LAGT er til að gripið verði til sérstakra aðgerða til að stemma stigu við vaxandi andúð í garð útlendinga hér á landi, í tillögu til þingsályktunar sem Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingunni, og fimm samflokksmenn hennar hafa lagt fram á Alþingi.

LAGT er til að gripið verði til sérstakra aðgerða til að stemma stigu við vaxandi andúð í garð útlendinga hér á landi, í tillögu til þingsályktunar sem Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingunni, og fimm samflokksmenn hennar hafa lagt fram á Alþingi. Þá er lagt til að stofnaður verði starfshópur sem hafi að aðalverkefni að vinna að fræðsluátaki í fjölmiðlum, skólum og á vinnustöðum.

Í greinargerð með tillögunni segir að á liðnum misserum hafi vaxandi andúðar í garð útlendinga orðið vart í opinberri umræðu hér á landi. Í blaðaviðtölum, útvarpi og sjónvarpi hafi mátt heyra þær skoðanir viðraðar að Ísland sé fyrir Íslendinga og enga aðra. Svo virðist sem sú skoðun eigi vaxandi fylgi að fagna að fólk af erlendum uppruna eigi ekki heima í íslensku samfélagi.

Bent er á að í niðurstöðum könnunar sem Gallup birti í haust komi fram að fólk í aldurshópnum 16-24 ára telji þorra landsmanna vera frekar eða mjög fordómafullan gagnvart útlendingum. Hins vegar segist þessi sami hópur ekki hafa mikla fordóma gagnvart útlendingum. Niðurstöður könnunarinnar bendi til þess að margir álíti að útlendingar séu of margir á Íslandi og aukinn fjöldi gæti haft slæm áhrif á samfélagið.

"Varasamt er að draga of víðtækar ályktanir af niðurstöðu einnar könnunar en hins vegar er ljóst að jarðvegur útlendingaandúðar er frjór hér á landi, rétt eins og annars staðar í Evrópu. Það er því skylda stjórnvalda að grípa til aðgerða í bráð og lengd sem miða að því að sporna við vaxandi fordómum í garð útlendinga," segir í greinargerðinni.