STEINGRÍMUR J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, segir ljóst að úrskurður samkeppnisráðs feli í sér mjög alvarlegar ávirðingar og fyrirtækin séu sökuð um alvarleg brot á samkeppnislögum.

STEINGRÍMUR J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, segir ljóst að úrskurður samkeppnisráðs feli í sér mjög alvarlegar ávirðingar og fyrirtækin séu sökuð um alvarleg brot á samkeppnislögum. Þótt þau geti áfrýjað til áfrýjunarnefndar og málin endað hjá dómstólum sé þarna um mjög alvarlegar ásakanir að ræða.

Þá segist Steingrímur fagna því að Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð sé með þessum úrskurði og fleiri verkum á undanförnum mánuðum, að sýna fram á þá ætlun sína að veita öflugt aðhald og beita samkeppnislögum til þess að reyna að tryggja heilbrigða samkeppni og koma í veg fyrir að menn misnoti aðstöðu sína og aðilar nái of sterkum tökum á markaðnum í gegnum samruna fyrirtækja, sem leiði til óæskilegrar samþjöppunar og fákeppni. "Þannig að sá þáttur málsins er jákvæður að mínu mati. Það eru ákveðin tímamót fólgin í þessum ákvæðum og sektum."

Varðandi stöðu málsins í heild og þá umræðu sem upp hefur komið varðandi fyrirkomulag á sölu og innflutning á grænmeti og reglugerð og tolla þar að lútandi, segir Steingrímur það í sjálfu sér aðgreint mál frá framferði fyrirtækjanna. "En ég held að það sé samt ljóst að ekki verði vikist undan því að endurskoða og fara yfir þessi mál og við erum hlynnt því að það verði gert, því þetta fyrirkomulag hefur reynst afleitlega. En það verður þá á hinn bóginn að leita leiða til þess að gera það án þess að það rústi grundvelli innlendrar framleiðslu, enda er nú ljóst að framferði þessara fyrirtækja hefur ekki verið í þágu grænmetisframleiðenda, nema síður sé. Þannig að þeir eru þolendur í þessu máli rétt eins og neytendur. Það eru fyrst og fremst þessi fyrirtæki og verslunin sem eru að hirða þetta í eigin vasa."

Að mati Steingríms er óhjákvæmilegt að í kjölfarið fylgi ákveðnar aðgerðir og menn reyni að draga lærdóm af þessari reynslu. Eitt af því sem þá hljóti að koma til skoðunar eru innflutningstollar og fyrirkomulagið í kringum þá. Steingrímur segir það vera í hag bæði neytenda og framleiðenda að auka sölu og neyslu grænmetis hér á landi og rétt sé að leita frekar annarra leiða til að styðja við bakið á innlendu framleiðslunni heldur en beiting hárra tolla hefur falið í sér. "Að minnsta kosti eins og hún hefur komið út í framkvæmd og reyndinni. Það er spurning hvort ekki væri vænlegra að horfa til þess að hjálpa þeim við að ná niður sínum framleiðslukostnaði, t.d. með lækkun á raforkuverði til þeirra og öðru slíku."