Í UMBOÐI fjármálaráðherra f.h. ríkisstjórnarinnar starfar svokölluð Þjóðlendunefnd, verkefni hennar er að lýsa kröfum um mörk þjóðlendna, þeim kröfum skilar hún til óbyggðanefndar sem úrskurðar um þær. Þeim úrskurði er heimilt að áfrýja til Héraðsdóms og áfram til Hæstaréttar. Látum því ekki stóryrði og brigsl nokkurra talsmanna landakröfumanna spilla framkvæmd þjóðlendulaganna en sá vaðall sýnir glöggt heimildaskort þeirra og rökþrot. Gefum því fólki vinnufrið sem hefur verið falið það verkefni að vinna skv. marktækum heimildum að framgangi þeirra laga. Þau störf eru örugglega unnin af ítrustu nákvæmni og samviskusemi og í þeim störfum farið að öllum viðeigandi lögum. Það er flestum kunnugt að kröfur í málum eru ekki alltaf það sem verður endanleg niðurstaða þeirra. Á meðan beðið er fyrsta úrskurðar óbyggðanefndar, geta þeir sem vilja, velt fyrir sér eftirfarandi orðum úr Jónsbók, lögbók samþykkt á Alþingi árið 1281.
Tilv: ,,En svá skal þann eið sverja at þat hefir ek heyrt, at þar skilur mark á meðal eignar bónda og almennings eða afréttar."
Það er einmitt verkefni óbyggðanefndar skv. þjóðlendulögunum að staðfesta mörkin milli einka eignarlanda og þjóðlendna (almenninga, afrétta) eftir bestu heimildum. Löngu tímabært verk.
Skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er afréttur Flóahreppa í almenningum, almenningsafréttum fyrir ofan Eystri-Hrepp (Gnúpverjahrepp). Engir geðþóttagerningar lögmanna, biskupa eða annarra, geta breytt almenningum, afréttum eða öðrum landsvæðum utan einkaeignarlanda í einkaeignarlönd hvorki þar né annars staðar í Árnessýslu eða öðrum sýslum og skiptir í því sambandi engu máli hversu góðir og gegnir þeir menn eru sagðir í þjóðarsögunni og hvort einhverjum hafi tekist að þinglýsa landamerkjum jarða skv. þeim bábiljugerningum. Þeir gerningar voru sem og margir aðrir til þess ætlaðir að styrkja grundvöllinn fyrir skattaáþján leiguliða, eins og margir dómar sýna.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín geymir ýmsar frásagnir af valdníðslu og yfirgangi valdsmanna, bæði konungsþjóna og kirkju.
Margir aðrir Íslendingar hafa gert þeim aldalanga yfirgangi ítarleg skil í ótöldum bókum. Um aldir voru flestar jarðir í Biskupstungum eign biskupsstólsins í Skálholti og því hæg heimatökin við alla ,,heimilda"-gerð.
Þegar mest var átti kirkjan um helming allra jarða á Íslandi og hafði af þeim gríðarlegar tekjur. Getum við núlifandi Íslendingar sem búum í réttarríki, rökstutt kröfur um einkaeignarlönd með stuðningi við gamla valdníðslugerninga?
Á 21. öldinni ætti engum að takast að fá viðurkenningu íslenskra dómstóla á kröfum sem byggðar eru á þeim gerningum og þannig takist einhverjum að hrifsa það sem skv. fornum lögum er þjóðareign, hálendi Íslands.
Ekki hefur lengi verið betur minnst setningar Alþingis á Þingvöllum og upphafs vorra laga, en með því að staðfesta þá eign íslensku þjóðarinnar með lögum frá Alþingi, staðfestum af forseta Íslands, þjóðlendulögunum.
Höfundur er vélfræðingur.