STÚLKNASVEIT Melaskóla vann yfirburðasigur í stúlknaflokki á Íslandsmóti grunnskólasveita sem fram fór um síðustu helgi. Melaskóli vann allar skákir sínar, 12 að tölu. Hólabrekkuskóli lenti í öðru sæti með 6½ vinning. Hamarsskóli kom þar rétt á eftir með 5½ v. og Austurbæjarskóli varð í fjórða sæti. Sigursveit Melaskóla var þannig skipuð:
1. Hlín Önnudóttir
2. Hildur Hamíðsdóttir
3. Ingunn Jensdóttir
4. Dóra Sif Ingadóttir
vm. Ásgerður Snævarr
Það er ekki að efa að þessar stúlkur eiga framtíðina fyrir sér í skákinni ef þær halda áfram á þessari braut. Liðsstjóri Melaskóla var Arngrímur Gunnhallsson, sem hefur nú um árabil séð um skákþjálfun í skólanum. Sveitir skólans hafa verið afar sigursælar undir stjórn hans og á hann mikið lof skilið fyrir það mikla og óeigingjarna starf sem hann hefur innt af höndum við skákþjálfun barna og unglinga.
Sveit Hólabrekkuskóla, sem hlaut silfurverðlaunin, var skipuð þessum efnilegu stúlkum:
1. Elsa María Þorfinnsdóttir
2. Eyrún Heiðarsdóttir
3. Agnes Eir Magnúsdóttir
4. Iðunn Eva Magnúsdóttir
vm. Unnur Ósk Eggertsdóttir
Hólabrekkuskóli var um langt árabil stórveldi á skáksviðinu og ljóst er á frammistöðu þessarar stúlknasveitar að enn er hlúð að skákinni í skólanum.
Skákstjóri á mótinu var stórmeistarinn Helgi Ólafsson, skólastjóri Skákskóla Íslands.
Barna- og unglingastarf í skólum og taflfélögum hefur um árabil verið borið uppi af fáum einstaklingum, sem þó hafa sinnt sínu hlutverki af mikilli elju án þess að mikið hafi fyrir þeim farið. Þeir sem til þekkja vita hins vegar hversu mikil vinna liggur að baki árangri á þessu sviði - líklega meiri vinna en felst í nokkrum öðrum þætti skáklífsins hér á landi. Þrátt fyrir það er sjaldgæft að þeir sem mest og best vinna að barna- og unglingastarfi hljóti nokkra opinbera viðurkenningu fyrir störf sín. Það er kannski tímabært fyrir skákhreyfinguna að huga betur að þessum hógværu burðarásum skáklífsins. Einn öflugur einstaklingur getur nefnilega gert kraftaverk í þjálfun barna og unglinga eins og hefur sýnt sig á undanförnum árum.
Madonna metnaðarfull í skákinni
Það eru ekki eingöngu íslenskar skólastúlkur sem eru metnaðarfullar í skákinni. Söngkonan Madonna er vön því að vera í fyrsta sæti á vinsældalistunum og það vill hún einnig vera þegar hún sest við skákborðið. Þetta kann að koma ýmsum á óvart, því í huga sumra er fátt fjarlægara en glæst líf stórstjarnanna annars vegar og að sitja við skákborðið í þungum þönkum hins vegar. Eigi að síður er það staðreynd að Madonna teflir og hefur meira að segja orðið sér úti um skákþjálfara, því hún sættir sig ekki við neitt hálfkák í þessum efnum fremur en öðrum. Þess má reyndar geta að fleiri þekktar stjörnur tefla og sumar þeirra fara ekki í ferðalög öðruvísi en að hafa taflborðið með sér.Fyrir nokkru birtist í Sunday Times grein um þau hjónakorn Madonnu og Guy Ritchie. Þar kemur fram að Skotlandsmeistarinn Alan Norris hefur verið með þau skötuhjú í skákþjálfun, þótt Alan neiti að gefa nokkrar upplýsingar um það hvort þeirra standi sig betur í baráttunni á borðinu. Madonna veit hins vegar hvað hún syngur og ekki kæmi á óvart þótt innsæið brygðist henni ekki í skákinni fremur en tóneyrað þegar hún semur smellina sína. Í greininni segir að greinilega sé vaxandi áhugi á skák meðal þekktra tónlistarmanna og kvikmyndastjarna.
Ný rússnesk skákstjarna
Hin 16 ára gamla Alexandra Kosteniuk er einhver efnilegasta skákkona Rússlands um þessar mundir. Hún er með yfir 2.400 skákstig, er stórmeistari kvenna og alþjóðlegur skákmeistari. Evgeny Bebchuk, skólastjóri Skákskóla Moskvu, fjallaði nýlega um þessa hæfileikaríku stúlku á vefsíðu FIDE, alþjóðlega skáksambandsins. Fyrir utan mikla skákhæfileika hefur hún staðið sig vel í námi og nýtur dyggrar aðstoðar fjölskyldu sinnar bæði í skákinni og náminu. Evgeny rifjar upp fyrstu kynni sín af Alexöndru við skákborðið, en þá var hún tólf ára gömul. Þau tefldu hraðskák og þótt umhugsunartíminn væri stuttur náði Alexandra að finna endurbót á taflmennsku fléttumeistarans Rudolfs Spielman í skák sem hann hafði teflt þremur aldarfjórðungum fyrr. Munurinn var sá að Spielmann hafði hugsað sig um í 25 mínútur, en það tók Alexöndru innan við tvær mínútur að finna endurbótina. Það er greinilegt að Evgeny bindur miklar vonir við framtíð Alexöndru í skákinni.Daði Örn Jónsson