SKIPULEGGJENDUR Masters-keppninnar í golfi íhuga að breyta verulega fjórum brautum Augusta National-golfvallarins. Brautirnar sem um er að ræða eru nr. 5, 11, 14 og 18 en þær eru allar par fjórir. Ör tækniþróun í hönnun golfbolta og golfkylfa hefur gert það að verkum að áðurnefndar brautir á Augusta-vellinum hafa misst töluvert gildi. Kylfingar slá nú langt yfir glompur og aðra hluti sem upphaflega voru hannaðir sem hindranir. En ætlunin er að færa teigana aftar og lengja þar með brautirnar. Einn þekktasti kylfingur sögunnar, Jack Nicklaus eða "Gullbjörninn", segir að framleiðendur verði að koma sér saman um staðla sem hamli því að nýjar gerðir golfbolta geti sífellt farið lengra. "Það er ekkert að hönnun Augusta-vallarins. Völlurinn er meistarastykki en í dag gerir tæknin bestu kylfingum heims kleift að slá miklu lengra en fyrir 20 árum. Ég hef sagt í mörg ár að einhver verður að grípa í taumana og setja reglur um staðlaðan golfbolta en enginn hefur lagt í það af ótta við málshöfðanir frá framleiðendum," segir Nicklaus í viðtali við NY Times.