SKÝRSLA samkeppnisráðs um grænmetismarkaðinn er ótrúleg og á köflum reyfarakennd lesning. Eftir lestur hennar er Víkverja til efs að jafnfrekleg atlaga hafi verið gerð að hagsmunum íslenzkra neytenda og þar er lýst. Fyrirtæki, sem Víkverji hélt í einfeldni sinni að væru málsvarar viðskiptafrelsis og samkeppnissjónarmiða, reynast hafa ástundað verðsamráð, þegið greiðslur fyrir að veita keppinautum ekki samkeppni o.s.frv. Hvar sem Víkverji kemur hittir hann öskureiða neytendur, sem harma að hafa látið grænmetiseinokunarhringinn níðast á sér árum saman. Flestum kemur þó saman um að það sé lán neytenda í öllu óláninu að forsvarsmenn fyrirtækjanna hafi verið nógu einfaldir til að skrá allt svindlið og svínaríið samvizkusamlega í fundargerðir og minnisblöð, sem nú tala sínu máli.
ÞAR sem Víkverji stóð við grænmetisborðið í Nýkaupi eftir að hafa lesið skýrslu samkeppnisráðs var honum skapi næst að kaupa ekki svo mikið sem eina baun. Neytendur vita nú, að það eru yfir 90% líkur á því, ef þeir kaupa grænmeti eða ávexti, að andvirðið renni til fyrirtækjanna sem hafa árum saman haft af þeim fé með því að hindra samkeppni. Grænmetisbændurnir hafa frekar hent tómötunum, gúrkunum og kartöflunum en að láta neytendur hafa þessar vörur á lágu verði. En Víkverji veit líka að grænmeti er hollt, þannig að hann keypti lauk, sveppi og salat og las yfir hausamótunum á dóttur sinni við kvöldverðarborðið, að hún ætti að vera dugleg að borða grænmetið. Sem betur fer er stúlkan ekki komin á þann aldur að geta gripið til þeirra röksemda að hún vilji ekki styrkja einokunarstarfsemi með því að borða afurðir hennar. En þegar þar að kemur vonar Víkverji að ástandið á grænmetismarkaðnum verði breytt.
VÍKVERJI er þeirrar skoðunar að ekki hafi einasta verið okrað á neytendum, heldur hafi íslenzki grænmetishringurinn staðið sig afar illa í því að tryggja neytendum jafnt framboð á ýmsum vörum. Þetta á ekki sízt við um innflutta vöru, en þrátt fyrir ofurtollana eru nú engin opinber innflutningsbönn lengur á grænmeti. Víkverji hefur stundum hringt eða farið í nánast allar matvörukeðjurnar á höfuðborgarsvæðinu, auk sælkera- og blómabúða, til að leita að sjálfsögðum hráefnum á borð við ferskt spínat eða nýtt rósmarín. Oft hefur niðurstaðan orðið sú, að varan væri ekki til á landinu og þá hefur stundum þurft að breyta áformunum um kvöldmatinn. En einokunarhringir hafa auðvitað ekki frekar hvata til að tryggja gott úrval en hagstætt verð.