STÚDENTARÁÐ og Félag háskólakennara boðuðu til fundar með nemendum í gær þar sem staða kjaradeilu Félags háskólakennara og ríkisins var rædd og hvaða þýðingu verkfall hefði fyrir stúdenta.
Fundurinn var afar fjölsóttur og áhugi mikill meðal stúdenta á að fá skýr svör um hvernig Háskólinn bregst við ef til verkfalls kemur þar sem engin fordæmi eru fyrir verkfalli Félags háskólakennara.
Róbert Haraldsson, formaður Félags háskólakennara, og Þórólfur Matthíasson stjórnarmaður sögðu samningamenn FH leggja allt kapp á að ná samningum áður en til verkfalls komi til að afstýra því "að þessi ósköp dynji yfir", eins og Þórólfur orðaði það. Spurður hverjar líkur væru á verkfalli sagðist Róbert vera bjartsýnn á að samningar næðust fyrir boðað verkfall, en hins vegar breyttust líkurnar dag frá degi. Þórólfur tók undir orð Róberts og sagði góðan vinnuanda ríkja við samningaborðið.
"Við höfum lagt öll okkar spil á borðið í þessum samningaviðræðum en við bíðum eftir viðbrögðum frá samninganefnd ríkisins. Verkfall yrði algjör neyðarráðstöfun og vonandi kemur ekki til þess. Við erum að vinna að því að ná samningum, það er okkar einlægi ásetningu." Þórólfur sagðist enda hafa sagt öllum nemendum sínum að haga prófaundirbúningi rétt eins og auglýst próftafla muni gilda.
Þorvarður Tjörvi Ólafsson, formaður stúdentaráðs, bar fram spurningu, sem brann á flestum nemendum, þ.e. hvað gerðist ef ekki semdist og kennarar kæmu aftur til starfa að verkfalli loknu og hvort próf yrðu þá haldin samkvæmt áður auglýstri próftöflu. Samkvæmt reglugerðum háskólans er flókið ferli að breyta próftökutíma þar sem slíkt krefst samþykkis deildarstjóra og kennslustjóra auk allra stúdenta í viðkomandi fagi.
"Komi kennarar samningslausir aftur til starfa og tillaga kemur fram að prófin verði færð á sumarleyfistíma kennara þá krefst það samningsvilja kennara og ef fólk kemur samningslaust úr verkfalli þá er ég hræddur um að kennarar verði stífir á því að leyfa frestun prófa. Þá verður komin pattstaða í Háskóla Íslands þar sem ekki verður hægt að leyfa frestun prófa, ekki hægt að fella þau niður og ekki hægt að meta námsárangur með nokkrum öðrum hætti en með prófum," sagði Þorvarður Tjörvi og lagði áherslu á að það væri grundvallarkrafa stúdenta að deilendur leystu ágreiningsmál sín án þess að til verkfalls kæmi. "Ef það tekst ekki verða nemendur við Háskóla Íslands að vita hvenær farið verður í próf og hvernig námslán verða afgreidd, frestun prófa verður námsmönnum mjög dýr þar sem þeir myndu tapa hluta sumarvinnu sinnar vegna prófa og fengju ekki afgreidd námslán," sagði Þorvarður.
Leysist deilan í miðju verkfalli tekur a.m.k. viku að semja nýja próftöflu og próf geta þá aldrei hafist fyrr en að þeirri viku lokinni. Hefjist próf þá ekki fyrr en í maílok lýkur þeim um 9. júní. Þá hafa kennarar 21 dag til að fara yfir próf og einkunnaskil því ekki möguleg fyrr en í júlíbyrjun. Það liggur því í augum uppi að útskrift stúdenta frestast. "Hversu margir stúdentar geta beðið eftir því? Hversu margir geta misst vinnu svo lengi vegna þess að þeir eru enn í skólanum?" sagði Þorvarður Tjörvi.
