HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í gær konu á þrítugsaldri í eins árs fangelsi fyrir innflutning á 164,45 grömmum af kókaíni síðastliðið sumar og gerði fíkniefnin jafnframt upptæk með dómi.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í gær konu á þrítugsaldri í eins árs fangelsi fyrir innflutning á 164,45 grömmum af kókaíni síðastliðið sumar og gerði fíkniefnin jafnframt upptæk með dómi. Ákærða játaði að hafa flutt kókaínið til landsins og sagðist hafa verið þvinguð af fíkniefnasala, sem hún skuldaði 150 þúsund krónur, til að flytja inn efnin.

Umræddur fíkniefnasali hafi hótað henni og ungu barni hennar og hafi hún tekið hótunina alvarlega. Ákærða neitaði hins vegar að upplýsa hver umræddur fíkniefnasali væri og þótti dóminum því ekki unnt að láta fullyrðingu hennar, um að hún hafi farið nauðug af ótta um hag sinn og barns síns, hafa áhrif á ákvörðun refsingar í málinu.

Til refsilækkunar var m.a. litið til þess að ákærða er ung að árum með ungt barn og hefur ekki samkvæmt sakaferli gerst sek um brot sem hefðu áhrif á refsingu hennar í málinu.

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóminn.