Leikstjóri: Emilie Deleuze. Handrit: Emilie Deleuze, Laurent Guyot, Guy Laurent. Kvikmyndataka: Antoine Héberlé. Aðalhlutverk: Samuel Le Bihan, Marcial Di Fonzo Bo. Frakkland 1999. 90 mínútur.

Í FRÖNSKU myndinni Fátt nýtt gerist fátt eitt. Ungur maður hættir í fyrirtæki þar sem hann prufukeyrir tölvuleiki en veit ekki hvað hann á að taka sér fyrir hendur. Glæsimey hjá vinnumiðlun, sem hann sefur líklega hjá, bendir honum á námskeið í stjórnun þungavinnuvéla og hann slær til og slær í gegn þar því að stjórna vinnuvél er mjög líkt því að stjórna tölvuleik. Á námskeiðinu vingast hann við sérlega lélegan nemanda og hjálpar honum eftir bestu getu en á meðan hann er í burtu óttast hann að fjölskylda sín leysist upp.

Svo er það nú búið. Örsögu þessa segir leikstjórinn Emilie Deleuze ásamt tveimur handritshöfundum með þeim hætti að myndin virðist gersamlega stefnulaus. Dagarnir líða einn af öðrum í malargryfjum þar sem æfingar á þungavinnuvélar fara fram, eitthvað hittast þeir á kvöldin og bauka, um helgar fer okkar maður í bæinn að hitta fjölskyldu sína, kemur svo aftur, hefjast þá æfingar á þungavinnuvélar, eitthvað að bauka á kvöldin - og maður spyr sig, hvað er í gangi hérna? Deleuze virðist hafa í hyggju að fjalla um mann sem vill breyta til. Hefur náð þeim aldri að hann gæti staðnað og vill það ekki. Vill ráða sínum eigin örlögum. En það er engin dramatísk spenna í sögunni, maðurinn hefur í sjálfu sér engin önnur markmið en að breyta til, virðist engan sérstakan áhuga hafa á þungavinnuvélum, ólíkt vini sínum, sem myndin hefði kannski átt að fjalla um því að þar er ákveðin þroskasaga á ferðinni, og er sama skaplausa góðmennið frá upphafi til enda. Lítillegt rifrildi hans við eiginkonu virkar eins og ferskur gustur inn í mengunina af vinnuvélunum. Hér er engin pólitísk rétthugsun á ferðinni, ég man ekki eftir mynd sem er jafnhreykin af mengun og þessi.

Leikstjórinn leggur allt upp úr ofurraunsæi og myndin virkar eins og löng heimildarmynd um lífið á þungavinnuvélanámskeiði. Einhver gæti kannski hafa gert úr því almennilega bíómynd. Ekki Deleuze.

Arnaldur Indriðason