LEIKHÚSIÐ er ólíkt öllum öðrum húsum sem menn ganga til. Í leikhúsinu upplifum við það sem aðrir hafa lifað, sjáum verk skálda birtast okkur og tökum þátt í lífinu á sviðinu eina hádegisstund eða oftast kvöldstund. Stundum finnum við til með sögupersónum, hörmum örlög lítilmagnans eða gleðjumst yfir óförum óþokkanna. Við getum hrifist af andagiftinni, dáðst að dirfskunni eða hlegið okkur máttlaus af fíflskunni. Umfram allt óskar maður þess að sá sem leikhús sækir hafi af því gaman og vilji koma þangað aftur og aftur. Leikfélag Íslands gerði kjörorðin "skemmtilegt leikhús" að yfirskrift til að leggja áherslu á stefnu okkar og vilja, að umfram allt skemmti leikhúsgestir sér í leikhúsinu okkar svo að þeir komi aftur og aftur. Það er augljóst. Það sem er ekki eins augljóst er sú staðreynd að Leikfélag Íslands byggir afkomu sína nær eingöngu á aðsókn. Þannig greinir rekstur Leikfélags Íslands sig frá rekstri Þjóðleikhúss og Borgarleikhúss. Tekjurnar frá áhorfendunum eru lífæð félagsins og mynda u.þ.b. 80% af tekjustreymi félagsins, 15% koma frá atvinnulífinu í formi styrkja, auglýsinga og kostunarsamninga og 5% koma frá ríki og borg í formi styrkja sem má skipta í tvennt, niðurfellingu á leigu fyrir menningarhluta Iðnó og beina styrki. Það segir sig sjálft að ekkert má út af bera til að endar nái saman með þessu fyrirkomulagi, því ef ein sýning nær ekki settu markmiði er hagnaður af næstu sýningum horfinn til að vega upp tapið af þeirri sem gekk miður. Þarna komum við að kjarna áhættunnar í rekstri allra leikhúsa. Enginn veit fyrirfram hvort sýning nær vinsældum og þar af leiðandi hvort hún stendur undir sér eða ekki. Leikhúsrekstur felur í sér mikla áhættu og kemur líklega engum á óvart. Engu að síður er leikhúsmenning í bland við aðra menningarstarfsemi órjúfanlegur þáttur í öllum nútímalegum menningarsamfélögum. Það er markviss stefna yfirvalda að styðja menningarstarf og kemur ugglaust til af vilja þjóðarinnar til að slík starfsemi þrífist og hinu að rekstur slíkrar starfsemi er áhættusamur eða einfaldlega ber sig ekki. Það er svo margt í lífinu sem ekki verður talið í krónum og aurum og þannig er mönnum tamt að horfa á menninguna. Hins vegar þegar menn leggja sig niður við að telja krónurnar sem hið opinbera innheimtir í formi virðisauka af seldum bókum rithöfunda, geisladiskum tónlistarmanna, aðkeyptri þjónustu leikhúsanna og kvikmyndagerðarinnar kemur í ljós að skatttekjur af menningarstarfsemi eru hærri en styrkirnir sem veittir eru til hennar. Þannig er það bæði skynsamlegt og fullkomlega réttlætanlegt að veita opinbert fé til menningarstarfsemi af öllu tagi og þar með til leiklistar en úthlutunin þarf að vera sanngjörn. Leikfélag Íslands hefur, meðal margra annarra, vakið á því athygli að nauðsynlegt sé að endurskoða styrki til leiklistar í landinu. Bent hefur verið á að núverandi fyrirkomulag a) sé ekki í takt við breytta tíma, b) taki ekki mið af árangri og c) dragi úr samkeppni í stað þess að efla hana. Það er rétt að útlista röksemdirnar frekar.
