FYRIR liggur í borgarráði Reykjavíkur og hjá bæjarráðum Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness og Bessastaðahrepps tillaga um stofnun nýs fyrirtækis, Strætó bs., sem ætlað er að sjá um almenningssamgöngur á svæðinu.

FYRIR liggur í borgarráði Reykjavíkur og hjá bæjarráðum Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness og Bessastaðahrepps tillaga um stofnun nýs fyrirtækis, Strætó bs., sem ætlað er að sjá um almenningssamgöngur á svæðinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sagðist á blaðamannafundi í gær gera ráð fyrir að tillagan yrði samþykkt á næstunni og þá myndi nýja fyrirtækið hefja starfsemi 1. júlí nk.

Tillagan felur í sér að Strætó taki yfir allan núverandi rekstur Strætisvagna Reykjavíkur og Almenningsvagna bs. Bæjarfélögin segja að markmiðið sé að bæta þjónustu og auka hagkvæmni en ljóst sé að almenningssamgöngur á svæðinu hafi lengi átt í vök að verjast og þurft að mæta fækkun á farþegum og auknum tilkostnaði.

Auk þessa eru sveitarfélögin að vinna að hugmyndum um að sameina þær tvær almannavarnarnefndir sem eru á höfuðborgarsvæðinu.

Samræmd gjaldskrá

Gert er ráð fyrir 8% hækkun fargjalda og að ný og samræmd gjaldskrá á öllu höfuðborgarsvæðinu taki gildi 1. júlí nk. Þá eru einnig uppi hugmyndir um að taka upp rafrænt greiðslukerfi með svonefndum smartkortum sem myndu þá einnig gilda í sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu. Þá verður samræmt útlit á strætisvögnunum og sams konar biðskýli og eru í Reykjavík.

Fyrsta verkefni stjórnar Strætó bs. verður að endurskoða leiðakerfið og er gert ráð fyrir að því verði lokið á tveimur árum. Ekki er unnt að framkvæma verkið á styttri tíma þar sem það er gríðarlega umfangsmikið, kallar á nýjar skiptistöðvar og hugsanlega breytingu á gatnakerfi, að því er kom fram á blaðamannafundinum.

Ekki lögbundið hlutverk sveitarfélaganna

Sigurður Geirdal, bæjarstjóri Kópavogs, benti á að það væri ekki lögbundið hlutverk sveitarfélaganna að reka almenningssamgöngur, að sveitarfélögin fengju ekki styrk frá ríkinu til þess verkefnis heldur greiddu skatta af rekstrinum til ríkissjóðs. Ingibjörg Sólrún sagði að nýja fyrirtækinu væri ætlað að vera sameiginlegt afl höfuðborgarsvæðisins í viðræðum við ríkisvaldið með hvaða hætti það komi að almenningssamgöngum á svæðinu en eins og er kemur ríkisvaldið ekkert að því máli. Hún sagði enn fremur að ríkissjóður fengi 150-200 milljónir króna á ári vegna almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu gegnum ýmis gjöld og skatta.

Þar kom einnig fram að starfsfólk SVR og AV myndi ekki missa vinnuna vegna breytinganna. Þá hafa sveitarfélögin lýst yfir vilja til þess að strætisvögnum verði veittur forgangur í umferðinni.

Reykjavíkurborg á 63,68% í Strætó bs.

Reykjavíkurborg á 63,68% hlut í byggðasamlaginu Strætó, Kópavogsbær 13,46%, Hafnarfjarðarbær 11,23%, Garðabær 4,60%, Mosfellsbær 3,49% Seltjarnarneskaupstaður 2,66% og Bessastaðahreppur 0,88%. Eignarhlutföllin eru grundvölluð á íbúafjölda 1. desember sl. Nýja fyrirtækið kaupir bifreiðaflota SVR af Reykjavíkurborg á bókfærðu verði, 308,4 milljónir króna.

Strætó bs. mun yfirtaka réttindi og skyldur samkvæmt samningi um tilraunaverkefni um notkun vetnisknúinna strætisvagna.