MARGRÉT Frímannsdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og þingmaður Sunnlendinga, sagði ljóst af skýrslu Samkeppnisstofnunar um grænmetismarkaðinn að ekki hefði verið staðið eðlilega að verki. Hún leggur til að garðyrkjubændur og ríkið geri með sér samning til fimm ára með það að markmiði að auka neyslu á grænmeti.
"Það var að því stefnt 1995, þegar verndartollarnir voru settir á, að tollarnir lækkuðu stig af stigi. Það var jafnframt gert ráð fyrir að gerð yrði úttekt á rekstrargrundvelli íslenskrar garðyrkju og borið saman við rekstrargrundvöll þessarar sömu starfsemi í nágrannalöndum okkar sem við erum að keppa við. Það hefur ekki verið gert og mér hefði fundist að í úttekt Samkeppnisstofnunar hefði mátt fara aðeins betur ofan í rekstrargrundvöll garðyrkjunnar. Þegar verðmyndun grænmetis er skoðuð er fleira en samráð framleiðenda og dreifingaraðila sem skiptir máli. Við erum með mjög stórar verslunarkeðjur sem eru algerlega ráðandi á markaðinum og mér segir svo hugur um að þær komi nokkuð að þessari verðmyndun líka."
Margrét sagði nauðsynlegt að gera breytingar á rekstrarumhverfi garðyrkjunnar en gæta þyrfti að rekstrarskilyrðum garðyrkjubænda. Hún sagðist telja nauðsynlegt að lækka tollana. "Það þarf að finna leiðir til að lækka verð á íslensku grænmeti en þó má ekki gera það með þeim hætti að þetta litla sem framleiðendur fá fyrir vörur sínar, en það eru um 40-45% af verðinu, lækki þannig að þessi atvinnugrein leggist af. Það þarf að finna aðrar leiðir. Ég held að væri skynsamlegt að stjórnvöld og garðyrkjubændur gerðu samning til fimm ára um manneldisstefnu þar sem væri lögð áhersla á að auka neyslu á grænmeti. Í því gætu falist kaup ríkisins á ákveðinni þjónustu garðyrkjubænda.
Þetta mál hlýtur að verða upphafið að því að Samkeppnisstofnun skoði með sama hætti aðra aðila á markaðinum. Ég nefni olíufélögin og tryggingarfélögin sem dæmi sem nauðsynlegt er að skoða," sagði Margrét.