BÆJARRÁÐ Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær samkomulag við Valgerði H. Bjarnadóttur sem gegndi stöðu jafnréttis- og fræðslufulltrúa Akureyrarbæjar frá því í ágúst 1991 til loka júlí 1995.

BÆJARRÁÐ Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær samkomulag við Valgerði H. Bjarnadóttur sem gegndi stöðu jafnréttis- og fræðslufulltrúa Akureyrarbæjar frá því í ágúst 1991 til loka júlí 1995. Í samkomulaginu felst að Akureyrarbær greiðir Valgerði tvær milljónir króna í bætur án þess þó að í því felist viðurkenning á meintum lögbrotum bæjarins. Greiðslan felur í sér fullnaðaruppgjör á kröfu Valgerðar.

Kjör Valgerðar á þeim tíma er hún starfaði sem jafnréttis- og fræðslufulltrúi voru ákveðin á grundvelli kjarasamnings Starfsmannafélags Akureyrarbæjar, STAK. Valgerður taldi líkur á að hún hefði átt rétt á sömu launum og avinnumálafulltrúi, sem tók laun samkvæmt kjarasamningi verk- og tæknifræðinga, og vísaði hún í því sambandi til niðurstöðu Hæstaréttardóms varðandi eftirmann sinn í starfi, Ragnhildar Vigfúsdóttur. Í dóminum kemur fram að munur á launum og starfskjörum jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa væri andstæður lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Áður hafði Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmt bæinn til að greiða Ragnhildi bætur vegna mismunar á launakjörum milli þessara tveggja starfa.

Akureyrarbær telur hins vegar að launaákvarðanir hafi verið teknar óháð kynferði starfsmanna og að starf atvinnumálafulltrúa hafi hvorki verið sambærilegt né jafnverðmætt starfi jafnréttis- og fræðslufulltrúa og telja forsvarsmenn bæjarins því að líkur séu fyrir því að hann hafi ekki brotið ákvæði jafnréttislaga þegar laun Valgerðar voru ákveðin.

Forsvarsmenn Akureyrarbæjar og Valgerður töldu hagfellt að gera samkomulag um lyktir málsins og eru þær sem að ofan greinir, bærinn greiðir Valgerði 2 milljónir í bætur án þess að í því felist viðurkenning á meintum lögbrotum. Við efndir samkomulagsins lýsa báðir aðilar þess yfir að hvorugur eigi kröfu á hinn vegna þess tíma er Valgerður gegndi starfi jafnréttis- og fræðslufulltrúa hjá Akureyrarbæ.

Á sama fundi bæjarráðs var samþykkt að una dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli sem Ingibjörg Eyfells, fyrrverandi deildarstjóri leikskóladeildar, höfðaði á hendur honum, en hann féll í lok febrúar.

Bærinn var dæmdur til að greiða Ingibjörgu um 1,8 milljónir króna auk dráttarvaxta frá júní í fyrra vegna mismunar í launakjörum sem og 500 þúsund krónur í málskostnað m.a. vegna reksturs málsins fyrir kærunefnd jafnréttismála.