Hugleiðsla á Lækjartorgi ...
Hugleiðsla á Lækjartorgi ...
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í hádeginu á föstudögum sest hópur ungs fólks við hugleiðslu á sjálft Lækjartorg, mitt í ys og þys miðborgarinnar. Sigurbjörg Þrastardóttir gómaði einn úr hópnum og átti við hann friðsamlegt spjall um réttlæti, frosthörkur og bjartsýni.

Í HÁDEGINU í dag mun hópur hugsandi fólks setjast 17. föstudaginn í röð á kaldar hellur Lækjartorgs. Erindið er að hugleiða böl sem þarf að bæta í heiminum. Í hópnum eru læknanemi, lektor, menntaskólanemi, mannfræðinemi, verkamaður, rafeindafræðinemi og fleiri, og það sem sameinar hópinn er áhugi á fegurra mannlífi.

"Við erum mismargir eftir atvikum, í frosthörkum vetrarins hefur stundum mátt telja okkur á fingrum annarrar handar. Engin seta hefur samt fallið niður," segir Bergsteinn Jónsson. Hann hefur verið með frá byrjun og bregður sér í hlutverk talsmanns, án þess að neinn sé í raun leiðtogi.

Samkomur hópsins á Lækjartorgi eru ekki hefðbundin mótmæli, ekki pólitískir fundir og þaðan af síður götuóeirðir. Þetta er einfalt: hópurinn kemur fyrir skilti með upplýsingum um málefni dagsins, sest niður og hugleiðir í um það bil hálftíma. Hverjum vegfaranda er heimilt að slást í hópinn og taka þátt í hugleiðslunni, enda er tilgangurinn einmitt öðrum þræði að vekja almenning til umhugsunar um óréttlæti og misrétti í heiminum.

Rétta vopnið gegn kúgun

"Við höfum allir bakgrunn í jóga og búum að reynslu af hugleiðslu. Seturnar eru þó alls ekki bara ætlaðar þeim sem eru slíku vanir, fólki er líka velkomið að setjast niður, kyrra hugann og hugsa - í venjulegum skilningi - um það málefni sem um er að ræða í hvert sinn," segir Bergsteinn.

Hann segir hugleiðslu snúast um að víkka hugann og hún efli um leið samkennd. Við ástundunina fari réttlætiskenndin líka eins og sjálfkrafa í gang. "Hugleiðsla er líka góð aðferð í baráttu gegn hvers kyns kúgun og ranglæti vegna frelsisins sem í henni felst. Það er svo erfitt að koma böndum á hugleiðslu. Af þessum sökum er að mínu mati mjög táknrænt að stunda hugleiðslu gegn kúgun og valdbeitingu - hún er tákngervingur andkúgunar."

Bergsteinn er kominn á flug og ljóst má vera að föstudagssamkundurnar eru í hans huga hvorki afþreying né ásókn í athygli.

"Það hefur reyndar komið fyrir að fólk hendir í okkur tíköllum og heldur þá að við séum götulistamenn," segir hann og kímir. "Svo köstuðu litlir krakkar einu sinni í okkur tómötum, en að öðru leyti höfum við fengið að vera í friði. Auðvitað eru þetta ekki beint kjöraðstæður til hugleiðslu, að sitja undir umferðarniðnum, músíkinni og hávaðanum á torginu, og ég viðurkenni að í fyrstu skiptin var dálítið erfitt að ná einbeitingu. En þetta kemur. Að vera á þessum stað er hins vegar mikilvægt því það ljær þessum aðgerðum ákveðinn alvörusvip - að brjóta niður borgaralegt velsæmi með því að gera eitthvað allt annað en allir aðrir. Setjast niður og þegja."

Staðarvalið sýnir líka samkenndina mjög skýrt í verki. Á svæði þar sem allir eru að flýta sér eitthvert til að reka erindi fyrir sjálfa sig sitja nokkrir menn í eins konar tímaleysi og huga að kjörum annarra.

Hugmyndin að hugleiðslusetunum á torginu kviknaði að sögn Bergsteins sem gjörningur á "Kaupum ekkert-deginum" hinn 26. nóvember sl., sem var eins konar andneysludagur.

