Eyjarðarsveit- Stefán Magnússon í Fagraskógi, sem var formaður búgreinaráðs Búnaðarsambands Eyjafjarðar og gaf kost á sér til áframhaldandi setu í stóli formanns, var felldur í kosningu á fundi ráðsins í fyrradag.
Eyjarðarsveit- Stefán Magnússon í Fagraskógi, sem var formaður búgreinaráðs Búnaðarsambands Eyjafjarðar og gaf kost á sér til áframhaldandi setu í stóli formanns, var felldur í kosningu á fundi ráðsins í fyrradag. Með honum í stjórn voru Gunnsteinn Þorgilsson á Sökku og Helgi Steinsson á Syðri-Bægisá en Helgi gaf ekki kost á sér áfram. Í stað Stefáns og Helga voru kjörnir þeir Þorsteinn Rútsson, Þverá, og Guðbergur Eyjólfsson, Hléskógum.

Stefán hefur verið fylgjandi innflutningi á norskum fósturvísum en þeir sem kosnir voru í stjórnina nú eru andstæðingar innflutningsins. "Ég gerði fundarmönnum grein fyrir því í minni framsögu að ég hefði ákveðnar skoðanir á innflutningsmálinu og benti á að ef menn ekki sættu sig við þær yrðu þeir að finna annan mann til forystu í samtökum okkar," sagði Stefán. "Ég gat allt eins átt von á þessu, það hefði verið óeðlilegt ef andstæðingar mínir í þessu máli, liðsmenn Búkollu, hefðu ekki reynt. Alls skildu 6 atkvæði Stefán og þann sem kjörinn var.

Stefán sagði að hann hefði viljað að tilraun með norsku fósturvísana hefði verið gerð á félagslegum grunni, líkt og stóð til í upphafi, en nú hafi mál skipast með öðrum hætti. "Fyrst það er ekki mögulegt er einsýnt að við munum reyna aðrar leiðir. Það hníga að því öll rök að þetta sé hagkvæmt og við verðum að leita allra leiða til að ná fram hagræðingu í okkar rekstri, þetta er einn af möguleikunum sem við sjáum til þess. Ég held að menn gefi slæman höggstað á sér ef þeir ekki reyna," sagði Stefán.

Hann sagði hóp bænda nú vinna að því að fá leyfi til að flytja inn norska fósturvísa í tilaunaskyni. "Við látum engan bilbug á okkur finna," sagði hann.

Á sömu leið fóru kosningar aðalfulltrúa á aðalfund Landssambands kúabænda en þeir Guðbergur og Þorsteinn ásamt Gunnsteini á Sökku og Þórði Þórðarsyni, Hvammi, voru voru kjörnir fulltrúar Eyfirðinga á fundinn.