a) Ríkið hefur frá fyrstu tíð stutt vel við flaggskip íslenskrar leiklistar, Þjóðleikhúsið, og sömuleiðis hefur Reykjavíkurborg stutt vel við starfsemi Leikfélags Reykjavíkur. Það er vel enda má segja að með þeim stuðningi hafi ríki og borg tekið þátt í fæðingu atvinnuleiklistar á Íslandi. En svo ég haldi áfram með líkinguna, þá er barnið löngu fætt, hætt að skríða og hleypur núna um sem frjálslegur unglingur. Íslensk leiklist er ekki lengur í tveimur leikhúsum, langt í frá. Leiklistin hefur fundið sér farveg í útvarpi, kvikmyndum, sjónvarpi, hljóðsetningu, auglýsingum og síðast en ekki síst hafa komið fram sjálfstæð leikhús. Með tilkomu sjálfstæðu leikhúsanna hefur leikhúslíf á síðastliðnum árum gjörbreyst. Þau hafa laðað að sér nýja áhorfendahópa, einkum af yngri kynslóðinni. Þau hafa sýnt fram á að geta framleitt metnaðarfullar sýningar. Þau frumsýna fleiri leikverk en Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið til samans og fá jafnmarga ef ekki fleiri áhorfendur á sýningar sínar. Þrátt fyrir þessar miklu breytingar sem hafa orðið í leikhúslífinu með tilkomu þeirra hefur úthlutun styrkja til leiklistar nær haldist óbreytt. Opinberu leikhúsin hafa haldið sínu og er það vel en það hefur láðst að koma til móts við sjálfstæðu leikhúsin og tryggja þeim viðunandi rekstraröryggi.
b) Á síðastliðnum árum hafa að jafnaði um 200.000 áhorfendur sótt leiksýningar sjálfstæðu leikhúsanna árlega en nokkru færri sótt sýningar Þjóðleikhúss og Borgarleikhúss. Opinberu leikhúsin tvö, Þjóðleikhús og Borgarleikhús, fá samtals um 600 milljónir í styrk frá ríki og borg fyrir utan frítt húsnæði en sjálfstæðu leikhúsin fá samtals um 50 milljónir í styrk frá sömu aðilum. Það má leika sér með þessar tölur á alla vegu en kjarni málsins er þessi: Sjálfstæðu leikhúsin hafa með krafti sínum og áræði gjörbreytt íslensku leikhúsi og áhorfendur hafa tekið þeim fagnandi. Það er ljóst að áhorfendur vilja að starfsemi þeirra þrífist með opinberu leikhúsunum. Leikfélag Íslands, sem er stærst sjálfstæðu leikhúsanna, hefur á undanförnum árum staðið fyrir mörgum vel heppnuðum söngleikjum, t.d. Hárinu, Rocky Horror og Stonefree. Leikfélag Íslands hefur verið ötult við að frumsýna fyrstu verk margra frábærra íslenskra höfunda, t.d. Fjögur hjörtu og Sniglaveisluna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, Í beinni útsendingu eftir Þorvald Þorsteinsson, Leitum að ungri stúlku eftir Kristján Þórð Hrafnsson, Trúðleik eftir Hallgrím H. Helgason, Þúsundeyjasósuna eftir Hallgrím Helgason og Leiki eftir Bjarna Bjarnason. Leikfélag Íslands innleiddi nýjungar á borð við Leikhússport og kom hádegisleikhúsi á fasta dagskrá. Að lokum er vert að geta vinsælustu verka félagsins sem sum hver ganga enn fyrir fullu húsi; Á sama tíma að ári, Á sama tíma síðar, Rommí og Sjeikspír eins og hann leggur sig. Þá eru ótaldar metnaðarfullar sýningar eins og rússneska nútímaverkið Stjörnur á morgunhimni og margvísleg samstarfsverkefni allt frá Latabæ til Medeu. Metnaðarfullt, framsækið og fjölbreytt leikhús er aðal Leikfélags Íslands og verður