Þröstur Óskarsson og Kristján Erlendsson undirrita samninginn.
Þröstur Óskarsson og Kristján Erlendsson undirrita samninginn.
SAMNINGUR um samstarf milli Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ (HÍ) og Íslenskrar erfðagreiningar ehf. (ÍE) var undirritaður á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði eftir hádegið í dag.

SAMNINGUR um samstarf milli Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ (HÍ) og Íslenskrar erfðagreiningar ehf. (ÍE) var undirritaður á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði eftir hádegið í dag. Samningurinn er hliðstæður mörgum öðrum sem ÍE hefur gert við heilbrigðisstofnanir víða um land. Að auki var undirrituð viljayfirlýsing um frekara samstarf.

Samningurinn heitir fullu nafni:

"Samningur um vinnslu heilsufarsupplýsinga og flutning þeirra í gagnagrunn á heilbrigðissviði." Athygli vekur, að hann er dagsettur "Reykjavík" 5. apríl 2001. Rætur þess má væntanlega rekja til þess, að til stóð að samningurinn yrði undirritaður syðra í síðustu viku. Þær ráðagerðir breyttust hins vegar "af óviðráðanlegum ástæðum". Af hálfu HÍ undirritaði Þröstur Óskarsson framkvæmdastjóri samninginn en ekki stjórnarformaðurinn Magdalena Sigurðardóttir.

Stjórnarformaður vildi ekki skrifa undir samninginn

Á stjórnarfundi um hádegið í gær lagði Magdalena fram yfirlýsingu, þar sem segir m.a.:

"Upplýsingar sem sjúklingur gefur lækni sínum eru gefnar í þeirri góðu trú, að leynt muni fara. Þann trúnað getur enginn rofið nema viðkomandi einstaklingur sjálfur. Í ljósi þess ætti, að mínu áliti, enginn að hafa vald til að ráðstafa upplýsingum úr sjúkraskrám án skriflegs samþykkis viðkomandi sjúklings. Að mínum dómi er þetta grundvallaratriði.

Samvisku minnar vegna get ég ekki brugðist því trausti, sem ég tel nauðsynlegt að sjúklingar beri til Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ með því að undirrita fyrir hennar hönd fyrirliggjandi samning við Íslenska erfðagreiningu um flutning heilsufarsupplýsinga úr sjúkraskrám stofnunarinnar.

Ljóst er, að meirihluti stjórnar Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ er á öndverðri skoðun í þessu máli. Þess vegna verður áðurnefndur samningur undirritaður, þrátt fyrir andstöðu mína. Framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ, Þröstur Óskarsson, mun því undirrita samninginn fyrir hönd stofnunarinnar."

Ísafirði. Morgunblaðið.