SKÖMMU eftir aldamótin 1900 skrifaði danski læknirinn Christian Schierbeck tvö bréf til íslenskra yfirvalda og mæltist til þess að geðsjúkrahús yrði byggt á Íslandi. Á þeim tíma áttu geðsjúklingar engan samastað í heilbrigðiskerfinu og bjuggu hjá ættingjum eða vandalausum gegn smánarlegum sveitarstyrk sem greiðslu. Schierbeck læknir fór mörgum orðum um aðbúnað þessara sjúklinga sem hann sagði skelfilegan. Með þá væri farið eins og dýr í búri, réttindi þeirra engin og fáfræði alls almennings og lækna væri himinhrópandi. Hann bauðst til að byggja sjúkrahús fyrir eigin reikning en því boði var hafnað og Kleppur reistur fyrir almannafé. Þessi "rödd hrópandans" hrökklaðist síðan af landinu og kom aldrei aftur. Bréfin standa eftir sem þungur áfellisdómur um þjóðfélag sem kom fram við stóran sjúklingahóp af mikilli vanþekkingu og mannvonsku.
Með byggingu Klepps batnaði mjög allur aðbúnaður þessara sjúklinga en því miður fylgdu í kjölfarið fordómar og eingrun geðsjúkra í samfélaginu. Tungan hafði um langt skeið að geyma ýmiss konar neikvæð og niðrandi nafnorð og lýsingarorð sem tengdust Kleppi. Menn voru sagðir Klepptækir, kallaðir Klepparar og óvenju tilgangslaus og heimskuleg vinna var nefnd Kleppsvinna. Menn óskuðu fjandmönnum sínum ævilangrar innilokunar á Kleppi í hita einhverrar tilgangslausrar umræðu. Þoka fordóma og illkvittni sveipaði staðinn og gerði sjúklingum oft erfitt um vik að fóta sig í samfélaginu.
Ég bjó á árunum kringum 1960 í blokk við Kleppsveginn og minnist þess orðspors sem fór af nágrönnum mínum "inn við Sundin blá". Sjúklingar af Kleppi voru litnir hornauga af þeim samborgurum sínum sem töldu eigið geðheilbrigði svo ótvírætt að engin geðveila gæti nokkru sinni grandað þeim. Þegar sjúklingar stigu uppí leið 13, Kleppur hraðferð, litu margir undan en aðrir störðu á þá í forundran eins og sýningargripi. Klepparar voru handan einhverrar ósýnilegrar línu sem dregin var á milli heilbrigðis og vanheilsu, hins eðlilega og þess óeðlilega. Þetta stuðlaði að enn frekari einangrun þessara einstaklinga sem oftsinnis áttu erfitt með að komast yfir þessi mörk og inní skilgreinda veröld geðheilbrigðis.
Sem betur fer hefur þetta ástand breyst til mikilla muna. Mörkin milli geðsjúkra og hinna hafa með tímanum orðið æ óljósari enda er vitað að 22-24% íslensku þjóðarinnar þjást af geðheilsuvanda af einhverjum toga - eða nær einn af hverjum fjórum landsmönnum. Geðsjúkdómar eru því ekki lengur einangrað fyrirbæri á geðdeildum heldur óaðskiljanlegur hluti af samfélaginu.
Hinn 7. apríl nk. mun Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hvetja stjórnvöld og almenning um heim allan til að vinna heilshugar að eflingu geðheilbrigðis. Einkunnarorð dagsins eru: "Ekki líta undan - láttu þér annt um andlega heilsu." Þau leiða hugann aftur til bernskunnar þegar flestir litu undan á ákveðnum stoppistöðum strætisvagnanna í Laugarneshverfi. Megi þessi dagur verða okkur til áminningar að við erum öllum farþegar með Kleppi hraðferð, misveik, misþunglynd, misör, misspennt, misdöpur, misvonlaus og miskvíðin. Umgöngumst samfarþegana af virðingu; þá komast allir heilli og sælli á leiðarenda.
Höfundur er læknir.