Okkur líst vel á að fá Tindastól í úrslitunum þrátt fyrir að við þurfum að fara allt aftur til 17. október árið 1997 til að finna síðasta sigurleik okkar í "Síkinu" á Sauðárkróki. Þeir eru með hávaxna leikmenn á borð við Michail Antropov og Shawn Myers en við höfum einnig góða hávaxna leikmenn sem ráða vel við það verkefni. Við höfum ekki spáð mikið í andstæðingana. Það kom reyndar á óvart hve illa Tindastólsmönnum gekk að leysa svæðisvörn Keflvíkinga og það er hlutur sem við vitum af. Annars verður lagt upp með að við leikum eins og við höfum gert í vetur enda engin ástæða til að breyta út frá því," sagði Teitur í samtali við Morgunblaðið í gær.
Svo virðist sem allir leikmenn Njarðvíkur séu með afmarkað hlutverk í sókn og vörn. Var það forgangsatriði hjá ykkur að búa svo um hnútana?
"Við erum með leikmenn sem gera suma hluti betur en aðrir og menn vita að það er vænlegt til árangurs að Logi Gunnarsson, Brenton Birmingham og Jes V. Hansen séu fyrstu valkostirnir í sókn. Annars hefur það verið okkar styrkur að við höfum fundið ýmsar aðrar leiðir að körfu andstæðinganna í úrslitakeppninni," segir Teitur og er hógværðin uppmáluð því hann hefur skorað 13,2 stig að meðaltali í úrslitakeppninni sem er rúmlega tveimur stigum meira en hann skoraði í deildarkeppninni í vetur. "Menn eru ekkert sárir eða argir þótt einhverjir séu að skjóta meira en þeir og það er liðsheildin sem hefur skilað okkur í úrslitaviðureignina," sagði Teitur.
Friðrik Ragnarsson og Teitur eru leikmenn og þjálfarar Njarðvíkurliðsins og aðspurður sagði Teitur að Friðrik bæri þungan af því að stjórna liðinu á æfingum.
"Það hefur verið þannig að Friðrik hefur að mestu tekið að sér verkstjórnina á æfingum. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og ég hef þá getað einbeitt mér meira að hlutverki mínu sem leikmaður. Þjálfarahlutverkið tekur meiri toll af Friðriki sem leikmanni en við vissum að slíkt gæti gerst þegar við tókum þetta verkefni að okkur," sagði Teitur.
Í fjölmiðlum hefur Teitur sagt að andlegt ástand leikmanna Njarðvíkur sé allt annað og betra en á sama tíma í fyrra, en hvað er það sem veldur því?
"Seinni umferð Íslandsmótsins í fyrra var undarleg upplifun fyrir okkur alla. Félagi okkar og vinur, Örlygur Aron Sturluson, lést af slysförum í janúar í fyrra og það hafði mikil áhrif á liðið. Fráfall Örlygs hékk yfir okkur eins og rigningarský og menn sáu að lífið gengur út á fleiri hluti en körfuknattleik. En við höfum náð að beina þessum hugsunum okkar inn á réttar brautir. Það er góður andi í liðinu og menn hafa mikið sjálfstraust," sagði Teitur.
Njarðvík er af flestum talið sigurstranglegt gegn Tindastól. Blundar eitthvað vanmat í ykkur?
"Nei, eins og ég sagði áður var okkur í raun alveg sama hvoru liðinu við mættum í úrslitunum. Við finnum fyrir miklum meðbyr í bæjarfélaginu og það sást í útileiknum gegn KR að fólk fylgir okkur á útivöllinn og ég á von á því að áhorfendur eigi einnig eftir að fjölmenna norður á Sauðárkrók," sagði Teitur.
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson