Valdimar Valdimarsson fæddist 10. janúar 1948 á Bárugötu 16 í Reykjavík. Hann lézt á heimili sínu, Aðallandi 6, 27. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Valdimar Guðmundsson skipstjóri, f. 18.11. 1913, d. 20.5. 1990, og Jóhanna Eyjólfsdóttir húsmóðir, f. 3.10. 1915, d. 9.12. 1984. Systkini Valdimars eru Eyjólfur, f. 23.12. 1949, og Helga, f. 2.5. 1951.

Hinn 10. október 1975 kvæntist Valdimar Þorgerði Einarsdóttur, f. 15.2. 1953. Foreldrar hennar voru Einar Marinó Guðmundsson bílstjóri, f. 3.12. 1925, d. 27.1. 1998, og Vilborg Ása Vilmundardóttir húsmóðir, f. 31.8. 1930, d. 15.3. 2000. Börn þeirra eru Valgeir, f. 14.1. 1972, Valdimar Þór, f. 9.8. 1975, og Sigrún Svava, f. 12.9. 1981.

Útför Valdimars fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30

Eitt sinn verða allir menn að deyja eftir bjartan daginn kemur nótt. Ég harma það, en samt ég verð að segja að sumarið líður allt of fljótt. (Vilhjálmur Vilhjálmsson.)

Mig langar til að minnast Valdimars Valdimarssonar, eða Valda eins og ég kallaði hann alltaf frá því ég sá hann fyrst, í nokkrum orðum. Á lífsleiðinni verða margir á vegi okkar sem við höfum kynni af. Sumum kynnumst við í barnæsku sem við glötum öllum tengslum við þegar við vöxum úr grasi, önnur kynni haldast fram á fullorðinsár en þannig voru kynni mín af Valda þó svo þau hafi verið með hléum.

Ég sá Valda fyrst þegar ég var fjögurra ára gamall. Þá var Valdi í heimsókn hjá frænku sinni á Framnesveginum en ég bjó þá beint á móti frænku hans. Þar sem við bjuggum í sama hverfi lágu leiðir okkar oft saman í leik og strákapörum þar til ég varð sex ára og flutti úr Vesturbænum.

Þegar við vorum um tvítugt hittumst við á nýjan leik en þá hóf hann störf hjá Olíuverslun Íslands en þá hafði ég unnið þar í nokkur ár. Þau ár sem við unnum saman fórum við meðal annars í veiðitúra í Veiðivötn en þeim ferðum gleymi ég seint. En samskiptin áttu eftir að verða meiri og mun nánari.

Þannig vildi til að kona mín og Gerða, kona Valda, þekktust vel þegar þau Gerða og Valdi kynntust. Í gegnum konurnar hittumst við því á nýjan leik og áttum við hjónin margar ánægjustundir með Valda og Gerðu sem og fjölskyldu hennar. Þar ber hæst öll þau skipti sem við hittumst í Grundargerðinu eða á þeim árum sem við fórum saman í leikhús og/eða út að borða. Á síðasta ári vorum við samferða til Egyptalands þar sem við áttum ánægjulega viku saman og munu minningarnar úr þeirri ferð ásamt öllum hinum minningunum, sem við höfum safnað í gegnum árin, verða vel varðveittar.

Hvert eitt líf á sér upphaf og endi.

Hvorugt verður fyrirséð með vissu.

Stundum er upphafs beðið í eftirvæntingu,

í annan tíma brestur það á,

sama má segja um endalokin.

Þau kunna að liggja í loftinu,

en koma samt ætíð að óvörum.

Elsku Gerða, Valgeir, Valdimar og Sigrún, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Valda.

Hilmar og Fanney.

Í dag er til moldar borinn starfsfélagi okkar, Valdimar Valdimarsson.

Valdimar hafði að undanförnu barist af hörku gegn sjúkdómi þeim sem að lokum hafði betur.

Við sem eftir lifum þökkum Valdimar fyrir árin hjá Stillingu, jafnt í leik og starfi.

Eitt sinn verða allir menn að deyja

eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það, en samt ég verð að segja

að sumarið líður allt of fljótt.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson.)

Gerðu og börnum vottum við okkar dýpstu samúð.

Starfsfólk Stillingar hf.