Skýlaus réttur til próftöku
Próf stúdenta í Háskóla Íslands verða ekki felld niður, heldur framkvæmd þeirra frestað, komi til boðaðs verkfalls. Þetta kom fram í svari Páls Skúlasonar rektors við fyrirspurn forystumanna Stúdentaráðs þar sem farið var fram á svör um hvernig útfærsla prófatímabilsins verði takist ekki sátt í kjaradeilunni.Rektor hefur einnig komið á fót samráðsnefnd sem á að gera áætlanir um hvernig framkvæmd prófa verður og undirbúa þær ákvarðanir sem taka þarf ef til verkfalls kemur. Í nefndinni sitja formenn Félags háskólakennara, Félags prófessora, samráðsnefndar háskólaráðs um kjaramál, lögfræðingur á skrifstofu rektors auk Þorvarðs Tjörva sem situr í nefndinni fyrir hönd stúdenta.
Í svari rektors segir m.a.:
"Tekið er undir það sjónarmið í bréfinu að hugsanlegt verkfall Félags háskólakennara veldur óvissu um Háskólann og stúdenta hans. Um ríka hagsmuni mjög stórs hóps er að tefla. Háskólinn mun reyna allt sem hann getur til þess að gæta hagsmuna stúdenta." Rektor sagði á fundinum í gær að hann teldi stúdenta eiga skýlausan, bæði lagalegan og siðferðislegan, rétt á því að Háskólinn standi fyrir prófum. Sá réttur verði ekki frá nemendum tekinn og Háskólinn muni gera allt sem í hans valdi stendur til að það verði gert. Með hvaða hætti það yrði sagðist rektor ekki geta sagt til um að svo stöddu. Rektor sagði það meginviðfangsefni stjórnar Háskólans í samvinnu við samninganefnd FH og samninganefnd ríkisins að leysa deiluna.
"Við leggjum alla áherslu á að þetta leysist og í mínum huga verður þetta að leysast og ég geri allt sem í mínu valdi stendur til að stuðla að því," sagði rektor. "Þessi staða fyrir rektor er óþolandi þar sem Háskólinn er settur á milli tveggja deiluaðila og verður á vissan hátt valdalaus. Mín tilfinning í dag er hins vegar sú að samningar náist tiltölulega hratt þar sem vilja samningsmanna til þess skortir ekki," sagði Páll.
Engin svör fengust á fundinum við spurningum nemenda um hvort próftími yrði jafnlangur kæmi til verkfalls eða hvort hann yrði styttur og öll yfirferð hraðari. Lokaritgerðaskil, einkunnaskil og útskrift nemenda eru enn óljós sem og hvernig staðið verður að sumarfríum kennara komi til verkfalls og frestun prófa. Þetta er meðal þeirra mörgu verkefna sem bíða úrvinnslu hjá samráðsnefnd rektors.
Hagsmunir á sjöunda þúsund nemenda í húfi
Stjórn Stúdentaráðs hefur sent frá sér ályktun þar sem skorað er á mennta- og fjármálaráðherra að beita sér í kjaradeilu kennara og ríkis svo lausn náist áður en til verkfalls kemur."Í húfi eru hagsmunir á sjöunda þúsund stúdenta sem búa við mikla óvissu um framkvæmd prófa og afgreiðslu námslána. Verkfall mun lama alla starfsemi skólans um ófyrirséðan tíma og stjórnvöld verða að leggja sitt af mörkum svo að slíkt gerist ekki í stærsu menntastofnun þjóðarinnar," segir í ályktuninni.
Stjórn LÍN, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, hefur samþykkt að skipa starfshóp sem mun gera tillögur til stjórnarinnar um viðbrögð sjóðsins við verkfallinu.
Samkvæmt upplýsingum frá LÍN er ekki ófrávíkjanleg regla að aðeins sé hægt að greiða úr sjóðnum þegar námsárangur liggur fyrir þar sem dæmi séu fyrir því að námslán séu borguð út á grundvelli námsástundarvottorða frá skóla. Heimildir til þessa séu þó innan ákveðinna marka. Vinnuhópur LÍN mun kynna þá kosti sem fyrir liggja á næsta stjórnarfundi sjóðsins sem fyrirhugaður er 20. apríl nk.