Ólafsfiði- Í nógu er að snúast hjá forsvarsmönnum og starfsmönnum Íslandsfugls þessa dagana, og mikið sem þarf að koma í verk á stuttum tíma, því óðum styttist í að starfsemi komist í fullan gang.
Ólafsfiði- Í nógu er að snúast hjá forsvarsmönnum og starfsmönnum Íslandsfugls þessa dagana, og mikið sem þarf að koma í verk á stuttum tíma, því óðum styttist í að starfsemi komist í fullan gang. Nú eru 10 manns á launaskrá hjá fyrirtækinu, en Auðbjörn Kristinsson framkvæmdastjóri segir að í næsta mánuði verði ráðnir um 20 til viðbótar, og gert er ráð fyrir frekari fjölgun í sumar. Og það er enginn hörgull á vinnuafli, því þegar hafa um 40 manns sótt um vinnu hjá fyrirtækinu þótt ekkert hafi verið auglýst og eru umsækjendur frá Árskógsströnd, Svarfaðardal, Dalvík og Ólafsfirði.

Auðbjörn segir að stefnt sé að því að útungunarstöð fyrirtækisins verði í Ólafsfirði, og búið er að gera tilboð í húsnæði þar, og skýrast þau mál nánar á næstu dögum. Þar vantar starfsmann, karl eða konu, og segir Auðbjörn að starfið felist aðallega í eftirliti.

Samið hefur verið við Tréverk ehf. um að reisa hús við Hafnarbrautina, sem tengir Söltunarfélagshúsið við Klemmuna. Miðað er við að Tréverk skili húsinu fokheldu, og skal framkvæmdum lokið 1. júní nk.

Stálþilseiningarnar í húsið í Ytra-Holti eru á leið til landsins. Byrjað verður að reisa húsið 17. apríl, og er ráðgert að það verði gert fokhelt á 10 dögum. Að því búnu verður ráðist í að einangra húsið, setja upp milliveggi, ljós og loftræstingu.

Búið er að hreinsa allt lauslegt og óþarfa innréttingar út úr Söltunarfélagshúsinu. Sömuleiðis var allt gólfið brotið upp, því það var ekki allt í sömu hæð og því óhentugt fyrir kjúklingavinnsluna. Nýtt gólf verður steypt á næstu dögum og sett upp dæla fyrir hreinsistöðina, því enginn úrgangur á að fara gegnum klóakið.

Þá hefur verið ráðinn markaðsfræðingur sem sinna mun markaðsmálum á Suðurlandi. Heitir hann Ólafur Júlíusson, og er menntaður markaðsfræðingur og kjötiðnaðarmaður, og segir Auðbjörn að þekking hans muni örugglega nýtast fyrirtækinu vel, bæði hvað varðar markaðssetningu og vöruþróun.