur þremur að syngja, svo prófaði Einar það og er orðinn alveg ágætur í því," segir Stefán. "Þetta kemur líka best út svona, bara við þrír."

Þeir piltar segjast vera búnir að fullklára um 10 lög og nóg sé af ókláruðum hugmyndum. Hvað fá svo gestir Kakóbarsins Geysis að heyra í kvöld?

"Öll okkar lög og svo vorum við að velta því fyrir okkur út af miklum Nirvana-samlíkingum að taka lög eftir þá líka," segir Stefán.

"Það fer bara eftir því hvort einhver verði með eitthvað "bögg", ef svo verður tökum við Nirvana-lög, bara til þess að fara í taugarnar á þeim sem eru með leiðindi," segir Hálfán að lokum.

Ásamt Noise leikur hljómsveitin First Things First. Eins og á alla Föstudagsbræðinga Hins hússins er 16 ára aldurstakmark og aðgangur ókeypis. Húsið verður opnað kl. 20:30.