ENGLANDSBANKI, seðlabanki Bretlands, lækkaði í gær stýrivexti í annað sinn á þremur mánuðum, en þessi ákvörðun endurspeglar ótta við að efnahagsleg niðursveifla í heiminum, kreppa á hlutabréfamarkaði og efnahagslegar afleiðingar gin- og...

ENGLANDSBANKI, seðlabanki Bretlands, lækkaði í gær stýrivexti í annað sinn á þremur mánuðum, en þessi ákvörðun endurspeglar ótta við að efnahagsleg niðursveifla í heiminum, kreppa á hlutabréfamarkaði og efnahagslegar afleiðingar gin- og klaufaveikifaraldursins muni verða til að hægja á hagþróun í Bretlandi. Stjórn bankans ákvað að lækka stýrivextina um fjórðung úr prósenti, niður í 5,5% og vill með því reyna að hamla gegn því að óveðursský þau, sem myndazt hafa yfir alþjóðahagkerfinu, verði til að spilla þróun efnahagslífsins í Bretlandi, sem á undanförnum árum hefur siglt lygnan sjó.

Gin- og klaufaveikifaraldurinn, sem nú hefur staðið yfir í sex vikur, og hin mánaðalanga niðursveifla á hlutabréfamarkaðinum í Lundúnum voru tilgreindar sem viðbótarástæður fyrir því að bankastjórnin sæi nú þörf á vaxtalækkun.

Gera brezk stjórnvöld ábyrg

BREZKIR svínabændur sökuðu í gær stjórnvöld um að bera ábyrgð á því að gin- og klaufaveikifaraldurinn skyldi hafa farið af stað í landinu. Hugh Crabtree, varaformaður landssambands brezkra svínabænda, segir eitt orð lýsa hlutverki stjórnvalda í atburðarásinni sem leiddi til þess að faraldurinn brauzt út: "Hirðuleysi." Talið er að veirusmitið hafi borizt í svín í NV-Englandi með fóðri unnu m.a. úr matarafgöngum frá veitingahúsum; á einu veitingahúsinu hafi smyglað sýkt kjöt frá A-Asíu verið matreitt. Stjórnin hefur nú bannað notkun slíks fóðurs. Gin- og klaufaveiki hefur nú greinzt á yfir 1.000 býlum og sláturhúsum í Bretlandi og leitt til þess að ákveðið hefur verið að aflífa yfir eina milljón klaufdýra.

Lystarstolsgen

SAMKVÆMT niðurstöðum rannsókna þýzkra og hollenzkra vísindamanna er gen nokkurt, sem á þátt í að stýra matarlyst, algengara í lystarstolssjúklingum en öðrum. Benda niðurstöðurnar, sem verða birtar í maíhefti bandaríska tímaritsins Molecular Psychiatry, til þess að truflanir á starfsemi þeirra stöðva heilans sem stýra matarinntöku valdi sjúkdómum á borð við lystarstol og lotugræðgi. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem tekst að tengja ákveðið gen við lystarstol, þótt lengi hafi verið talið að líkurnar á að fá slíkan sjúkdóm tengist erfðum að hluta.

Karlavígi fallið

EFTIR margra mánaða togstreitu hefur hin kunna óperusöngkona Montserrat Caballe unnið af harðfylgi eitt síðasta karlavígið á Spáni, Cercle de Liceu-klúbbinn við óperuna í Barcelona. Caballet og níu aðrar konur hafa nú fengið inngöngu í hinn 150 ára gamla félagsskap eftir mikla rimmu, sem valdið hefur klofningi klúbbsins og verið slúðurblöðum Spánar kærkomið efni að smjatta á.