FYRSTI aðalfundur IOGT í Reykjavík var haldinn í IOGT-húsinu, Stangarhyl 4, fimmtudaginn 29. mars sl. Á sjötta tug félaga og gesta komu á fundinn, þar af 40 fulltrúar 12 deilda sem mynda kjölfestu starfs IOGT í borginni.

FYRSTI aðalfundur IOGT í Reykjavík var haldinn í IOGT-húsinu, Stangarhyl 4, fimmtudaginn 29. mars sl. Á sjötta tug félaga og gesta komu á fundinn, þar af 40 fulltrúar 12 deilda sem mynda kjölfestu starfs IOGT í borginni.

Auk venjulegra aðalfundarstarfa flutti Helgi Seljan, formaður Bindindissamtakanna IOGT, ávarp og Jón Helgason, formaður Landverndar, flutti erindið: Maðurinn í íslenskri náttúru.

Eftirvarandi ályktun var samþykkt á fundinum:

Áfengi aðalvímuvaldurinn

"Aðalfundur Bindindissamtakanna IOGT í Reykjavík varar alvarlega við öllum tilslökunum á fyrirkomulagi á sölu áfengis. Ljóst er að áfengi er mesti skaðvaldur og orsök margvíslegs tjóns sem þjóðfélagið líður stórlega fyrir.

Í þessu sambandi vill fundurinn sérstaklega vekja athygli á ummælum Gro Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, á ráðstefnu í Stokkhólmi nýlega um þetta efni. Þar sagði hún áfengið aðalvímuvaldinn og orsakavald hinna skelfilegustu hluta, allt yfir í eyðingu lífsins sjálfs, og reiddi fram því til sönnunar hræðilegar tölur um mannfall af völdum áfengis, fórnarkostnað sem nemur 50 þúsund mannslífum á ári í Evrópusambandslöndum.

Þá vill fundurinn benda á að það er álit manna sem kannað hafa þessi málefni að 97 af hundraði þeirra sem neyta ólöglegra fíkniefna byrja neysluna í áfengi. Þetta kom m.a. fram hjá virtum bandarískum sérfræðingi í vímuvörnum sem var á ferð hér á landi fyrr í vetur.

Aðalfundur IOGT telur því skynsamlegustu leiðina að sýna sérstaka aðgát í þessu efni og rýmka ekki frekar aðgengi að áfengi en gert hefur verið til þessa. Fundurinn telur því ábyrgðarlausa þá tillögu að setja áfengi til sölu í matvöruverslanir. Það myndi opna greiðari leið áfengis að yngstu kynslóðinni í landinu sem okkur ber skylda til að vernda."