"Þá fórum við í Kringluna, nokkrir saman, með stolna hugmynd frá japönskum zen-búddista. Einn okkar var í jólasveinabúningi, rúllaði út teppi á víðavangi í Kringlunni, settist og tók að hugleiða. Á veggspjaldi við hliðina voru svo slagorð um ranglæti í heiminum. Þegar við sáum hversu mikla athygli þetta vakti datt okkur í hug að gera eitthvað svipað að reglulegum viðburði. Okkur varð ljóst að svona framtak hefur áhrif á fólk, margir stoppuðu til þess að lesa veggspjaldið og það sama á við um spjaldið á torginu," segir Bergsteinn og vísar í upplýsingarnar um málefnin sem hugleidd eru.

Myndræn framsetning á veggspjöldunum er í höndum Úlfs Chaka, listnema, og úr spjaldi vikunnar má yfirleitt lesa ákveðna afstöðu. Flest málefnin sem tekin eru fyrir snerta óréttlæti úti í heimi, en íslensk sjónarhorn hafa einnig verið tekin, svo sem kjör öryrkja á Íslandi.

"Fyrsta málið sem við hugleiddum voru átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og þá tókum við málstað Palestínumanna. Svo höfum við hugleitt fóstureyðingar með valdi í Tíbet, mansal í vændi frá Austur-Evrópu, herskyldu barna, vændissölu nepalskra stúlkubarna og áhrif úraníumhúðaðra skotfæra, svo nokkur dæmi séu nefnd," segir Bergsteinn. "Við viljum vekja fólk til vitundar og minna það á að við erum á 1. farrými í þessum heimi. Lífið á samt að vera barátta, ef ekki á líkamlega sviðinu, þá á því huglæga. Það má aldrei láta staðar numið því stöðnun er dauði."

Bergsteinn áréttar þó að svartsýni hrjái hvorki hann né félagana, þeir hafi síður en svo dómsdagssýn á tilveruna. "Ef ég á að segja fyrir mig hef ég einmitt mikla trú á mannkyninu og finnst það á leiðinni í rétta átt - þótt það líti kannski ekki alltaf þannig út. Ég á við, allir geta fundið eitthvað gott í sjálfum sér, og því hlýtur að mega finna hið sama í öllum öðrum."

Dropinn holar steininn

Bergsteinn er varlega spurður hvort hann búist við því að sjá einhvern árangur aðgerðanna, hvort einhver leið sé til þess að meta það.

Hann svarar rólega eftir umhugsun. "Eina mælistikan sem til er eru gjörðir manns. Ef maður gerir eitthvað af lotningu og einlægni hlýtur það að skipta máli. Og dropinn holar steininn."

Hann talar eins og hann sé að velta fyrir sér hljómi svaranna jafnóðum. Auðheyrt er að hér eru ekki á ferð ákveðnir frasar, teknir upp úr heimspekiritum eða trúarsetningum, þótt málsniðið sé kannski ekki það hversdagslegasta. "Aðgerðirnar sem slíkar eru ekki í tengslum við nein trúfélög eða ákveðna hópa, svo það sé á hreinu," ítrekar hann, þegar blaðamaður færir vangaveltur sínar í orð. "Við viljum vera lausir við allar kreddur og allir eiga að vera velkomnir að slást í hópinn. Og ég skora hér með á fólk að setjast niður og prófa, finna hvernig það er að hafa lagt þótt ekki sé nema örlítið af mörkum. Þetta er nefnilega mjög styrkjandi og getur alveg bjargað deginum fyrir mann. Hugleiðsla er líka nokkuð sem allir geta gert og er því sterkt, mannlegt sameiningartákn."

Bergsteinn ítrekar að aðferðin gangi út á að gagnrýna ekki, heldur setja gott fordæmi.

"Ef það er einlægt, þá virkar það. Og vonandi mun þetta hafa áhrif smátt og smátt, við ætlum að minnsta kosti að halda áfram svo lengi sem þol leyfir," bætir hann við og játar að gaman væri að sjá einhvern tíma torgið þéttsetið af fólki við hugleiðslu - "sófa-aktífistum" sem loksins láta sig hafa það að koma út á götu í bókstaflegri merkingu.

Á netfangið hugleidum@strik.is getur fólk skrifað og bent á ranglæti í heiminum sem það vill að tekið verði fyrir á hugleiðsluföstudögum á Lækjartorgi.