Sólveig Aðalsteinsdóttir, Án titils, viður, 1991. Listasafn Reykjavíkur.
Sólveig Aðalsteinsdóttir, Án titils, viður, 1991. Listasafn Reykjavíkur.
Opið virka daga frá 12-19, laugardaga og sunnudaga 12-16.30. Til 29. apríl. Aðgangur ókeypis.

ÞAÐ er góð en ekki óumdeilanleg aðferð, að láta þekktar persónur utan sjálfs listgeirans velja nokkra myndlistarmenn sem hafa öðrum fremur skarað leið þeirra. Svona líkt og að taka listáhugamenn tali á sýningum og spyrja þá álits á verkunum, sem er nokkuð algengt erlendis og tíðkaðist hér í einhverjum mæli í eina tíð. Sums staðar eru slíkir jafnvel beðnir um að mæla með sýningum sem standa yfir og er liður í upplýsandi skoðunum á markverðum viðburðum á vettvanginum. Listir eru enda ekkert einkamál iðkendanna, né þeirra sem ráðnir eru til að fjalla um þær opinberlega.

Menningarmiðstöðin í Gerðubergi, hefur haldið nokkrar sýningar undir kjörorðinu, Þetta vil ég sjá, sem nokkra athygli hafa vakið og sýnist sitt hverjum. Verð að viðurkenna að ég hef ekki náð að sjá þær allar, bæði er Gerðuberg nokkuð úrleiðis, en einnig fyrir yfirgengilegt flóð smásýninga á menningarborgarári, hins vegar hafa umfjallanir um þær ekki farið framhjá mér og myndverkin sem til sýnis hafa verið yfirleitt gamalkunn.

Og með nokkrum undantekningum, gerist það heldur betur, sem skáldið Sjón tók að sér að sanka á staðinn undir þemanafninu Drasl. Gæti talist nokkuð misvísandi, en þó engan veginn í sama mæli og sýningin, Sófamálverkið, en undir þeim hatti líður fæstum skapandi listamönnum vel. Drasl er til muna almennara og víðfeðmara hugtak, því það sem einum getur þótt yfirmáta fallegt getur öðrum þótt á hinn veginn, úreltur hryllingur. Nefni hér einungis landlægt mat almennings á gömlum húsum hér áður fyrr, þegar steinsteyptir kassar hagnýtistefnunnar voru í móð. Fólk lét jafnvel forskala gegnheil bárujárnshús til að vera með í stjórnlausu nýjungaæði nýfrjálsrar en óþroskaðrar þjóðar.

Aðfengnir hlutir, sem þjóna ekki lengur almennu notagildi og þarafleiðandi vikið til hliðar, hugmyndaríkur listamaður tekur til handargagns og upphefur, öðlast að sjálfsögðu nýtt gildi. Á einnig við fátæklega fjöldaframleiðslu og hnoð hvers konar, sem ber alþjóðlega heitið; kitsch. Hér hefur ameríski myndlistamaðurinn Jeff Koons, gengið hvað lengst með því að stækka hundraðfalt ódýr leikföng, sem sjá má í hverri leikfangabúð. Handan Atlantshafsins hafa verk hans þegar rofið milljón dollara múrinn á uppboðum og blasa að auk við gestum á flestum mikilsháttar núlistasöfnum heimsins. Hjá Koons er hugsunin að baki þó andhverfa megininntaksins í list upphafsmannanna Picassos og Braques, sem mótuðu yfirvegaða og ljóðræna heild í samsettum málverkum sínum, hvar þeir notuðust við pappa, kassafjalir, ódýran striga og snæri auk þess að blanda mold og sandi í olíulitinn. Þetta var þó að mestu gert á afmörkuðu skeiði á ferli þeirra, aðallega kúbismatímabilinu, hins vegar bættu dadaistarnir og súrrealistarnir um betur og víkkuðu hugtakið til margra átta.

Annars ber athöfnin mörg fagnöfn með skyldum sem óskyldum tilvísunum, svo sem; Akkumlation, Arte povera, Moyens pauvres, Assemblage, Collage, Décollage, Fallenbild, Fluxus, Kontra-relief, Materilabild, Objet trouve, Mixed Media, Papier collé, Reday-made. Sum fagheitin skara að vísu rétt hugtakið og iðulega nota menn samheitið ný-dada, til að mynda varðandi tilkomumikil draslverk hins nafnkennda Roberts Rauschenberg.

Á stundum er ekki um neina upphafningu að ræða, heldur afgangshluti og úrgang eins og þesslags leggur sig, en öll rotnun ber í sér vissa fegurð ef að er gáð, í senn form- og sjónræna, um það hafa menn verið meðvitaðir frá örófi alda. Mun oftar eru listamennirnar þó að móta eitthvað nýtt og óvænt úr aflögðum hlutum og ónýtu drasli, eða mála blæbrigðarík málverk. Iðulega er mikil hugmyndafræði að baki verkanna, jafnt í heimspeki sem skáldskap, en á stundum er það einungis skírskotunin til hins liðna og sagan er þau afhjúpa sem heillar listamanninn og hvetur til skapandi athafna. Í báðum tilvikum jafngilt, árangurinn hefur sem jafnan lokaorðið.

Það er mikil blanda sem Sjón hefur sett saman, skáldið hefur jafnt leitað til upphafsmannanna hérlendis sem hins ferskasta á vettvanginnum, svo sem myndbandsverks, þar sem hluturinn er ekki drasl, heldur sjálf athöfnin, útþæld klisja, ögrar þó jafnaðarlega eins og öskur villidýrsins.

Myndverkin koma afar misvel út í rýminu, sem er hvorki sveigjanlegt né fallið til myndlistarsýninga af neinu tagi og svo hafa veggir líka verið teknir til annars brúks, sem ber þó engan veginn að lasta.

Veigurinn í framníngnum er, er að Sjón hefur óhikað komið skoðunum sínum á framfæri, mati sínu á þessari ákveðnu hlið íslenzkrar myndlistar.

Bragi Ásgeirsson