SUMARBÚÐIR KFUM og K í Ölveri í Melasveit hafa nú verið starfræktar í yfir 60 ár. Sumarbúðirnar buðu lengi vel upp á bæði drengja- og stúlknaflokka en hafa nú síðustu árin einungis boðið upp á vikuflokka fyrir stúlkur.
Í fyrra tók stjórn Ölvers upp á þeirri nýbreytni að halda opið hús í Ölveri einn dag að vori þar sem tekið er á móti gestum með rjúkandi kaffi, kakói og rjómavöfflum og fólki gefst kostur á að koma og skoða húsakynni sumarbúðanna, kynna sér staðinn og njóta útivistar í fallegu umhverfi. Opið hús verður í Ölveri í annað sinn laugardaginn 7.
apríl frá klukkan 13 til 17. Þetta er gott tækifæri fyrir gamlar ölversmeyjar til að rifja upp gamlar minningar annaðhvort með foreldrum eða jafnvel sem foreldrar, segir í fréttatilkynningu.
Skráning í sumarbúðirnar fer fram á aðalstöðvum KFUM og K á Holtavegi en einnig verður gefinn kostur á skráningu í Ölveri á laugardaginn.