dagskrá þess og umfang helst borið saman við Þjóðleikhús og Borgarleikhús. Í þeim samanburði er þó einn augljós munur. Á síðasta ári hlaut Leikfélag Íslands sinn stærsta opinbera styrk fram til þessa, alls 5 milljónir eða tæplega 1% af því styrktarfé sem stofnanaleikhúsin hlutu. c) Það ber einnig að hafa það í huga að núverandi fyrirkomulag er ekki hollt samkeppni sem þarf að þrífast á leikhúsmarkaðnum eins og annars staðar. Mesta hættan er á undirboðum, einkum á útleigum og verði aðgöngumiða. Nú er ekki verið að mæla á móti lágu aðgöngumiðaverði í leikhús heldur benda á ójafnar leikreglur á milli opinberra leikhúsa og sjálfstæðra. Það er vafasamt að opinber leikhús nýti styrktarfé til að bjóða aðgöngumiða langt undir markaðsverði. Það er andstætt reglum um jafnræði í samkeppni. Um leið er höggvið grimmilega í stærsta tekjustofn sjálfstæðu leikhúsanna sem reiða sig nær eingöngu á tekjur af seldum aðgöngumiðum. Í áliti Samkeppnisstofnunar, 2. grein frá 5. mars sl., er þetta ójafnræði staðfest og þeim tilmælum beint til yfirvalda að æskilegt sé að gæta að jafnræðissjónarmiðum við eflingu leiklistar og talið að "misræmi í opinberum stuðningi stríði gegn markmiðum samkeppnislaga". Hér hafa verið reifuð meginrök LÍ gegn núverandi úthlutun styrkja til leikstarfsemi. Margir aðilar hafa tekið í svipaðan streng með e.t.v. öðrum áherslum, sbr. Bandalag sjálfstæðu leikhúsanna (SL) og fleiri. Góðu heilli hafa þeir sem um þessi mál fjalla sýnt skilning á því að núverandi fyrirkomulag er ótækt. Tillaga Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) til menntamálaráðherra um hækkun á framlagi ríkis til sjálfstæðu leikhúsanna er virðingar- og þakkaverð. Menntamálaráðherra hefur tekið tillöguna til alvarlegrar skoðunar. Það er góðs viti enda hefur menntamálaráðherra ávallt verið hliðhollur sjálfstæðum leikhúsum. Reykjavíkurborg hefur, eins og áður sagði, stutt Leikfélag Reykjavíkur dyggilega í gegnum tíðina og beint háum styrkjum til þess félags. Í ljósi þess er ánægjulegt að borgarstjórn hafi einnig ákveðið að styrkja sjálfstæðu leikhúsin í Reykjavík. Framlagið, sem er fremur lágt en mun stighækka á næstu árum, er mjög lofsvert. Meginhlutverk yfirvalda, sem annast úthlutun styrkja til sviðslista, er að tryggja sanngirni í úthlutunum sínum. Hvað er þá sanngjarnt að sjálfstæð leikhús fái í sinn hlut? Miðað við kraftmikla starfsemi sjálfstæðu leikhúsanna teldist lágmark fjórðungur til þriðjungur þeirrar upphæðar sem stofnanaleikhúsin fá nokkuð sanngjarnt. Þannig væri yfirburðastaða stofnanaleikhúsanna áfram tryggð, ef það er markmið í sjálfu sér, og kraftmikil sjálfstæð leiklist gæti þrifist samhliða. Ef íslensk leiklist á að rísa upp með krafti, tign og glæsileik verður blómlegur jarðvegurinn umleikis eikartrén að dafna. Athyglin og umönnunin má ekki öll beinast að eikartrjánum því að þá er hætt við að allt annað líf deyi í skugga þeirra og jarðvegurinn skorpni. Nú er að koma vor og þá þarf að taka til í garðinum. Það er alveg ljóst hvar þarf að taka til hendinni.
Höfundur situr í stjórn Leikfélags Íslands.