AÐEINS ein blómaheildsala er starfandi hér á landi og er markaðshlutdeild hennar 80-90%. Þetta er fyrirtækið Grænn markaður ehf., en í lok síðasta árs varð Blómasalan ehf. gjaldþrota.

AÐEINS ein blómaheildsala er starfandi hér á landi og er markaðshlutdeild hennar 80-90%. Þetta er fyrirtækið Grænn markaður ehf., en í lok síðasta árs varð Blómasalan ehf. gjaldþrota. Sigríður Ingólfsdóttir, formaður Félags blómaverslana, segir óljóst hvaða áhrif þessi staða hafi á markaðinn, en hún fullyrðir að afkoma bæði blómaframleiðenda og blómaverslana sé mjög slæm.

Sigríður segir að þetta sé í annað eða þriðja skiptið sem sömu aðilar og stóðu að Blómasölunni fari í gjaldþrot. Hún segir að í þessu gjaldþroti hafi garðyrkjubændur tapað milljónum króna. Þessu hafi þeir ekki mátt við því afkoma þeirra sé mjög slök.

Eignarhaldsfélagið Fengur á 40% í Grænum markaði og er stjórnarformaður fyrirtækisins Pálmi Haraldsson, framkvæmdastjóri Fengs. Samkeppnisráð gagnrýndi Feng harðlega í skýrslu um grænmetismarkaðinn sem kom út í þessari viku og talaði um að grænmetisfyrirtækin hefðu staðið að "samsæri gegn neytendum".

"Það er í sjálfu sér ekki komið í ljós hvernig þetta kemur út. Blómaverslanir hafa ekkert um þetta að segja. Hin blómaheildsalan varð gjaldþrota þannig að framleiðendur höfðu ekki í önnur hús að vernda en að fara með sína framleiðslu í Grænan markað. Í blómunum hefur alltaf verið frekar mikil fákeppni og mjög takmarkaður innflutningur af því þetta er landbúnaðarafurð. Það er ekki litið á þetta sem neysluvöru sem er í samkeppni við bækur eða hljómplötur. Umhverfið í þessari atvinnugrein er þess vegna erfitt," sagði Sigríður.

Sigríður sagði að það væri ekki komin reynsla á það hvort það væri gott eða slæmt að það væri bara ein blómaheildsala á markaðinum. "Það er auðvitað kvíðvænlegt að við skulum bara hafa einn aðila til að versla við, en það má segja að þetta sé það sama og er í matvörunni."

Höfðu með sér samráð árið 1999

Sigríður segir að stærstur hluti þeirra blóma, sem seld eru hér á landi, sé íslensk vara. Mjög erfitt sé að stunda innflutning á blómum. Flutningskostnaður sé hár, en það sem skipti þó einna mestu máli sé háir tollar. Allt árið sé lagður á 30% verðtollur, en síðan bætist við magntollar á vissum árstímum. Landbúnaðarráðuneytið auglýsi tollkvóta fyrir blóm líkt og gerist með innflutning á unnum kjötvörum og ostum. Tollarnir séu mismunandi milli blómategunda en þeir geti farið upp fyrir 1.000 kr. á kíló.

Þess má geta að fyrir tveimur árum komst Samkeppnisstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirtækin Blómasalan, Brumi og Gænn markaður hefðu haft með sér samráð við gerð tilboða í innflutning á blómum. Samkeppnisráð gagnrýndi landbúnaðarráðuneytið í úrskurði sínum fyrir aðgerðarleysi þegar því hefði mátt vera ljóst að fyrirtækin hefðu haft með sér samráð við gerð tilboða í tollkvóta vegna innflutnings á blómum. Fyrirtækin voru ekki sektuð og var í því sambandi vísað til þeirra sérstöku aðstæðna sem væru fyrir hendi í þessu máli.

"Það er álit samkeppnisráðs að landbúnaðarráðuneytinu hefði átt að vera það ljóst strax í upphafi, með vísan til fyrirkomulags á innflutningi blóma áður en GATT-samkomulagið tók gildi, og þeirrar fákeppni sem það leiddi af sér, að þær aðferðir sem hafa verið notaðar við stýringu á innflutningi blóma frá árinu 1995 væru til þess fallnar að skaða samkeppni á blómamarkaðnum."