SAMKEPPNI á skrifstofuvörumarkaði virðist vera að harðna. Griffill, sem er í eigu Pennans, og Tæknival, með hina nýju verslun Office 1, sem var opnuð síðastliðinn laugardag, hafa beint spjótum að hvor öðrum í auglýsingum að undanförnu.

SAMKEPPNI á skrifstofuvörumarkaði virðist vera að harðna. Griffill, sem er í eigu Pennans, og Tæknival, með hina nýju verslun Office 1, sem var opnuð síðastliðinn laugardag, hafa beint spjótum að hvor öðrum í auglýsingum að undanförnu. Á heimasíðu Tæknivals í gær var Penninn svo meðal annars sakaður um að reyna markvisst að drepa af sér keppinauta og hamla frjálsri samkeppni jafnframt því að beita blekkingum í auglýsingum.

Samkvæmt upplýsingum frá Samkeppnisstofnun hefur erindi borist til stofnunarinnar þar sem kvartað er undan auglýsingum Griffils. Málið er í meðferð Samkeppnisstofnunar sem hefur óskað eftir sjónarmiðum Griffils.

Siðleysi í viðskiptum

Orðaskipti fyrirtækjanna hófust með dagblaðaauglýsingu Griffils síðastliðinn þriðjudag. Þar var borið saman verð á svipuðum vörum í Griffli annars vegar og hjá Office 1 hins vegar og sagt að vörur Griffils væru ódýrari. Tæknival svaraði fyrir sig með dagblaðaauglýsingu í gær. Í henni var fullyrt að raunverulegt verð þeirra skrifstofuvara, sem sagt hafi verið í auglýsingu Griffils að væru ódýrari en hjá Office 1, hafi verið hærra degi áður en auglýsingin var birt. Jafnframt var sagt um Pennann í auglýsingu Tæknivals eftirfarandi: "Það er skiljanlegt að fyrirtæki sem hefur einokað markaðinn um áraraðir reyni að berja frá sér þegar öflugur samkeppnisaðili skýtur upp kollinum."

Á heimasíðu Tæknivals á Netinu er umfjöllun um samkeppni Pennans og Tæknivals undir fyrirsögninni "Siðleysi í viðskiptum." Þar segir meðal annars að það sé víðar en á grænmetismarkaði sem fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu beiti ósvífnum aðferðum og óvönduðum meðulum, ekki þurfi annað en að skoða auglýsingar Pennans undir nafni Griffils síðustu dagana, bæði í dagblöðum og sjónvarpi, "til að sjá hvað viðskiptasiðferðið er á lágu stigi," eins og segir á heimasíðunni.

Verða að vinna eftir settum reglum

Árni Sigfússon, framkvæmdastjóri Tæknivals, segir að þegar fyrir hafi legið að Office 1-stórmarkaðurinn kæmi hingað til lands hafi sá aðili sem hafi haft sterkasta stöðu á skrifstofuvörumarkaðinum brugðist við með kaupum á Griffli. "Sá aðili hóf skæruhernað á Office 1 en varð fyrir því óhappi að gleyma að breyta verði á netsíðum. Við höfum hins vegar ekki hugsað okkur að standa í þessum hernaði en erum undirbúin styrjöld. Full ástæða er fyrir þann aðila, sem hefur nánast einokað markaðinn, að búa sig undir þetta. Hins vegar verður hann að gera það eftir settum reglum," segir Árni.

Gott viðskiptasiðferði að bjóða lægsta verðið

Jóhann Ingi Krisjánsson, framkvæmdastjóri Griffils, segist ætla að vera ódýrastur og ef hann þurfi að skoða verð hjá samkeppninni tíu sinnum á dag og lækka verðið í Griffli í hvert einasta skipti þá muni hann gera það. Honum hafi tekist að vera með lægsta verðið frá upphafi eins og allir viti og allar verðkannanir hafi sýnt. "Ég er með sérstakan verðkönnunarbíl til að fylgjast með samkeppninni og ég býð öllum mínum viðskiptavinum upp á 100% verðvernd á öllum vörum sem þeir kaupa. Ef þessi alþjóðlega keðja er orðin svo vön því að valta yfir alla samkeppni á þeim mörkuðum sem hún fer inn á, að hún þolir ekki smá mótspyrnu, þá verða þeir bara að eiga það við sig. Eina viðskiptasiðferðið á lágu stigi hér er þessi óhróður sem eigendur Tæknivals eru að bera út um Griffil."

Jóhann Ingi segir að samkeppni gangi út á að bjóða viðskiptavinum góðar vörur á hagstæðu verði. Þetta sé hins vegar ekki fyrsta verðstríðið sem hann taki þátt í enda hafi Griffill ávallt verið með lægsta verðið á skrifstofuvörum í gegnum árin. "Það er vegna þess að við erum með hnitmiðað vöruúrval, litla yfirbyggingu og viðskiptavinir okkar þekkja okkur af engu öðru en heiðarlegum viðskiptaháttum."

Málflutningur Tæknivals dæmir sig sjálfur

Ingimar Jónsson, framkvæmdastjóri Pennans, segist líta málflutning Tæknivals, þar sem Penninn er ásakaður um siðlausa viðskiptahætti í auglýsingu fyrirtækisins í gær og á heimasíðu þess, mjög alvarlegum augum. Skoðað verði hvernig brugðist verði við þeim. "Mér finnst svona málflutningur dæma sig sjálfur og vera kominn út fyrir allt sem heitir samkeppni og verðstríð. Enda á Penninn ekki aðild að stríði Office 1 og Griffils. Hins vegar er þetta ekkert nýtt hjá Tæknivali. Þeir hafa talað svona um Pennann alveg síðan þeir ákváðu samstarf við Office 1."