NORSKI skíðamaðurinn Odd-Björn Hjelmeset og sænska skíðakonan Sofia Lind sigruðu í karla- og kvennaflokki í 100 m skíðasprettgöngu í göngugötunni á Akureyri í gærkvöld. Odd-Björn lagði heimamanninn Helga Heiðar Jóhannesson í úrslitum en Sofia hafði betur gegn Hönnu Dögg Maronsdóttur frá Ólafsfirði. Odd-Björn sigraði einnig í þessari grein á norska meistaramótinu um síðustu helgi.
Þetta var í fyrsta skipti sem slík keppni er haldin hér á landi en þessi grein nýtur vaxandi vinsælda erlendis. Fjölmargir áhorfendur mættu í göngugötuna og skemmtu sér vel.
Fremsti alpagreinamaður landsins, Kristinn Björnsson frá Ólafsfirði, var meðal keppenda og hann lét verulega að sér kveða. Kristinn byrjaði á því að leggja sænska skíðamanninn Morgan Göransson að velli í fyrsta spretti en tapaði naumlega fyrir gamla refnum, Hauki Eiríkssyni frá Akureyri, í þeim næsta en keppt var með útsláttarfyrirkomulagi. Keppendur voru alls 24, 16 í karlaflokki og 8 í kvennaflokki.