Valdimar Valdimarsson hóf störf hjá Stillingu hf. árið 1993 og starfaði þar óslitið þar til í febrúar síðastliðinn. Í fyrra greindist hann með illvígan sjúkdóm er að lokum lagði hann að velli eftir langa og erfiða baráttu. Það tók á að fylgjast með Valdimar sinna sínum störfum af æðruleysi og dugnaði þrátt fyrir heilsuleysi, því ljóst var að honum elnaði sóttin með degi hverjum. Það var mjög erfitt fyrir mann sem nánast aldrei missti dag úr vinnu vegna veikinda að þurfa nú að sæta lagi eftir því sem heilsan leyfði. Símhringingar hans af sjúkrabeði þar sem hann fylgdist með að allt gengi samkvæmt áætlun voru algengar, ekkert mátti gleymast. Var nú skarð fyrir skildi þegar þeir viðskiptavinir er treyst höfðu á sérþekkingu Valdimars gripu í tómt. Valdimar var rólegur og yfirvegaður í skapi, var því gott að setjast niður með honum og ræða málin. Hann var fljótur að sjá kjarna málsins og eyddi ekki tíma í vífilengjur og þras. Valdimar hafði sérhæft sig í öllu því er viðkom vörubifreiðum en sá síðar um pantanir og birgðahald. Nákvæmni hans og samviskusemi nýttust einstaklega vel í því starfi. Algengt var að hann tæki með sér verkefni heim og víst er að honum var ekki launaður sá dugnaður að fullu. Valdimar kom hér við hjá okkur í síðasta sinn fyrir nokkrum vikum og var þá mjög af honum dregið. Var okkur þó ljóst að hann var ekki hér kominn til að kveðja. Sáum við þó að hverju stefndi og óttuðumst að fleiri yrðu innlit Valdimars ekki þótt baráttuþrekið væri fyrir hendi. Viljum við bræður þakka honum samstarfið í gegnum árin og sendum Þorgerði og börnum okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum guð að styrkja ykkur í sorginni.

Júlíus og Stefán Bjarnasynir.

Kæri Valdi, mig langar til að kveðja þig með nokkrum orðum. Ég kynntist þér þegar þú kvæntist systurdóttur minni, henni Gerðu, ég hitti ykkur í skírnarveislum, jólaboðum og afmælisboðum í fjölskyldunni, bæði á heimilinu ykkar á Bárugötunni og í Grundargerðinu hjá Lillu og Einari.

Ég man eftir atviki á Bárugötunni þegar þú varst að sýna mér nýju hljómtækin þín með stóru bassahátölurunum og spilaðir 1812-forleikinn, þegar fallbyssudrunurnar hljómuðu í verkinu nötraði húsið og fólkið kom af efri hæðinni og spurði hvort við hefðum fundið jarðskjálftann. Smám saman kynntist ég þér betur og fann hvað þú hugsaðir vel um fjölskylduna og börnin. Seinna bjóstu þeim gott heimili í Aðallandi. Þú varst vel heima í mörgum málum fyrir utan þitt fag, ég tók eftir því þegar rætt var um menn og málefni að þú talaðir aldrei illa um fólk, varst málefnalegur þó að oft væri hlegið að öllu saman.

En fyrir rúmu ári greindistu með alvarlegan sjúkdóm, þú þurftir að fara í erfiðar læknismeðferðir, en hélst samt áfram að vinna og vinnufélagar þínir reyndust þér vel.

Í október síðastliðnum ákváðuð þið Gerða að fara í sjö daga ferð til Egyptalands og buðuð mér að slást í hópinn. Ég þáði það með þökkum, þó að ég vissi að þú værir að berjast við sjúkdóminn og værir í meðferð gleymdi maður því oft vegna þess hvað þú varst hress enda hélt ég að þú svona ungur myndir ná bata og fá að njóta ástvina þinna, svo við gleymdum öllum áhyggjum og nutum ferðarinnar vel. Ég gleymi ekki litlu atviki þegar við fórum á skrautlegri hestakerru frá Luxor upp með Níl og leituðum uppi verslun í hverfi sem við höfðum komið í áður með rútu. Þú rataðir um allt eins og þú værir innfæddur og kaupmaðurinn sagði: "Nú takið þið ykkur góðan tíma til að skoða vörurnar, ég laga fyrir ykkur arabískt kaffi og sé um að hesturinn ykkar fái vatn og hey." Síðan tókum við okkur far með lítilli seglskútu og sigldum afslöppuð niður Níl til hótelsins. Með í ferðahópnum voru góðir vinir ykkar, þau Fanney, Hilmar og dóttir þeirra Sigga, þau reyndust góðir ferðafélagar. Þetta var frábær ferð, stórkostlegt að kynnast þessari fornu menningu með stórkostlegum byggingum, höggmyndum, myndlist, stjörnufræði og verkfræði, ekki síst að komast svolítið í snertingu við hugarheim þessa glæsilega fólks sem var uppi 2000 árum fyrir Krist, sem hugsaði svo mikið um dauðann og annað líf og taldi einnig að gerðir sínar yrðu vegnar og metnar eftir dauðann og að það fengi sinn dóm.

Valdi, í þessari ferð kynntist ég þér ennþá betur og mannkostum þínum, dáðist að innri ró þinni og nærgætni við Gerðu og ást hennar og umhyggju fyrir þér.

Ég bið guð að blessa þig og ástvini þína, Gerðu, börnin og systkini þín.

Jón Árni Vilmundarson.

Hilmar og Fanney.